Skírnir - 01.01.1934, Page 128
122
Höfðingjabragur með Aröbum og íslendingum. [Skírnir
og ámælti Hamal og sagði: „Gæt þú nú tungu þinnar,
því að orð þín munu í minnum höfð“, og urðu þessi orð
Hudhaifa síðan að máltæki með Aröbum. Þá mælti
Hudhaifa til Qais: „Drepir þú oss nú, munt þú aldrei
upp héðan ná sáttum við Ghatafán". En Qais svaraði:
,,Guð formæli þeim; engar vil eg sættir við þá“.
Tókst síðan bardagi og lauk honum svo, að þeir
voru drepnir báðir, Hamal og Hudhaifa. Svöluðu þeir
Qais reiði sinni greypilega á Hudhaifa fyrir það níðings-
verk, sem hann hafði unnið á sveinunum, enda hafði
hann jafnan alið manna mest á úlfúðinni. Slitu þeir úr
Hudhaifa tunguna og settu við þjó honum og skáru af
honum reðrin og tróðu í munn honum. Hlýtur manni
hér ósjálfrátt að detta tvennt 1 hug úr íslendingasög-
um. Er annað, þegar Grettir setti höfuð Gláms við þjó
honum, er hann hafði ráðið niðurlögum hans, en hitt,
þegar Sturla lét binda og gelda Órækju Snorrason í
Surtshelli.
Þó að Qais líkaði vel fall Hudhaifas, var honum
Hamal mjög harmdauði, og varð það til þess, að hann
orti eftir hann erfidrápu. Er það fyrsta erfidrápa, sem
skáld með Aröbum hefir kveðið eftir mann, er hann
vó sjálfur. Er hún til enn í dag, og í henni er þetta:
Vitið þér!
Vaskastan drengja
hefir Hel numið
hörðum tökum
við Habáats tjörn, —
hún skilar engu.
Hefði ei á hann
Heljar skuggi
skollið grimmur,
skyldi ei gráta
hraustastan dreng,
því að heill væri.