Skírnir - 01.01.1934, Page 7
Útvarpið.
Eftir Guðm. Finnbogason.
„Þar er einn staðr, er Hliðskjálf heitir, ok þá er
Alföðr settisk þar í hásæti, þá sá hann of alla heima ok
hvers manns athæfi ok vissi alla hluti, þá er hann sá“.
Slík Hliðskjálf kemur eflaust bráðum. Hún verður þá
líklega kölluð ,,Útsýn“. „Hljóðskjálf" er komin. Hún er
kölluð ,,útvarp“. Áður náði mannsröddin aldrei nema til
þeirra, sem viðstaddir voru, í hæsta lagi til nokkurra
þúsunda á mannfundum, þar sem hljóðbærast var. Nú
nær hún til miljónanna, víðsvegar um heim. Hver, sem
rafeyra (viðtæki) hefir, hann heyrir. Með þessum hætti
getur einstaklingshugsun á svipstundu orðið almennings-
eign, og þó miklu innilegar en áður, því að í röddinni er
persónuháttur þess, er talar. Allar nýjungar á öllum
öldum hafa átt upptök sín í sál einhvers einstaklings og
orðið að berast frá manni til manns. Sagan er um það,
hvernig einstaklingseign varð almenningseign. „Líkt er
himnaríki súrdeigi, er kona tók og faldi í þrem mælum
mjöls, unz það sýrðist allt saman“.
Aldrei hefir mannkynið eignazt eins máttugt menn-
ingartæki og útvarpið getur orðið, ef vel er á haldið.
Vér íslendingar höfum fengið ríkisútvarp. Það er
þegar orðið einn aðalþátturinn í menningarstarfsemi
þjóðarinnar. Munu nú vera hátt á 9. þúsund viðtæki í
landinu, og má þá gera ráð fyrir, að fjórði hluti þjóðar-
innar hlusti á útvarpið, þegar bezt lætur. Og auðvitað
fjölgar hlustöndum enn mikið, og því meir, sem útvarp-
1