Heima er bezt


Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 24

Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 24
orðnir sauðir, en flestir reyndu að hafa þá til heimalógunar, höfðu 50-65 punda skrokk og 12-18 pund af mör. Kýr voru fremur nytlágar. Þótti gott ef þær mjólkuðu 9-13 merkur í mál. Fóður þeirra var og fremur af skornum skammti. Þótti sæmilegt ef þær fengu 8-10 pund af töðu í mál. Um fóðurbæti var naumast að ræða, nema helst að þær fengju örlítið af soðinni saltri síld og stundum sem svaraði kaffibolla af rúgmjöli út á hana. Jafnan gengu skepnur sæmilega og oftast vel fram á vori hverju þar, sem ég þekkti best til, og aldrei sá ég skepnur líða af fóðurskorti, sem ég gleðst af að geta nú vitnað, en því miður var það þó ekki óþekkt fyrirbæri á þessum árum. En þess skulu menn vel gæta, er þeir leggja dóm á þá, sem létu gripi sína líða fóðurskort og jafnvel hordauða á þessum tíma, að þetta var harðara tímabil og búnaðarhættir allir frumstæðir. Árin frá því milli 1870-80 og allt fram undir 1887 á Austurlandi hafa ekki hlotið nafnið „hörðu árin“ að tilefnislausu. Þau voru erfið. Þessi ár, sem ég hefi hér talað um í sambandi við land- búskap, eru árin 1880-1887. Eftir það fór óðum að breytast til hins betra í þessu efni, að minnsta kosti við sjávarsíðuna. Kemur þar til greina hinn mikli styrkur, sem landbúnað- urinn hlaut frá sjónum á afla- og síldarárunum miklu og sagt verður frá hér á eftir. Þó ég hafi hér að framan í frásögn minni bundið mig að nokkru leyti við Berunes, er það víst, að hún á jafnt við á öllum heimilum í næsta nágrenni og jafnvel í ýmsum greinum á öllu Austurlandi. Lífið á þessum árum var næsta líkt í heilum landsfjórðungum. Af því sem sagt hefir verið, má fara nærri um það, að efnahag manna var ekki þannig farið, að lífið gæti á nokk- urn hátt verið margbrotið eða boðið upp á mikil þægindi. Flestir þóttust góðir, sem gátu veitt sér og heimilisfólki sínu hinar brýnustu nauðsynjar til matar og klæða. Allt var nýtt til hins ýtrasta. Engu var fleygt, sem hægt var að nota til matar. En með því er ekki sagt, að þetta væri neitt óæti. T.d. voru hirtir til matar af sjófangi allir sundmagar úr þorski og löngu, öll hrogn og kútmagar úr löngu og þorski. Þetta var vandlega verkað, soðið og súrsað í mjólkursýru og var þannig með farið besti matur. Sömuleiðis voru allir hausar af löngu og þorski rifnir upp, hertir og etnir þannig. Aldrei var fleygt uggum og roðum af harðfiski, en látið í sýru og etið, þegar það var orðið gegnsúrt og beinin meyr. Hungurvofan, sem þarna og víðar hafði verið á ferð fyrir tiltölulega stuttum tíma, var gamla fólkinu minnisstæð, og þurfti ekki gamalt fólk til. Á þessum árum var á Berunesi hjá Guðrúnu og Sigurði vinnukona um fertugt, sem Björg hét og var Árnadóttir. Var hún ættuð úr og fædd í Horna- firði. Sagðist hún muna eftir fólki, sem lent hafði í þeim ósköpum að skafa upp og matbúa skóvörp og önnur notuð skinn til næringar sér. Alveg það sama gilti um allt það, er að klæðnaði laut. Föt, plögg og skór, voru margbætt og notað eins lengi og hægt var. En eins og að líkum lætur, var þó alltaf verið að endurnýja þetta. Allt var það heimaunnið úr heimafengnu efni. Gilti það eins um spariföt sem annað. Það var hvergi hægt að leitast fyrir til úrbóta í því efni. Klæðskerar voru hvergi í nálægð. Það gat þó komið fyrir, að einhver maður næði sér í útlendan fatnað til spari. En það þótti að berast fullmikið á. Ekki hefðu og gömlu bændurnir, sem þá voru, og síst þeir, er bestir voru búmenn taldir, fúsari gefið dætur sínar þeim, sem slíkan fatnað báru en hinum, er í heimaunnum flíkum gengu. Bændur þessa tíma beygðu ekki kné í lotningu fyrir útlendum varningi. En þeir lögðu áherslu á að „hollur er heimafenginn baggi“. Fyrst þegar ég man til, gengu allir á íslenskum skóm, bæði til spari og hversdagslega. Hversdagsskór karla voru ýmist af leðri, nauta eða hrossa, eða skrápskinni (hákarls- skinni), þar sem það var til. Var það fremur endingarlítið, en framúrskarandi þokkalegt, ef vel var verkað. Allir svona skór voru verptir með sauðskinnsþvengjum, eða hvalseymi, ef til var. Úr sama efni voru og hæl- og tásaumar gerðir. Kvenskór voru ætíð úr sauðskinni eða selskinni, ef til var. Þeir voru bryddaðir, annað hvort með hvítu lérefti eða vel eltu sauðskinni. Þeir voru og ávallt litaðir úr hellulit eða sortulyngi. Þessir skór, þegar þeir voru úr vel verkuðu skinni og vel tilbúnir, gátu verið hinn prýðilegasti fóta- búnaður. Sams konar skó og hér greinir frá báru og karlar til spari. Til enn meiri prýði voru þeir þá í leistum úr bláu (farfalituðu) bandi með kríthvítri rönd við fitina. Þetta þótti reglulega fínt. Þegar karlmenn bjuggu sig viðhafnarfótabúnaði til ferðalaga, voru þeir í svörtum háleistum sem kallaðir voru. Þeir náðu upp í sokkabandshæð, rétt undir hnésbót. Ofan í þessa leista voru svo buxurnar brotnar, en ekki þótti þetta í lagi, ef nokkurs staðar sást hrukka á leistunum. Aðeins örfáir menn áttu sjóstígvél eða vaðstígvél sem þau voru oftar nefnd. Hinn almenni fótabúnaður við sjóinn voru skinnsokkar úr sauðaskinnum. Voru þeir allt-til sokkabands. Þeir voru alltaf úr lituðu skinni, ýmist úr sortulyngi, blásteini (eirlitaðir) eða hellulit. Hlífðarföt í rigningu og við sjó, voru olíubornar léreftsburur (olíu- treyjur) og buxur af sama efni. Þessar verjur, olíuföt og sjóstígvél, fluttust til Austfjarða með norskum síldveiði- mönnum. Oft hefi ég hugsað um það, eftir að ég varð fullorðinn, hversu lítinn eldivið þurfti að nota á þessum árum. Skánin undan sauðfénu (sauðatað) var aðaleldsneytið, en það var ekki næsta mikið. Einnig var tínt að sumrinu allt hagatað, sem til náðist, þurr þari úr fjörunum ásamt öllu rekamori og smáspýtum. Þá féllst og til nokkuð af spýtum úr raft- húsum þeim, er þurfti að endurbæta ár hvert. Á vorin, en þá var ætíð þrengst í búi, var oft farið í hagann til sprekatínslu og þá stundum einnig rifið kjarr og lyng til brennslu. Til allrar þessarar eldsneytistínslu voru krakkar notaðir eins og hægt var. Þótti okkur gaman að slíku. Kol voru sjaldan keypt, nema einn og einn poki, enda ekki auðfengin á þessum árum. Framhald í næsta blaði. 60 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.