Skírnir - 01.01.1934, Side 156
Hljóðvillur og kennarar.
Eftir Stefán Einarsson.
Það situr sjálfsagt illa á mér að ætla að fara að
leggja íslenzkum kennurum ráð, til þess að berjast við
versta óvin sinn, „hljóðvilluna“ svonefndu. Því eg man
svo langt, að eg kenndi íslenzku, og gekk illa að uppræta
þessa venju hjá nemendum mínum. En með því, að hægra
er að kenna heilræðin en halda þau, og líka af því, að
vera má að öðrum bíti betur sömu vopn en sjálfum mér,
þá sendi eg þessar athuganir út af örkinni til íslenzkra
kennara.
I fyrra sumar, þegar eg dvaldi á íslandi, hitti eg
nokkra íslenzka barnakennara og spurði þá, hvernig
þeir færu að kenna hljóðvilltu krökkunum að gera grein-
armun — þó ekki væri nema í riti — á e og i, ö og u-
Þeim varð ógreitt um svar. Mér skildist helzt á þeim, að
þeir hefðu enga aðra aðferð en þá, að segja í hverju ein-
stöku tilfelli: hér á að vera e, hér i (eða kannske: hér á
að vera opið e, hér e með punkti). Mér skildist, að eigi ein-
ungis gætu kennararnir ekki gefið börnunum neina reglu
fyrir því, hvar vera ætti e og hvar i, heldur væru þeir
einnig sjálfir öldungis ófróðir um, að fyrirkoma þessarra
hljóða væri nokkrum reglum háð.
Þeir eru í þessu efni mun verr farnir en þar, sem
gera skal greinarmun á y og i, ý og í. Því að þar hafa þeir
í flestum tilfellum upprunann til hjálpar, og geta bent
börnunum á skyldleik þessarra orða við orð, sem hafa u, o,
ú, jó í stofni. Ef barnið er greint, þá hjálpar þetta mikið