Skírnir - 01.01.1934, Page 43
Skírnir] Um íslenska sagnaritun og um Njálu sjerstaklega.
37
þau hafi ,,höf.“ getað notað. Slíkt má segja, en aldrei
verður það nein sönnun. EÓS gerir líka ráð fyrir því,
að ,,höf.“ hafi sjálfur misskilið lögin. Ekki vil jeg þó
gera svo lítið úr ,,höf.“, þvíað hjer var ekki mart, sem
misskilja mátti. Það sem EÓS tekur upp (s. 161 og áfr.)
skal jeg ekki fara hjer út í. Jeg hef rætt um þ að
alt í ritgjörð minni, og það er óþarfi að endurtaka
það hjer. Jeg geng ekki að því, að EÓS hafi hrak-
ið neitt af því, en EÓS má eiga það, að hann
hefur tekið greinilega fram það, sem jeg hef sagt um
þessi efni. Jeg vil þó geta þess, að jeg sje ekki neina þörf
á, að sækja orðin um fimtardóm í Grágás (s. 165—6).
Hvernig var hægt að segja frá stofnun fimtardóms og
því, hvernig honum var háttað, með öðrum orðum en
þeim, sem í Grágás standa eða líkum? ,,Að eiga hinn
fimta dóm“ t. d. var eðlilegt mál, sem ekki þurfti að
sækja í Grágás. Jeg vil ekki orðlengja um þetta efni.
Orsök væri til þess, að fara nokkuð út í örnefni og
staðanöfn, sem EÓS ræðir um (s. 343 og áfr.). Sá reikn-
íngur, sem EÓS setur fram þar, er í mínum augum harla
lítils virði, því að það er auðvitað alveg undir tilviljun
komið, hvað nefnt er og hvað nefna þurfti. Satt að segja
finst mjer sagan bera góðan vott um staðaþekkíng hvar
sem er, ekki síður fyrir vestan en sunnanlands. En und-
arlegt er það, að ,,höf.“ skuli ekki hafa komið á Berg-
þórshvol og lýst honum rjett. Á austurlandi er alt keip-
rjett. Hvað leiða má út af þessu um heimili sögunnar,
er mjög erfitt að segja, eða jafnvel ómögulegt, svo lík-
legt, að menn geti alveg fallist á það. Jeg hef stundum
helst hallast að því, einkum vegna ,,Gunnarssögunnar“,
að sagan mundi vera samin vestan lands, eða að minsta
kosti að samsteypan hefði farið fram þar. Þetta þykir
mjer ekki svo ólíklegt; fyrir því gæti hin eiginlega Njáls-
saga verið samin í Rángárþingi. Hins vegar er það víst,
að í sögunni um Njál kemur fram góð staðaþekkíng á
suðaustur- og austurlandi, og jeg gæti því vel fallist á,
að sú saga stæði í sambandi við Þykkvabæjarklaustur.