Heima er bezt


Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 27

Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 27
var sauðfé búið að standa inni í 22 vikur og margir bændur að verða heylausir. Þá var það að fimm bændur í Mælifells- og Reykja- sóknum ákváðu að reka fé sitt fram í Þorljótsstaðarunu. Þeir voru: Séra Jón Magnússon á Mælifelli, Bjarni Bene- diktsson bóndi í Hamarsgerði, Jón Tómasson bóndi í Brekkukoti. Hann var sonur Tómasar Tómassonar hrepp- stjóra á Syðra-Vatni, mikill á velli og hraustmenni. Þor- grímur Bjarnason bóndi á Starrastöðum, góður bóndi með allstórt bú. Hann átti þá skammt ólifað. Á næsta ári veiktist hann og dó á Akureyrarspítala. Eftir hann orti Matthías Jochumsson hið ágæta kvæði „Þorgrímur á spítalanum“. Fimmti ábúandinn, er rak fé sitt í Runu, var Elín Arnljóts- dóttir á Hafgrímsstöðum. Hún bjó þar með ráðsmanni, er hét Stefán Jóhannesson. Vinnumaður þar var Jóhannes Sigvaldason 24 ára. (17. apríl). Síðasta sunnudag í vetri fór Jón Tómasson fram að Þorljótsstöðum til þess að fá leyfi landeiganda. Þá bjó á Þorljótsstöðum Hjálmar Þorláksson, síðar bóndi í Villingadal, með fyrri konu sinni, Kristínu Þorsteinsdóttur. Hjálmar tók erindinu vel, og sagði, að það væri velkomið að fara með féð í Runu, ef það gæti orðið til bjargar. Frá þessum fimm bændum, sem nefndir hafa verið, var 11 hundruð fjár rekið fram í Runu, þar af 4 hundruð eða fleira frá Mælifelli. Það voru ær og gemlingar. Nokkrir sauðir voru frá Mælifelli, en ekki voru sauðir frá öðrum bæjum. í sumarmálavikunni var féð rekið áleiðis fram í dalinn, líklega seinni part vikunnar, því á sumardaginn fyrsta var norðanhrið með talsverðu frosti. Á sunnudaginn fyrsta í sumri, var hiti heldur yfir frostmarki, en snjóaði feiknamikið í logni og frysti svo aftur. Eftir það var stillt tíð fram um miðjan maí að hlánaði, en kalt og frost um nætur. 950 fjár var rekið í einum hóp fram Tungusveit með bæjum. Jóhannes Sigvaldason fór degi síðar með Hafgrímsstaðafé 150 fjár. Féð var rekið í einum áfanga fram að Bjarnastaðahlíð, en frá Mælifelli og þangað eru rúmir 20 km. Séra Jón Magnússon var sjálfur með fé sínu, var ríðandi og teymdi hest sinn á undan. Nokkur stóðhross voru rekin á undan fram að Sveinsstöðum, því ófærðin var átakanleg. Björn Þorkelsson bóndi á Sveinsstöðum bauðst til að láta gefa fénu og var 800 fjár gefið þar, látið í fjárhús og hesthús og gefið til skiptis. 150 fjár var gefið á Hóli. Björn á Sveinsstöðum lánaði fjóra fola, sem hann hafði á húsi, til að troða slóð á undan fénu fram að brú. Þennan vetur var minni snjór í Vesturdal fyrir framan Jökulsá, og á sumum bæjum þar einhver beit fyrir fé. Þá var Sveinn Guðmundsson bóndi í Bjarnastaðahlíð. Mælt er, að Sveinn bóndi hafi sagt við séra Jón Magnússon, þegar hið mikla fjársafn var komið þangað, að nú hafi verið gott að hafa brúna á Jökulsá, en prestur hafi fáu svarað. Þann tima, sem féð var i Runu, voru þrír gæzlumenn, er héldu til á Þorljótsstöðum og gengu í kringum féð á hverj- um degi. Auk þeirra fór Hjálmar bóndi oftast með þeim. Jóhannes Sigvaldason vinnumaður á Hafgrímsstöðum var allan tímann. Guðmundur Guðmundsson vinnumaður á Starrastöðum var fyrstu dagana, en varð veikur í augum af snjóbirtu og varð að fara heim. Eftir það voru þeir til skiptis Þorgrímur á Starrastöðum og Jón í Brekkukoti. Guðmundur Guðmundsson hafði verið vinnumaður hjá séra Jóni á Mælifelli frá því hann kom þangað, en fluttist árið áður að Starrastöðum. Þriðji fjárgæzlumaðurinn var Þorvaldur Jónsson frá Mælifelli, kenndur við Staðartungu í Hörgárdal. Jóhannes Sigvaldason segir, að hann hafi verið vinnumaður á Mæli- felli, en hann er ekki skráður þar á manntali, en gæti hafa verið vetrarmaður. Jóhannes lýsir Þorvaldi þannig: Hann var elztur þeirra göngumanna, kominn um sextugt, meðalmaður á hæð, þrekinn, fríður sýnum, kringluleitur, með alskegg ofan á bringu, skáldmæltur og skemmtilegur, þótti gott vín. Þegar féð var komið fram i Runu var þar rauð jörð að mestu, snjór aðeins í skurðum og lægðum. Hofsá var á þilju, það er ísi lögð víðast, og snjór var svo mikill vestan ár á Lambatungum, að ekki sá á dökkan díl. Féð var spakt í Runu, enda hafði það nóg að bíta. Á hverjum degi var gengið í kringum það. Tveir menn gengu fram Runubrúnir, en einn fram vestan árinnar. Fjórði maðurinn, Hjálmar bóndi, fór oftast fram að Illagili til að reka fram fyrir, það sem vildi fara. Nokkrar kindur voru óþægar og vildu snúa heim. Það var mórauð forystuær, sem Þorvaldur átti, og þrír eða fjórir sauðir frá Mælifelli. Þegar leið á tímann fór féð að renna vestur yfir ána, því það gat víða komist yfir hana á ís og snjó. Þar var gönguleiðum breytt þannig að einn gekk fram Runubrúnir en tveir fram vestan ár. En loksins kom vorið. 11. eða 12. maí gerði sunnanátt með miklum hlýindum og kom þá fljótt vöxtur í allar ár. Um morguninn þegar hlákan var komin fóru þeir vestur yfir á á Lambamannavaði, Jóhannes, Þorvaldur og Hjálmar á Þorljótsstöðum. Þeir fóru yfir á hestum, þvi áin var farin að renna ofan á ísnum. Um hádegi kom Þor- grímur fram eftir með mat handa þeim, sem fyrr höfðu farið, en þá var áin orðin svo mikil, að hann treysti sér ekki að ríða hana. Hann reyndi að kasta matarpakka vestur yfir, en það tókst ekki, straumurinn tók hann. Nú var svo komið að meira en helmingur af fénu, 600 fjár, var komið vestur yfir á og áin svo mikil að engin leið var að reka það yfir í Runu. Hjálmar var kunnugur og ráðagóður og sá það ráð eitt að reka féð upp á hálendið fram fyrir Hraunþúfugil og Runugil. Þeir ráku féð fram undir Klaustur um kvöldið og um nóttina var Jóhannes sendur upp fyrir Hraunþúfugil, til að vita, hvort ís væri á kvíslinni, sem fellurofan í Hraunþúfugil, því Hjálmar vissi, að ef Hraunþúfukvísl væri á ís, þá væri Runukvísl það líka, á Neðribökkum fyrir framan Runugil. Þegar Jóhannes var kominn aftur, lögðu þeir af stað með féð upp á fjallið. Færi var vont, því krapablár voru á leið- inni, sem varð að sneiða fyrir. ísinn á kvíslinni var ótryggur, laus frá löndum og varð að gæta þess, að fáar kindur færu yfir í einu, en það gekk slysalaust. Síðan ráku þeir féð austur yfir Hraunþúfumúla og yfir Runukvísl á góðum ís fyrir sunnan Móalingskinn. Þá lá leiðin út með Runugili að austan og ofan Gatbrík fremst í Votugeirum. Þá var mikill Heimaerbezt 63

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.