Heima er bezt - 01.04.1973, Blaðsíða 21

Heima er bezt - 01.04.1973, Blaðsíða 21
„en gaman væri að koma hingað aftur, eftir sex til átta vikur, þegar blómin eru komin. Þetta er yndislegur staður. Hann minnir okkur á Jökulsárgljúfrin í smækk- aðri mynd.“ Við röltum af stað. Það leyndi sér ekki að hann hafði verið á eintali við móður náttúru, ekki síður en ég. Mér var farið að þykja nóg um hvað leiðin var spora- drjúg, þegar við nálguðumst Fornahvamm. Það þykkn- aði líka í lofti þegar leið á daginn. Það spáði heldur ekki góðu næsta dag, að norðanáttin var að sækja í sig veðrið. Bara við kæmumst þó klakklaust yfir Holta- vörðuheiðina á morgun, þá var einhver versti hjallinn að baki. í Fornahvammi fengum við beztu viðtökur. Og þegar heiðin barst í tal, var okkur sagt að vafalaust væri mikill snjór á henni og sjálfsagt ófærð á köflum þar sem hríðað hefði mikið eftir að farið var yfir hana fyrir fáum dög- um, en þá lét pósturinn illa af henni. Hitt var þó lakast að vörður á pörtum mundu að mestu eða alveg komnar í kaf. Á sumardaginn fyrsta hefði þó eitthvað augnað í þær, sem upp úr stæðu, því fram að hádegi hafði þar að líkindum verið sólskin. Það væri því mun gleggra að fara norður heiðina. í sæluhúsinu væri líka lélegur að- búnaður. En frá vörðunum mætti ekki víkja fyrir ókunnuga, þótt kunnugir hefðu þar öruggan leiðarvísi af ám er rynnu norður í Hrútafjörðinn. Við samsinnt- um þetta auðvitað allt, enda leyndi sér ekki, að hér var bæði af kunnugleika mælt og velvilja. 4. KAFLI Næsta morgun var fremur milt veður. Þó andaði á norðan með hríðarfjúki. Loftvog var fallandi en fór hægt. Við lögðum tímanlega af stað, þökkuðum hús- ráðendum ágætar viðtökur og leiðsögn, sem reyndist hin ábyggilegasta. Eftir tveggja tíma hægan gang vorum við víst áreið- anlega komnir inn á yfirráðasvæði Holtavörðuheiðar. Alltaf lakaðist færðin og alltaf dimmdi í lofti, þar til að síðustu var komin þreifandi þoka og molluhríð. Og ekki bætti það úr skák, að alltaf hækkaði landið og það kom út svitanum á mér. Það var ekki vel heppilegt ef veður versnaði og við þyrftum að berast fyrir á heiðinni. Víst gat það komið fyrir, ef vörðurnar brygðust okkur, en langt frá þeirri síðustu sem við legðum frá myndum við ekki fara. Heldur skyldum við norpa alla nóttina, eða þar til rofaði, svo við sæjum þá er við síðast yfirgáfum. Það kom líka fljótt í ljós að lítið fór fyrir þeim sumum. Þó var annað ekki betra. Þær hurfu okkur alveg, eftir að við vorum komnir norður fyrir þær. Svo mikil var ísingin þeim megin. Það fór eins og bóndinn í Forna- hvammi bjóst við. Vörðurnar sáust stórum betur sunn- an frá. Og það bætti heldur ekki um, að því lengra sem við komum norður á heiðina, því meiri varð snjórinn. Svo bættist þar á ofan, að nú fór að gola af norðri. Magnaðist hún fljótt svo hún fór að hreyfa fölið á köfl- um, en það köllum við Þingeyingar að „kisa“. Brátt herti á þar til kominn var þyljurenningur. Þá slóum við því föstu að bölvuð þokan hlyti nú að leggja á flótta. En það fór á annan veg. Hún hélzt allan daginn og var ég oft kominn á fremsta hlunn að segja Munda bróður, að þetta hlyti að vera gjörningaveður. Það komst þó aldrei fram á varirnar. Þessi undarlega þoka um hádag- inn, þótt svona golaði, minnti mig svo á útilegumanna- sögurnar, sem ég hafði lesið strákurinn og þótti hunang. En þar var þokan oft notuð til hagræðis fyrir þá, sem eitthvað kunnu fyrir sér. Svona römbuðum við óra tíma að mér fannst, því oft þurftum við að nema staðar og svipast eftir næstu vörðu, sem gat verið stutt undan þótt við sæjum hana ekki. En alltaf gekk Mundi bróðir á undan en ég í slóðina. Það var létt verk og löðurmannlegt. Við vissum að sæluhúsið stóð nálægt miðri heiði. Var ég oft búinn að velta því fyrir mér, hvort við virkilega hefðum farið framhjá því án þess að sjá grilla í það. Það væri annars ljóti snoppungurinn, því þar ætluðum við áreiðanlega að hvíla okkur stund. Áð líkindum voru þó svo góðar vörður þangað heim, væri það eitthvað afsíð- is, að ólíklega sæist okkur yfir þær. Stundum var þó svo blindað, að það var engu líkara en við værum að pauf- ast eftir örmjórri brú inni í iðulausu skýjaþykkni. Svo vorum við búnir að vera um fimm tíma frá Forna- hvammi. Þetta var ekki álitlegt. Halló. Þarna grillir í eitthvað voða ferlíki framundan. Mér sýnist það næstum eins og Natan & Olsens húsið í Reykjavík, sem var þó stærra en öll önnur hús í mínum augum. Bara að Sigurjón Pétursson væri nú kominn þarna með stóra lúðurinn sinn, sem ég heyrði hann stundum öskra í, þegar hann var að lýsa einhverri keppni sem þar fór fram í nágrenni svo flestir íbúar Reykja- víkur gætu fylgzt með henni. Ja, — þá yrði uppht á m é r og allur einmanaleikinn á Holtavörðuheiði ryki út í hafsauga, og þokan auðvitað með. Framhald í næsta blaði. BREFASKIPTI Birna Guðmundsdóttir, Lundi, Axarfirði, N.-Þing., óskar eftir bréfaskiptum við pilta og stúlkur á aldrinum 15—17 ára. Sigriður Eiriksdóttir, Túnsbergi, Hrunamannahreppi, Árnes- sýslu, óskar eftir bréfaskiptum við stúlkur á aldrinum 10—12 ára. Gunnar Guðmundsson, Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal, óskar eftir bréfaskiptum við stúlku á aldrinum 16—20 ára, má gjarnan eiga heima i Skagafirði. Þuriður Hallsteinsdóttir, Flateyri, Reyðarfirði, S.-Múl., óskar eftir bréfaskiptum við stúlkur og pilta á aldrinum 16—18 ára. Guðfinna S. Antonsdóttir, Skeggjastöðum, Vestur-Landeyjum, Rang., óskar eftir bréfaskiptum við pilta og stúlkur á aldrinum 15-18 ára. Heima er bezt 129

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.