Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 7
III
— Það er nú kannski of mikið sagt. að ég hafi haft verk
margra ljóðskálda undir höndum þarna í einsemd bernsk-
unnar.
Ég ólst upp í umhverfi þar sem flestir voru verkamenn og
sjómenn og varla við því að búast, að á heimilum væri
fjölbreyttur eða mikill bókakostur. Um fermingu komst ég
fyrst í kynni við íslendingasögur í útgáfu Sigurðar Krist-
jánssonar og þær urðu mér óþrjótandi náma í einverunni,
bæði til skemmtunar og þroska. Eins varð Biblian mér
mikil lesbók. sérstaklega Gamla testamentið. íslenska
Biblíuþýðingin frá 1915 er gersemi. Þó er rétt að taka það
fram. að mér finnst hún betri og fallegri á Nýja testament-
inu. Gamlatestamentisþýðingin er meira skrúfuð málfars-
lega og fjarlægari. —
— Mér kemur þá í hug, þegar þú getur kynna þinna af
Biblíunni, að þeirra gætir ótvírætt sumstaðar í ljóðum þín-
um og þá ekki síst í III. kafla bókarinnar „Sunnan í móti“.
Þar er m.a. þessi sálmur um Krist:
„Ég sá þig hreinsa musterið
og heyrði mál þitt gjalla
er bliki sló á svartnættið
og barst um veröld alla,
og þjóðln vissi glöð og djörf
að þá var runninn dagur
er kominn væri að lýsa oss
sem kyndill skær og fagur.
Ég trúi, guð, á þetta Ijós
þó gerist dimmt á jörðu hér,
ég fagna því í bæn og saung
og finn að þú ert nálægt mér.“
— En skáldið, sem skipti mig mestu máli á uppvaxtar-
árunum, var Þorsteinn Erlingsson. Það var þó ekki vegna
hinnar hvössu ádeilu eða róttækra, pólitískra viðhorfa
hans, heldur hreif hann mig mest sem náttúruskáld og fyrir
málfarið. Hann hóf talmálið upp í skáldlegar víddir. Það
gerði Tómas Guðmundsson raunar síðar og þannig er um-
talsverður skyldleiki með þessum gjörólíku skáldum.
Árið 1935, þegar ég var fimmtán ára gamall, fluttumst
við frá Stokkseyri út í Vestmannaeyjar. Þar urðu tvö skáld
mér sérlega hugstæð, vegna þess að þau tengdust þessu
byggðarlagi og höfðu búið þar. Voru það skáldin Örn
Arnarson og Sigurður frá Arnarholti. Erni kynntist ég ekki
persónulega, enda var hann þá farinn úr Eyjum, en Sigurði
kynntist ég síðar. Var hann mjög þekkt og umtalað skáld
um þær mundir. Hann lést árið 1939. En þarna komst ég að
raun um það, hversu byggðarlög meta það mikils, þegar
skáld tengjast þeim og setja svip sinn á mannlífið.
Eftir flutningana út í Eyjar var ég til sumardvalar í
Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum. Var þar þrjú sumur frá því
ég var sextán ára og dvaldi þar mest til hressingar vegna
þess langvarandi heilsuleysis, sem ég minntist áður á. Var
ég í svonefndum austurbæ, en í hábænum í Stóru-Mörk var
Þorsteinn Erlingsson fæddur og fólk mundi hann þarna.
Húsbóndinn í hábænum var úr Fljótshlíðinni, svo það voru
sannarlega þræðir á milli hans og Þorsteins. Og allt var
fólkið í Stóru-Mörk mikið í bókmenntum, já, það lifði og
hrærðist í skáldskap. Þar voru áhrif Þorsteins sterk, svo við
lá að maður fyndi til návistar hans. Ég hafði byrjað að yrkja
sem krakki, en sú tilhneiging óx um allan helming í
Stóru-Mörk. Þegar ég gaf svo út kverið Sól yfir sundum. þá
tvítugur að aldri, birtist þar kvæði sem ég orti 17 ára á
fæðingarstað Þorsteins. Þá vil ég skjóta því hér inn í, að
útgefandi þessarar bókar var vinur minn og velgjörða-
maður, Guðjón Halldórsson bankamaður, bróðir Sigfúsar
tónskálds og myndlistarmanns. En þetta kvæði, sem ég
nefndi „í dag er pabbi á sjó“ tók ég síðan aftur upp í bókina
Sunnan í móti, sem kom út 35 árum síðar. Þetta fimmtíu
ára gamla æskuverk endurspeglar í senn drauma, veruleika
og heimþrá:
1 dag er sólskin á sænum,
sumarilmur í blænum,
í dag er vermandi vor.
Hugi úr fjöru til fjalla
fagnandi raddir kalla,
vordýröin undrar alla,
öllum er létt um spor.
„En skáldið,
sem skipti mig
mestu máli á
uppvaxtarárunum,
var Þorsteinn
Erlingsson.“