Skírnir - 01.01.1934, Page 50
44
Spámenn ísraels.
[ Skírnir
líkur að því, að spámennirnir hafi verið arftakar ann-
ara smærri, er skrifuðu á undan þeim meðal ísraels-
manna og annarra þjóða, og að það hafi aðeins verið
samkvæmt lögmálum náttúrlegrar þróunar, að hátterni
þeirra og boðskapur bar svo mjög af aðferðum og kenn-
ingum fyrirrennaranna. Því til rökstuðnings færa menn
aðallega fram, að hægt sé að aðgreina þrjú stig í spá-
mannsstarfseminni með ísrael.
Til fyrsta stigsins eru taldir töframennirnir, sem
kunnir eru meðal allra þjóða á lágu menningarstigi. Sú
trú er á þeim, að þeir séu færir um að leiða óheillir yfir
menn og skepnur, og geti ennfremur séð inn í framtíð-
ina og leitt ýmislegt í ljós, sem öðrum er dulið. Þess-
konar menn voru lengi með ísrael eftir að hinir eiginlegu
spámenn komu fram, sem töldu trú fólksins á þessum
svokölluðu töframönnum ekkert annað en hjátrú og
hindurvitni og reyndu af alefli að kveða hana niður.
Næsta stig spámannsstarfseminnar er talið vera
það, þegar spámannafélög komu fram í ísrael, og stóðu
þau undir stjórn þess, er bezt þótti búinn spámannshæfi-
leikanum. Notuðu þessir spámenn tíðast dans og hljóð-
færaslátt til þess að koma sér í annarlegt hrifningar-
ástand, eins og t. d. ,,Dervisjarnir“ gera enn meðal Mú-
hameðstrúarmanna, og í því ástandi sögðu þeir fyrir
óorðna hluti og frömdu máttarverk. Þessir spámanna-
flokkar höfðu starfsemi sína fyrir atvinnu, en jafnframt
tóku þeir ósjaldan drjúgan þátt í stjórnmálum þjóðar-
innar, einkum með því að hafa áhrif á konungana. Ein-
staka þeirra höfðu mjög háleitar trúarskoðanir og sið-
ferðishugmyndir, sarnanborið við samtímamenn sína.
Svo var um Elía og Elísa, sem báðir eru taldir til þessa
flokks.
Loks koma hinir miklu spámenn, ritspámennirnir,
sem allir vita nöfn á og geta fræðzt um af þeirra eigin
orðum í heilagri ritningu.
Þó að margir fylgi þessari flokkun á spámannsstarf-
seminni, er hún að sumu leyti mjög hæpin og getur ekki