Skírnir - 01.01.1934, Blaðsíða 78
72
Andrés Bergsteinsson.
[ Skírnir
honum nærri ónýtt; vinstri handleggurinn var að dofna
upp. Andrés ýtti á jafnt og þétt og snökti.
Hugur Jóns varð allt í einu hreinn og rór, og nú
skildi hann til fulls þetta ískyggilega, sem Andrés hafði
sagt. Eitt augnablik greip hann hátíðlegur friður frammi
fyrir dauðanum. Hann sætti sig við þetta óvænta, sem
beið hans, og ætlaði að tala til bróður síns af þeim kær-
leika, sem gagntók hann. En Andrés snökti og stundi
með lokuðum munninum. Hann var eins og óargadýr, og
dauðinn var í andardrættinum. Jón sá þetta fyrir sér,
eins og úr fjarska: dauðastunurnar voru í þeim, sem
átti að lifa, en sá, sem átti að deyja, var þögull og ró-
legur.
Vinstri handleggurinn á Jóni varð skyndilega mátt-
laus, og þá greip hann skelfingin:
— Hvað er þetta! Því gerir þú þetta! hrópaði hann
í ofboðinu. En þetta var síðasta augnablikið. Hann var
að missa öll tök, og hann rak upp voðalegt, skerandi
vein.
Andrés dró andann með djúpum sogum. Allt í einu
sleppti hann takinu, fleygði sér niður á þiljurnar og grét
hástöfum.
Jón hékk stundarkorn utan á borðinu. Hann varð
allur magnþrota af einhverri unaðslegri tilfinning og
vóg sig með síðustu kröftum inn yfir öldustokkinn. Hann
var alvotur og hattlaus, reikaði eitt, tvö skref og lét fall-
ast niður á grúfu á blautar þiljurnar.
Þarna lágu þeir, báðir bræður. Andrés grét með
ekkasogum. Hinn hafði aldrei fyrr á æfinni fundið eins
óumræðilegan unað fara um sig, eins og á þessari stund.
Þeir stóðu báðir upp samtímis, þegar langt var um
liðið, en litu hvorugur á annan. Jón gekk að lestarkarm-
inum og settist, leitaði í brjóstvasa sínum að vindling-
um, fann þá, leitaði að eldspýtum í öllum vösum, fann
engar, hætti leitinni, en velti vindlingnum til í munninum
og tuggði hann. Skinnið var flett af kjálkabarðinu eftir
núninginn við öldustokkinn, og blóðið lak í sífellu niður