Heima er bezt


Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 32

Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 32
Þuríður húsfreyja lá lengi vetrar sem milli heims og helju. En með vordögunum þegar sólin hækkaði gang og hún var borin út í hlaðvarpann til að njóta birtu og yls, þá virtist hún verða hressari og veita umhverfi sínu athygli, einkum þegar hún gat notið hins bjarta og hlýja sumars, sem fór í hönd. Dagarnir liðu og báru með sér, eins og gengur, sigra og töp. Áfall Þuríðar húsfreyju fékk mikið á Þorbjörn og var honum þungbært. Síðustu orðin sem hann hafði heyrt hana mæla sóttu að honum með endurtekinni áklögun, vegna þess að hann hafði virt þau að vettugi. Þau leituðu á huga hans og fléttuðust inn á minninguna um förina að Tóftum. Hann hafði farið þá ferð á móti vilja hennar, sem hann nú sá, að hún mundi hafa skynjað svo háskafulla, eða í hljóð- um hugblæ fundið þá álagafjötra, sem nú spunnust um veru hans. Erindið hans að Tóftum var að ná fundi Bjössa í þeim tilgangi að láta hann meðganga þann söguburð er honum var færður og var sannfærður um að var runnin undan rótum Björns í Skógum, sem alla tíð hafði eldað við hann grátt silfur. Heilladís hans, sem oft var honum hliðholl á erfiðum stundum, var ekki í för með honum. Ör og heitur í lund hafði hann snúið við heim á leið án þess að koma fram áformi ferðar sinnar. í stað þess endaði för hans við sjúkrabeð konunnar, sem hann fann, að var hluti af hans eigin lífi. Silla hafði komið hljóðlega inn, er hún sá líðan hins gamla húsbónda síns, og tók í hönd þessa stóra og sterka manns og leiddi hann frá sjúkrabeðnum þar sem hann stóð frammi fyrir ógn dauðans og á stund dapurra vona, þar sem stirðnað sjálf hans og vilji til ákvörðunar stóð kyrrt. □ En tíminn leið og dagarnir urðu að árum. Ýmsar ójöfnur í fasi og fari mannanna sléttuðust út smátt og smátt í önn og elju. Harðindatímarnir, er komu með stuttu millibili, hrjáðu menn og málleysingja, jafnvel svo að elstu menn mundu ekki eftir slíkum árum. Víða voru mikil brögð að margskonar pestum og farsóttum og annarri óáran, svo að kot og rýrari jarðir lögðust í eyði. Flosnuðu margir upp og áttu ekki annars úrkosti en verganginn. Förumenn þessir röltu milli bæja með föggur sínar í von um bónbjargir. Þó voru það farsóttirnar, sem þyngstum raunum ollu í læknislausum héruðum, og á mörgum bæjum engir til, sem veitt gætu hjúkrun eða farið slíkra erinda vegna kvilla eða annarrar vanbjargar. Helst voru það þó farandmenn er slíkra erinda fóru, en hættan var þá sú, sem eigi kom ósjaldan fyrir, að þeir báru sóttirnar með sér frá einum bæ til annars. Þrátt fyrir það voru slíkir ferðalangar oft au- fúsugestir á mörgum bænum, því víða var ríkjandi sá eðlisþáttur að forvitnilegt var að fregna af kjörum náung- ans. Forvitni um hag og afkomu, hnýsni og öfund var það, sem margur var haldinn af. Margur umrenningurinn var vel haldinn, ef hann bjó yfir góðum talanda og hafði frá mörgu að segja. Gróusögur voru því tíðum langlífar og bárust bæ frá bæ og færði sér það margur óspart í nyt, og tömdu sér að hafa frá ýmsu að segja. Móttökur sem slíkir menn hlutu voru oftast í hlutfalli við þá hylli, sem gesturinn naut. Almenningsálitið og sleggjudómar þess gat verið mörg- um örlagadómur, því að erfitt reyndist mörgum að rísa gegn eða hreinsa sig af slíkri sóttkveikju. Sú frétt, sem hóf göngu sína að morgni, gat að kveldi hljóðað á allt aðra lund og ókunnug um upphaf sitt. Með alls konar hjátrú fólksins var hið daglega líf fullt af torleiði og dæmi um að ollu heilsutjóni eða búsifjum. Svipir og fylgjur voru á flökti, dvergar og álfar voru í næsta hól eða klettasnös. Má í því sambandi skoða atburðina í Hvammi og hið sviplega áfall húsfreyjunnar. Þó náði spásögn þessi hámæli við hið þunga áfall er Hvammsheimilið enn á ný varð fyrir mislingavorið mikla, þegar taugaveikin gekk og olli dauða einkasonarins í Hvammi. Mörgum fannst þá, sem nóg væri þegar að gert. Þó vildu sumir rekja þá rás atburðanna til Jóa í Seli og endaloka þeirra, sem urðu á ævi hans, en það var sama haustið, sem litli Þorbjörn fæddist, að Jói varð úti. Aðrir röktu það til ýmiss átrúnaðar, sem þeir þóttust þekkja og sögðu sem satt að væru undanfari annarra og meiri tíðinda. Litli Þorbjörn í Hvammi var snemma þroskaður og leit þá út fyrir að verða mikill efnispiltur og liktist mjög í föðurættina. Þorbjörn hafði mikið dálæti á syni sínum, svo ekkert var það til, sem honum var fyrir munað, enda var sveinninn huggun föðursins í sorg hans í veikindum Þuriðar, er svo bráðlega höfðu borið að. En nú virtist sem enginn mætti sínum sköpum renna, því einmitt um það leyti, sem Þorbjörn virtist vera að taka upp sína fyrri háttu og elju við bústörfin, þá bar að Hvammsheimilinu óvel- kominn gest er skildi eftir sig djúp spor, en það var tauga- veiki, er barst þangað með förumanni er kom úr annarri sveit. Litli Þorbjörn tók veikina fljótt. Virtist í fyrstu, sem hún tæki hann létt, en svo elnaði sóttin með miklum hita, svo að vart mátti milli sjá, hvort hinn sjúki mundi fá það afborið, unz dag einn, að andardrátturinn varð léttari. Var þá eins og ný von vaknaði um að hið versta væri afstaðið. Þessar batahorfur færðu nýtt ljós inn í dapurleik daganna, en slíkt var ekki nema stundarfró, því að brátt elnaði sóttin aftur, og þá með meiri ofsa en áður, unz yfir lauk á öðrum degi þar frá. Dauðinn hafði kveðið upp sinn dóm. Hinn sjúki sonur varð liðið lík. Svipur þjáningarinnar, sem mótast hafði á sóttheitu andlitinu, rann eins og fölvi út í heiðríkju morg- unsins, en í staðinn breiddist yfir ásjónuna höfgi friðar og fegurðar. Heilsufar Þuríðar húsfreyju var enn það fjarrænt eftir heilablæðinguna, að það bar ekki með sér svipmót, en tárin á kinn hennar tjáði skynjun um leið og þau boðuðu kvíða fyrir seinkun á þráðum batahorfum. Þorbjörn hafði vakað við rúm sonar síns og aldrei þaðan vikið, hvorki nótt eða dag, unz yfir lauk. 68 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.