Heima er bezt


Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 18

Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 18
sem straumar eru stríðir og undirorpnir sjávarföllum. Stýrimaðurinn minnir helst á knapa, sem verður að hafa öruggt taumhald á fráum og viljugum fáki og velja honum réttar götur. Jóhan Hendrik hefur góð tök á báti sinum og gefur sér þó tíma til þess að benda okkur á athyglisverða staði og greina frá örnefnum. Fyrst er siglt meðfram ströndinni í átt að fyrrnefndum klöppum neðan við bústað þeirra hjóna. „Hann stendur við klettinn,“ segir Jóhan. Það er orðtak um réttar aðstæður og því sveigir hann nú út á fjörðinn. Fæðingarstaður Sverris konungs Jóhan bendir upp í fjallið fyrir ofan Kirkjubæ. „Þarna uppi undir brún er Sverrishola," segir hann. „Þar hermir þjóðsagan að sveininum Sverri Sigurðssyni hafi forðum verið leynt, þegar óttast var um líf hans vegna þess upp- runa, sem gat gert hann réttborinn til konungserfða í Noregi. Og sú kom tíð, að hann gerðist konungur þar og varð þar að auki ættfaðir norsku konungsættarinnar. Hins vegar eru ekki áreiðanlegar heimildir um uppruna hans. En það sem telja má sannleikanum samkvæmt er að Sverrir ólst upp hér í Kirkjubæ hjá Hróari biskupi og lærði til prests í skóla þeim, sem stofnaður var á biskupsstólnum líkt og á Hólum og í Skálholti í fyrndinni. Við vitum raunar harla lítið um miðaldasögu Færeyja nema það að eyjarnar voru kristnaðar um líkt leyti og ísland og að lögþing líkt og fylkisþingin í Noregi var snemma háð í Þórshöfn. Þá vitum við, að árið 1100 urðu Færeyjar sérstakt biskupsdæmi og að biskupssetrið var frá öndverðu hér í Kirkjubæ. Fram um miðja 12. öld heyrði biskupsstóllinn hér undir erkibiskup- inn í Lundi, en frá þeim tíma lutu Færeyjar nýstofnuðum erkibiskupsstól í Þrándheimi. Nöfn allra biskupanna, sem hér sátu, hafa varðveist. Þeir munu hafa verið 35 í kaþólskum sið og þeirra sögufrægastur var Erlendur kanúki frá Björgvin, sem sat hér í 40 ár (frá árinu 1268) og auðgaði kirkjuna mjög að jarðeignum og veraldargóssi. Og hann reisti ófullgerðu dómkirkjuna þarna uppi, sem i dag- legu tali er kölluð múrurin. En svo við víkjum aftur að Sverrisholunni, sem ég var að benda ykkur á, þá eru þar líklega ámóta merkilegar minjar að sögulegu gildi og ýmis Grettisbæli eða Grettistök, sem við könnumst við á íslandi. Og ég held það taki því varla fyrir okkur að klöngrast þangað upp, þegar við komum aftur heim, enda á brattann að sækja. Fegurðarkröfunni skipað í öndvegi Jóhan Hendrik hefur aukið ferðina og við erum nú komin út á Hestsfjörðinn miðjan. Á vinstri hönd sjáum við ferjuna frá Þórshöfn sigla með boðaföllum áleiðis til Skopun á norðurenda Sandeyjar, sem blasir héðan við okkur í suð- vestri. Brátt hverfur sú sýn, er við nálgumst áfangastað. Þorpið á Hesti er beint framundan okkur nokkurn veginn fyrir miðri sæbrattri ströndinni, sem að firðinum veit (ath. þess ber að gæta að fjörðurinn er raunverulega sund á milli eyja, en þau eru yfirleitt nefndir firðir). Það er varla hægt að tala um fjöru, því ekkert undirlendi er þarna, heldur samfellt brattlendi ofan frá fjallsegginni og niður í sjó. Þó nokkuð mörg íbúðarhús eru í þorpinu (sbr. ljósmyndir, sem birtast hér á baksíðu) upp af hafnargarðinum, er lokar mjög sérstæðri bátahöfn að vestan. Þar siglum við brátt inn. Er tryggilega frá öllu gengið og minnir helst á rammgert virki. Uppi yfir steinsteyptum kanti gnæfir margra mann- hæða hár veggur hlaðinn úr sæbörðu grjóti. Hleðslan minnir mig helst á víðfræga veggi í fjárhúsum Árna bónda á Eyri á Flateyjardal, þar sem hver steinn var valinn af nákvæmni i hleðsluna. En það athyglisverða er, að það eru aðeins fáein ár síðan þessi veggur á Hesti var hlaðinn á steyptan bakgrunn. Gert var ráð fyrir af yfirmönnum hafnarmála í Færeyjum, að veggurinn yrði einungis steyptur sléttur, en heimamenn aftóku það með öllu og töldu smekkleysu. Hafa ber í huga, að hér búa aðeins á milli 40 og 50 manns. En það hindraði ekki framkvæmdir. Fegurðarkröfunni var skipað í öndvegi, en hagkvæmni og hraðaviðleitni nútímans vikið til hliðar og sér enginn eftir því. Þetta er mesta framkvæmdaundur, sem við rákumst á í þessu fámenna byggðarlagi. Næst því kemur nýtískuleg sundlaug eða sundhöll, sennilega um 15 til 20 metrar á lengd. Þetta veglega hús var reist fyrir nokkrum árum. Ástæða til þess var fyrst og fremst sú, að bát hvolfdi nokkuð fyrir framan lendinguna og tveir ungir menn fórust. Þeir voru ósyndir og töldu menn, að annars hefðu þeir bjargast. Og oddviti Hests, Jóhan Niclasen, ákvað þá að beita sér fyrir byggingu varanlegs sundstaðar á eyjunni. Þar sem ekki er heitt vatn í jörðu og veðurskilyrði ekki alltaf sem best, taldi hann sjálfsagt að reisa vandaða yfirbyggða sundlaug. Og þarna blasir þetta mannvirki við okkur sem talandi tákn um gildi brennandi hugsjóna, sem bornar eru fram til sigurs með viljastyrk og samheldni. Heilsað upp á heyskaparfólk og komið ,,inn á gólf“ Við göngum þröngar götur milli húsanna og virðum fyrir okkur sérkennilegar byggingar. Þegar við höfum orð á því, hve þröng húsasundin eru, segir Jóhan, að sú regla gildi, að sund af þessu tagi megi ekki vera þrengri en það, að hægt sé með góðu móti að negla í veggina með hamri. Þarna er gamall bær í miðju þorpi með torfþaki og opið fjárskýli er þar áfast (sbr. mynd á baksíðu). Hér býr fólk ekki lengur, en skýlið er í góðu gildi og ilmar af sauðataði. í þorpinu miðju er dálítil verslun, sem að sjálfsögðu er lokuð á laugardegi. Þegar við nemum staðar við lítinn 54 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.