Heima er bezt


Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 25

Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 25
BRYNJÚLFUR SIGURÐSSON, Kópaskeri: Hvaða dýr voru það? Árið 1899 fluttust frá Hofi í Álftafirði eystra hjónin Jón Björnsson og Vil- borg Jónsdóttir. Höfðu þau búið þar um skeið og Vilborg var raunar alin þar upp, sem kjördóttir sr. Þórarins Erlendssonar og konu hans, en Jón var bóndasonur frá Flugustöðum, sonur Björns Antóniussonar er þar bjó lengi og konu hans Kristínar Sig- urðardóttur, Brynjúlfssonar frá Múla í sömu sveit. Þessi hjón voru að flytja búferlum að hinu gamla kirkju- og prestssetri Hálsi við Hamarsfjörð. Voru hjónin móðurforeldrar þess er hér segir frá. Með þeim að Hálsi fluttust og börn þeirra á ýmsu reki ára. Guðný var elst barnanna og var þegar hér er komið sögu orðin 17 ára, en Kristín, sem var næst henni að aldri var þá 15 ára og Þórarinn sem var þar næstur í röðinni mun hafa verið 13 ára. Það eru systkinin Kristín og Þórarinn, sem segir frá í grein þessari, og er líklegt að sýn sú er fyrir þau bar hafi gerst aldamótaárið. Á þessum árum voru fráfærur tíðk- aðar víða um land og lengi síðan og hjá Jóni Björnssyni var síðast fært frá sumarið 1925 og bjó hann þá á Flugustöðum. Voru það síðustu frá- færur á þessum slóðum og var þá undirritaður smali með yngri bróður sínum, en það er nú önnur saga og verður ekki sögð hér. Það var nú ein- mitt starfi þeirra systkinanna á Hálsi að sitja yfir kvíaánum og voru þau með þær á daginn á ýmsum stöðum í fjöllunum eða á hálsunum og undu þau sér hið besta, enda margt sem gleður augað í Hálslandi, Þar er margur staðurinn fagur og verður ekki skoðaður í einni sjónhending, svo sem örnefni eins og Hultrar sanna, en það orð eða heiti táknar hið sama og leyningur. Þarna eru angandi blóma- brekkur og margur kletturinn að klífa í. Að kvöldi, eftir að búið var að mjalta ærnar voru þær reknar niður að firðinum, sem er ekki löng leið, niður að svo kallaðri Hálshöfn og þar voru þær bældar undir nóttina. Háls- höfn er gamalt uppsátur og eru þar malarfjörur og fremur aðdjúpt og minni munur flóðs og fjöru en innar í firðinum og lítið er þar um flúðir. Þarna eru víða smábásar og vogar með ströndinni og einkar aðlaðandi. Ofan fjörunnar er vel gróið og er þar bæði valllendi og mýrargróður og hinir bestu hagar fyrir búpening. Svo bar við um kvöld að áliðnum júlímánuði og örlítið farið að húma, einkum ef skýjað var, að þau systkinin fóru með ærnar niður að firði til að bæla þær. Veðri var svo háttað, að það var stillilogn og lá fjörðurinn sem spegill fyrir fótum þeirra. Þegar þau voru komin ofan í Höfnina, stöðvuðu þau ærnar, sem þegar að vananum tóku að leggjast og fóru að jórtra ósköp værðarlega í kvöldblíðunni. Systkinin settust á grasbarð ofan við fjöru- kambinn og biðu þess að allar ærnar leggðust, því þá fyrst máttu þau yfir- gefa þær, er þær væru allar lagstar. Eftir nokkra bið bjuggust þau að halda heim, en þá veitti annað þeirra einhverri hreyfingu niður í fjörunni eftirtekt og beindi athygli hins að þessu, en þarna gaf á að líta þrjú lítil dýr, sem voru þarna allt í einu komin. Dýr þessi líktust helst litlum tíkar- hvolpum, nema þau virtust þó mjó- slegnari og mun kvikari eða sneggri í hreyfingum. Þeim fannst þau helst vera tvílit og var annar liturinn ljósari, en hinn, helst grálitir og öll eins á lit. Systkinin urðu nú harla undrandi að sjá þessi ókennilegu dýr og datt helst í hug tíkarhvolpar. Þau tóku því það ráð að reyna að kalla á hvutta, og það gerðu þau og þó ekki hátt. Dýrum þessum brá svo við þetta að þau héldu þegar af stað niður að sjónum og hurfu sjónum systkinanna, sem undr- andi störðu á eftir þeim, því aldrei höfðu þau heyrt að tíkarhvolpar hegðuðu sér svona. Þau fóru síðan leitandi og skimandi með fjörunni, ef ske kynni að dýrin skriðu aftur á land, eða kæmu úr kafinu en ekkert skeði í þá áttina. Hinkruðu þau þarna góða stund en fóru siðan heim og sögðu frá þessum atburði, sem þótti all kynlegur að vonum, en ekki voru þau rengd, því allir þekktu þau að heiðarleika í orði og varð þessi atburður kunnur þar um slóðir, en fyrntist með tíman- um svo sem löngum er. Þegar ég nú rifja upp þennan atburð af frásögn móður minnar, en hún sagði þó nokkrum sinnum frá þessu, þá verður mér eins og henni á að spyrja: Hver voru þessi dýr og hefur einhver séð slík dýr og getur nokkur gefið skýr- ingu á þessum atburði? Sem eftirmála við framan sagt, þá vil ég geta þess að ég spurði móður mína ítarlega eftir því, hvernig veður og birta hefði verið þetta kvöld og lýsti hún því eins og sagt er hér að framan. Eins spurði ég hana hvort þetta gætu ekki hafa verið fuglar, t.d. æðarkollur eða endur. Hún kvað það alls ekki verið hafa, því að þau hefðu greinilega séð að dýrin hefðu gengið á fjórum fótum og haft fremur stutt skott, sem þau hefðu dregið. Einnig vil ég geta þess, að ég átti tal við frændsystkini mín, börn Þórarins, Elis sem búsettur er á Djúpavogi og Odd- nýju, sem heima á í Reykjavik, og spurði þau hvort þau hefðu ekki heyrt föður sinn tala um þetta. Þau töldu sig bæði ráma í það, en óljóst, enda væri það langt siðan að farið væri að fyrn- ast yfir þetta. Fyrir mitt leyti, þá man ég greinilega þessa frásögn móður minnar, enda svo oft búinn að heyra hana segja frá þessu. Svo var það alltaf ætlan mín að koma þessu á prent, þó það hafi dregist alltof lengi fyrir mér. Kópaskeri í febrúar 1987. Heimaerbezt 61

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.