Heima er bezt - 01.10.1983, Page 5

Heima er bezt - 01.10.1983, Page 5
„Ef maður lendir á trommunum getur gamanið kámað" segir Björg Bjömsdóttir, Lóni í Kelduhverfi, sem fagnar því að rafmagnsorgelum fer nú aftur fækkandi 1 kirkjum landsins Eg er fædd hérna í Lóni, 9. ágúst 1913. Við vorum 5 systkinin, sem komumst til fullorðinsára. Pabbi er fæddur á Svínaskála við Eskifjörð, en kom hingað að Lóni um það bil árs gamall. Móðir hans var hins vegar prestsdóttir frá Skinnastað í Öxarfirði, en Guðmundur Kristjánsson faðir hans frá Ærlækjarseli í Öxarfirði. Mitt fólk er sem sagt ættað héðan úr nágrenninu að nokkru leyti, móðurafi minn ættaður af Tjörnesi, en móðurforeldrar mínir bjuggu hér á Auðbjargarstöðum, næsta bæ, þegar mamma og pabbi voru að alast upp. Hér var venjulegur búskapur, kýr og kindur, — geitur höfðum við nokkur ár. Hér var líka æðarvarp og silungs- veiði, og í mínum uppvexti var farið í selaróðra á útmán- uðum. Silungsnet voru lögð í ósinn, en farið út um hann til selaveiðanna. Lax kom ekki til sögunnar fyrr en með laxeldisstöðinni á síðari árum. Hér var töluvert margt fólk í heimili, enda unnið meira á heimilum þá heldur en margur gerir sér grein fyrir núna. Til dæmis voru á hverjum vetri settir upp heilmiklir vefir í fatnað. Hér má segja að öll vinna hafi verið í heiðri höfð og andrúmsloftið gott. Það var mikið sungið og leikið á hljóðfæri. Bræður mínir Árni og Arngrímur lærðu báðir á orgel. Ég var víst ekki nema rúmlega 2 ára þegar komið var með orgelið inn í baðstofuna. Ég man nú aðeins eftir því. Ég held að fyrir foreldrum mínum hafi fyrst og fremst vakað að gefa okkur börnunum kost á að læra á hljóðfæri og njóta þess. Pabbi þekkti nóturnar og brá því fyrir sig að spila. Við spiluðum úr íslenska söngvasafninu, svo komu nú auðvitað sálmasöngsbækur og sönglagasöfn tónskáldanna, bæði eftir Jón Laxdal, Árna Thorsteinsson og Sigfús Ein- arsson. Þótt mikið væri lesið á heimilinu, þá mælti fólkið oft stökur og kvæði af munni fram, svo við kynntumst þeirri hlið íslenskunnar líka. Ég held að við höfum almennt kynnst góðum skáldskap og góðri tónlist. Annars má um þessi efni visa til lýsinganna í bókinni Lífsfletir, sem Björn Haraldsson ritaði um Árna bróður minn. Ég fór fyrst að heiman um 1930, í 3 mánuði á unglinga- skóla í Lundi í Öxarfirði. Um aðra skólagöngu var ekki að ræða, ef undan er skilið nokkurra vikna nám 3 vetur í barnaskóla sveitarinnar. Að sumu leyti langaði mig að læra meira, annars var ég svo skelfilegur rati í reikningi að ég veit ekki hvernig það hefði farið. Væri ég ung núna vildi ég fara í tónlistina, skilyrðislaust. Eað má segja, að ég hafi verið í tónlist, eftir því sem ég hef séð mér fært, alla tíð. Strax og byrjað var að fara með hljóðfæri hér á heimilinu hafði ég sérstakt gaman af að hlusta. Fólk tók víst til þess, að ég sat alltaf eins og klettur, ef sungið var eða spilað. Heimaerbezt 313

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.