Heima er bezt


Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 26

Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 26
BJÖRN EGILSSON FRÁ SVEINSSTÖÐUM HVÍTA VORIÐ Vorið 1899 hefur verið kallað „Hvita vorið“. Þá var fannfergi mikið og hag- laust með öllu. Fjölda fjár var bjargað frá hungurdauða í Lýtingsstaðahreppi, með því að reka það fram í Þorljóts- staðarunu og þar i var fé séra Jóns Magnússonar á Mœlifelli. Mikið hey- leysi var og hvergi hey að fá, enda erfitt að komast leiðar sinnar vegna ófœrðar. Það, sem bjargaði líka, var það að brúin var komin á Jök- ulsá, þetta hvíta vor. Það er varla hægt að hugsa sér, að hægt hefði verið að reka slíkan fjölda af lambfullum ám yfir Jökulsá milli skara. Þorsteinn Jónsson getur þess í minningabók sinni (bls. 77), að Ólafur Briem alþingismaður, hafi verið merkur maður, en nokkuð íhaldssamur og fastheldinn á fomar venjur, og því hafi hann staðið gegn réttarbyggingu við Kiðaskarð. Svo bætir Þorsteinn við: „Eitt framfaramál innan hrepps, sem Ólafur Briem studdi, var að gera brú á Jökulsá hjá Goðdölum, en mig grunar, að þar hafi mestu ráðið séra Vilhjálmur Briem, bróðir hans, sem þá var prestur í Goðdölum. Séra Vilhjálmur var hinn mesti dugnaðarmaður, hagsýnn og framsækinn. einn af beztu og merkustu mönnum, sem eg hef þekkt. Þau hjón frú Steinunn Pétursdóttir og séra Vilhjálmur Bríem voru gagnmerkt fólk að öllum mannkostum. Þau náðu háum aldri, komust yfir nírætt". Þorsteinn segir ekkert frá brúarmálinu og má þó nærri geta, að hann hafi heyrt talað um það, svo mikið deilumál, sem það var, þó það stæði ekki lengi og hann þá 10-14 ára gamall. Þorsteinn segir líka fátt um það, þegar sauðfé séra Jóns bjargaðist af í Þorljótsstaðarunu. 1 bók Þorsteins (bls. 61) er skráð: „Yfirleitt fóru menn vel með skepnur, þótt nokkuð væri það misjafnt. Einstaka maður setti á „guð og gaddinn", og oft hjálpaði faðir minn um hey. Ætíð átti hann fyrningar nema vorið 1899. Þá komst hann og flestir í þrot, hafði faðir minn þá lánað og gefið mikið hey. Var þá fullorðið fé rekið fram í Vesturdal, en þar var auð jörð, og komst allt af í góðum holdum, en þá skall hurð nærri hælum“. Hér á eftir verður sagt frá rekstri fjárins fram í Runu og vöktun þess þar. Þessa frásögn skrifaði ég eftir Jóhannesi Sigvaldasyni um 1940, en hann var einn af gæzlumönnum fjárins. Sumt skráði ég eftir frásögn Sigurlaugar Árnadótt- ur, seinni konu Gísla Jónassonar bónda á Þorljótsstöðum og viðar, hún var þá á Sveinsstöðum. Þorljótsstaðir voru fremsti bær í Vesturdal, en fóru í eyði laust eftir 1940. Frá Goðdölum og þangað fram eru um 18 km. Hofsá fellur eftir Vesturdal. Þorljótsstaðir áttu mikið land, alla fjallshlíðina austan ár, fram í botn dalsins og Runugil þar framar. Sauðland er svo gott á Þorljótsstöðum. að hvergi er betra í Skagafjarðardölum. Frá Þorljótsstöðum og fram í botn dalsins eru um 10 km. Þar vestan árinnar heitir Hraunþúfuklaustur. Þar hjá koma saman tvær ár. Að vestan Hraunþúfuá er kemur ofan af hálendinu úr Hraun- þúfudrögum, eftir miklu klettagljúfri er Hraunþúfugil heitir. Austari áin heitir Runukvísl. Hún á upptök suð- austur í Orravatnsrústum og fellur ofan í dalinn einnig eftir miklu klettagljúfri sem norðan til er eins og þröngur dalur. Að austanverðu í Runugili norðan til er gróður nokkur og heita þar Votugeirar. Runugil að austan er land Þorljóts- staða og eru landamerki þar sem gilið endar, og heitir þar Móalingskinn. Fjallið á milli ánna heitir Hraunþúfumúli og breikkar til suðurs, þvi Hraunþúfugil liggur til suðvest- urs, en Runugil til suðausturs. Á Hraunþúfumúla eru enn gróðurlausar melöldur, enda er hann um 500 m yfir sjó. Þorljótsstaðaruna var löngum dásömuð fyrir veðursæld og kjarngott sauðland. Hún er um 5 km að lengd og nær frá Uppgöngu, sem er grasgeiri á móti Hraunþúfumúla, og út að Illagili. Fjallshlíðin er snarbrött og liggur vel við sól. Þar rennur í sundur af sólbráð á útmánuðum, þó ekki klökkni við stein niður í sveit. Engin skörð eru í brúnir Runufjalls og svo er þar oft minni fannkoma svo langt inni í landi. Vestan Hofsár á móti Þorljótsstaðalandi, heita Lamba- tungur, þar er oftast meiri snjór og nýtur ekki sólar eins og að austan, því dalurinn liggur til suðausturs. Að norðan eru takmörk Runu við Illagil. Það er klettagil mikið, sem liggur þvert niður hlíðina. Lækur sem eftir því rennur kemur úr Stafnsvötnum austur á fjallinu. Þar sem gatan liggur yfir gilið neðst, er móbergsskeið í brúninni að sunn- an. Þar er farið með hesta, en betra að fara gætilega. Sú saga var sögð um landgæði og veðursæld í Runu, að gemlingar hefðu verið reiddir fram fyrir Illagil, svo þrótt- litlir, að þeir bitu á hnjánum, en samt gengu þeir vel fram. Veturinn 1898 til 99 varsnjóþungur. Skammdegisgaddur var mikill, en þó tók steininn úr eftir miðjan vetur. Þá hlóð snjó á snjó ofan, svo hvergi sá á dökkan díl. Um sumarmál 62 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.