Heima er bezt


Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 31

Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 31
ARINBJÖRN ÁRNASON Undir álagadómi IX. HLUTI Við Fálkanibbur mætir Þorbjörn vinnumanni sínum er kom hér til móts við hann með þau skilaboð að Þuríður húsfreyja hefði veikst. Þórólfi vinnumanni var mikið niðri fyrir og bar ört á. Tjáði hann síðan Þorbirni að Þuríður húsfreyja hefði verið ein frammi í búri. Þá heyrist hvar hún hljóðar upp hræðsluópi. Silla var nýkomin og sat hjá okkur inni í bað- stofu. Brá hún skjótt við og hljóp fram. Lá þá blessuð húsmóðirin á gólfinu. í fyrstu hélt Silla að hún væri dáin, en hún opnaði augun og stundi ofurlágt — Borgþór —. Þorbjörn beið ekki eftir fleiri fréttum, heldur hvatti hest sinn. Sörli hóf sig á ferð eins og hann væri hluttakandi í því tilfinningaróti er byltist um í skapi knapans. Klárnum skilaði ört áfram, Strútur gamli fylgdi fast eftir, sem leystur úr álögum við fjörblossa Sörla. Er heim að bænum kom, sté Þorbjörn skjótt af baki og hljóp til baðstofu. Þórólfur var enn langt undan, út við Móholt, því hestur hans átti engin þau viðbrögð sem Sörli, eða þá leiftrandi fjörblossa sem hinn aldni gæðingur. Þegar Þorbjörn kom til baðstofu, mætti honum aðeins þögnin, tóm og geigvænleg. Heimilisfólkið sem varð á vegi hans var þögult og hnípið, sem það óttaðist að hið minnsta hljóð gæti ráðið úrslitum, orðið orsök skelfingar sem það bar í gaupnir sér. Þó greindi hann í leiftursýn örlagastund lífs síns í augnaráði þess, enda þótt vonarglampa brygði fyrir i svip hjúa hans að með honum mundi koma hjálpin. Hann var hinn stóri og sterki og í því trausti átti það sitt öryggi gegn því óyfirstíganlega. í dyrunum á svefnherbergi þeirra hjóna stóð Silla, þegar Þorbjörn vatt sér inn. Tárin runnu niður kinnar hennar, orðlaus beið hún þess aðeins að víkja sér til hliðar, er Þorbjörn sté inn. Hann gekk hiklaust að rúminu þar sem Þuríður hvíldi föl og án vitundar um komu hans, og í stað þess að mæla, þá riðaði hann við á fótum og festi tak á fótagafli rúmsins með óstyrkri hendi. 1 umkomuleysi og örþroti fannst honum hann standa frammi fyrir ógnarvaldi dauðans. Hann tók í kalda og þvala höndina, sem lá ofan á sænginni, án viðbragðs eða svars, í hugskot hans komu minningarnar, sumar ljúfar og aðrar sárar, sambland af sorg og sælu, söknuður út af glötuðum tækifærum og kvíði vegna þess ókomna. Brjóstið var þungt, það beið eftir augnabliki, sem gæti boðað líf, rödd hans sjálfs var þurr og hljómlaus og fjaraði út í þögn, án andsvars án samhljóms. Silla hafði smokrað sér út úr dyrunum, er hún þóttist hafa lesið af andlitsdráttum gamla húsbónda síns, það sem hún sjálf ályktaði. Þórður fjósamaður hafði farið út úr baðstofunni, er hann sá Þorbjörn koma inn. Var hann nú úti á hlaðvarpa í sam- ræðum við Þórólf, er stóð þar enn og hélt í tauminn á Sörla og Jarpi. Ræddust þeir við af alúð og eindrægni um atburði dagsins. Allur kali, sem áður var á þeirra í millum út af ýmsum árekstrum eða metingi vegna starfa eða aðbúðar hvors annars, var nú horfinn. Báðum var þeim eitt og hið sama í huga, harmur heimilisins. Aðför dauðans var í ná- vígi við kringumstæður þeirra, það góða sem hún var þeim. Er hún dáin? var spurn þeirra beggja, en hvorugur gat svarað. Húsmóðirin, sem þeir elskuðu og virtu, var hún nú tekin frá þeim, mundu þeir aldrei framar geta lotið boði hennar? Sorg þeirra var gagnkvæm, hún leiddi þá til skilnings á högum hvors annars og mati hins. Guðrún gamla, sem hafði komið að Hvammi síðastliðið vor, kom haltrandi út með prjónana sína og bandhnykilinn í hand- arkrikanum. Þannig tíndist heimilisfólkið út, hver á fætur öðru, án vitundar um erindi, en knúið ómótstæðilegum áhrifum. Enginn yrti á annan, þó lá spurningin um tildrög og afleiðingu hlutlæg í loftinu á milli þess. Silla hélt svuntuhorninu við augu sér og grét. Augu mættust í langri þögn. Dulinn ótti bjó um sig í svip þess og endurspeglaði umkomuleysi gegn því óyfirstíganlega. Sörli krafsaði fótum niður og frísaði óþolinmóðlega og vakti til vitundar athygli fólksins, sem stóð þar án takmarks um tilvist á hinni líðandi stund. Mönnunum tveimur sem áttu hald við taum hestsins bjó það sama í brjósti, misklíð sem áður hafði aðskilið þá, laut fyrir því sameiginlega, sem báðir áttu. Þeir komu hér að Hvammi fyrir mörgum árum. Spor þeirra og strit gerði þeim minninguna ljúfa, því svo margs var að minnast. Stundum hafði borið á misjöfnu á millum þeirra, sem nú var gleymt. Kuldinn, sem setzt hafði að og orðið ís, bráðnaði við tár Sillu, er flutu inn á söknuð þeirra, því öll áttu þau það sama og saman treguðu þau hlut sinn. Fátt er nú yndi, flugið misst, fuglinn minn dó í gær. Brotnar við hlunna bára þung, brimar hinn úfni sær. □ Heima er bezl 67

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.