Skírnir - 01.01.1934, Síða 23
Skírnir] Um íslenska sagnaritun og um Njálu sjerstaklega.
17
gerð til þess að fá sögu- eða viðburðaheild í nokkurn
veginn rjettri tímaröð. Alt þetta mikla verk sýnir rit-
stjórnarstarf svo að segja í sínu almætti.
Vjer skulum bæta hjer við 2 sögum, þótt önnur sje
ekki um íslenskan mann.
Þorláks saga biskups er til í tveim myndum.
í annari myndinni er hinn svonefndi Oddaverja-
þáttur (aðallega 18—26. kapítuli), sem vantar í hina.
Það er ekki umtalsmál, hvernig þessu víkur við. í frum-
sögunni hefur þessi þáttur, sem er um viðskifti Þorláks
við Jón Loftsson útaf fjölkvæni hans, aldrei staðið; höf-
undurinn hefur ekki viljað skýra frá þeim málum, sem
voru fremur óþægileg biskupnum. En öðrum manni hef-
ur ekki þótt rjett að gánga fram hjá þessum málum,
hann semur svo frásögn um þau og setur inn í frumsög-
una hispurslaust. Þessi þáttur er ekki saminn fyrr en
eftir 1230, ekki hægt að ákveða það nánar.
Samin var saga um Magnús helga Eyjabiskup (d.
1116). Hún er eiginlega ekki annað en uppskrift af
sögunni í Jarlasögunum, sjerstök útgáfa af henni. En
upp í þessa sögu var svo tekin þýðín’g af latínskri ævi-
sögu Magnúsar eftir Roðbert nokkurn meistara. Stíng-
ur hún mjög í stúf við frumsöguna. Ritstjórinn var ekki
að öllu leyti heppinn. í 4. kap., frá Roðbert, eru foreldr-
ar Magnúsar nefndir, en þó höfðu þeir verið nefndir í
3. kap. Annars skal ekki frekar farið út í þetta mál hjer.
Ef vjer nú hverfum að Íslendíngasögunum (ætta-
sögunum) sjálfum, þá er það eflaust rjett, sem sagt hef-
ur verið, að þær væru þess eðlis, að eigi var svo auðvelt
að skjóta inn í þær nýjum köflum eða þáttum. Frumsög-
urnar höfðu, að því er ætla mætti, tekið alt eða mestalt
upp, sem arfsögnin átti til um aðalpersónurnar og þá
atburði, sem þær voru viðriðnar. Þetta má segja svona
alment, en algilt er það ekki fyrir því. Og skal það nú
sýnt með nokkrum — annars vel þektum — dæmum.
Hjer má fyrst nefna Víga-Glúmssögu. Hún er í
Möðruvallabók, og var í Vatnshyrnu, en af henni þar
2