Heima er bezt


Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 2

Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 2
Þegar vantar varmaföng vist og heyjaforðann, Þorradægur þykja löng þegar hann blæs á norðan. Svo var kveðið fyrir meira en heilli öld, og enn fer ekki hjá því, að þessari stöku skjóti við og við upp í hugann hjá okkur gamlingjunum, sem mun- um tímana tvenna, enda þótt sá Þorri, sem nú er hálfnaður hafi átt lítið sam- eiginlegt anda stökunnar eða hinni eiginlegu Þorramynd þjóðarinnar, sem í rauninni var hrímgrár jötunn með klakadröngla í skeggi og ógn og kuldi stafaði frá, og talinn var vís til að kyrkja allt líf í helgreipum sínum. Og það er sama myndin af Þorradægrun- um köldu og jötninum ægilega, er þeim réð, sem Kristján Fjallaskáld dregur upp í hinu alkunna kvæði sínu: „Nú er frost á Fróni“, sem enn er sungið á gleðimótum, jafnvel bæði vetur og sumar, og engum hvarflar í hug, að sé annað en gleðisöngur á borð við nútíma dægurlög. Ekkert er þó fjar sanni en þar séu gamanmál á ferðum. Miklu nær er að það sé neyðaróp samfélags í mynd einnar bændafjöl- skyldu, sem sér ekki fram á annað en skort og þjáningar, enda þótt skáldið eygi von í lokin, þar eð Þorri sé að kveðja, og vænta megi betri tíðar. Og líklega var það vonin á hinum löngu Þorradægrum, þegar hann blés á norðan, sem hélt lífinu í fólkinu svo að það gafst ekki upp en trúði á sigur hins góða, og birtu vorsins yfir vetrar- myrkrinu, þrátt fyrir allt. Þetta er löngu liðinn tími, jafnvel þótt norðanhríðarnar kynnu að geisa með öllum sínum þunga. Það er rétt aðeins að elsta kynslóðin muni hann, og þó varla í sínum versta ham. Þessi Þorradægur voru óaðskiljanlegur þáttur i lífi íslenska bændasamfélags- ins, þar sem allt lagðist á eitt, ein- angrun, fátækt, tæknileg vankunnátta í miðþorra og vanbúnaður. Flvert heimili varð að vera sjálfu sér nægt um flesta hluti. Samgönguleysið tálmaði því, að bjargræði yrði sótt til annarra, jafnvel þótt efni hefðu verið til, en þau skorti oft. Kaupmaðurinn var tregur til að láta kornlúku af hendi, enda mat- vörubirgðir hans oft af skornum skammti, ef mæta þurfti óvenjulegum kringumstæðum. Hvert heimili varð að búa að sínu, þeim forða, sem tekist hafði að afla yfir sumartímann, sem oft varð naumur þeim, sem allt sitt áttu undir sól og regni eins og Stephan G. kvað. íslenska sumarið er oft óþarf- lega sparsamt á sólskinsstundirnar en þvi örlátara á rosann og regnhryðj- urnar. Svo þykir oss enn, enda þótt þekking og kunnátta hafi fengið oss furðumörg tæki í hendur til að verjast duttlungum náttúrunnar og brynja oss gegn vetri og Þorra. Vér skulum minnast þess, að á þeim tima, er stak- an var kveðin um Þorradægrin löngu var allur búnaður sveitaheimilisins svo frumstæður, að allt um þrotlaust erfiði sumarsins varð vetrarforðinn oft ótrú- lega nærri sultarmörkunum fyrir fólk og fé. Afleiðing þess var síðan horfell- irinn, sem fylgdi þjóðinni allt frá dög- um Hrafna-Flóka, en afleiðing hans sífelld fátækt og umkomuleysi, enda þótt allt blessaðist þegar vel viðraði og veiddist. Einn fellivetur nægði til að eyða afrakstri af áratuga erfiði, og ef til vill varð aldrei viðreisnarvon það sem eftir var æfinnar. Stundum var að vísu forsjárleysi að kenna um óhöppin, og sú aldagamla venja að setja á Guð og gaddinn. En oft var sá hugsunarháttur sprottinn af illri nauðsyn. Það var ekki unnt að framfleyta fjölskyldu nema að lagt væri á tæpasta vaðið um stækkun bústofnsins. En því miður revndist vaðið oft of tæpt eða svikult. Eg hygg að oss, sem nú búum í hlýjum húsum og björtum, og höfum nægan matarforða, eða getum a.m.k. aflað hans ef eitthvað vantar, hefðum gott af að setja oss inn í kringumstæð- ur fólksins, sem hýrðist í dimmum, köldum og rökum kofum og lifði í sí- felldum ótta við að allt bjargræði þryti áður en vetrarfarginu létti, jörðin færi að gróa eða afli gæfist úr sjó. Ég held vér gerum það að minnsta kosti alltof sjaldan. Það væri oss þörf áminning, þegar vér hugleiðum allar þær kröfur, sem vér gerum til lífsins, og sækjumst eftir þægindum, sem í rauninni eru blekkingin tóm. Fátt er meira rætt nú en efnahagsvandinn. En hversu mikl- um fjármunum hafa þeir sóað, sem fjárráðin hafa haft í fánýta eða einskis verða hluti. Og eftir höfðinu dansa limirnir. Þegar þetta er skrifað er nýlokið langri og harðri deilu farmanna og skipaeigenda. Eg ætla hvorki að rekja þá deilu né dæma um deiluefni þess- ara aðila. En þetta er hin síendurtekna saga um skiptingu verðmæta, krafan um réttláta og sanngjarna skiptingu þess fjár, sem þjóðin aflar og hversu það mál verði leyst. En hvað blasti við þjóðinni undir lok deilunnar. Út- flutningsvörur landsmanna hrúguðust upp í landi, og sumar lágu ef til vill undir skemmdum, og markaðir er- lendis í hættu, ef ekki tækist að senda vörurnar í tæka tíð. Og ekki var langt undan, að skortur yrði á ýmsum nauðsynjum þeim, sem þarf til þess að hjól atvinnuveganna fengju snúist, og sitthvað hefði brátt vantað í daglegu lífi, þótt beint hungur væri ekki yfir- vofandi. Þarna voru að gerast ískyggi- leg tíðindi, allt um þægindi og tækni nútímans. Þetta sýndi oss ljóslega, að oft má litlu muna til að neyðarástand skapist meðal þjóðarinnar, þótt með öðrum hætti sé en þegar hafísinn spennti landið helgreipum, og Þorra- hríðarnar geisuðu og hrafn og refur skröltu soltnir á endalausum hjarn- breiðum. Slíkum hamförum náttur- 38 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.