Skírnir - 01.01.1934, Side 196
190
William Morris.
[ Skírnir
Gott þjóðskipulag var að hans dómi ekki fyrst og fremst
komið undir skiptingu auðæfanna, heldur heilbrigðu sam-
bandi framleiðanda og neytanda. Hann taldi það eðlilega
löngun hvers manns að vinna gott verk og að vilja eiga
það, sem vel var gert. Auðvaldið var að hans dómi orsökin
til þess, að svo var komið, sem komið var. Það hafði ekki
hugsað fyrst og fremst um það, að skapa nytsama og
fagra hluti, heldur um að græða fé. Það hafði í eiginhags-
munaskyni raskað heilbrigðu sambandi framleiðanda og
neytanda. En Morris trúði því, að þessu mætti kippa í lag.
Spurningin er um það, eftir hverju menn sækjast. Ef
menn skilja það, að gildi lífsins er fólgið í heilbrigðu
starfi, sem skapar fegurð og þroska, þá er að haga þjóð-
skipulaginu eftir því markmiði. Menn fá að lokum það
sem þeir einhuga vilja.
William Morris var mikilmenni í hugsjón, orðum og
athöfnum. Honum verður ekki lýst í stuttu máli. Eg hefi
hér drepið á þann þáttinn í æfistarfi hans, sem eg hygg
að oss sé mest nauðsyn að skilja, festa í minni og breyta
eftir. Hugsjón Morrisar hefir ævarandi gildi, sú, að reyna
að gera alla menn vinnuglaða, gera hvern mann að nokkr-
um listamanni í starfi sínu, hve lítilmótlegt sem það kann
að virðast, svo að hann finni æðstu nautn sína í fegrun og
fullkomnun verka sinna. Hann var sjálfur lifandi ímynd
þess, sem hann kenndi. Slíkir menn eru salt jarðar.
Engin stefna mundi verða þjóð vorri hollari en sú,
að reyna að hafa hugsjón Morrisar að leiðarstjörnu: gera
alla vinnu að íþrótt, hvert verk að listaverki, að svo miklu
leyti sem eðli þess leyfir; hafna fánýtum hégóma, eiga
heldur fátt og fagurt en margt og ljótt; skapa sanna feg-
urð, breyta ekki um nema til batnaðar. Ef vér athuguðum
þjóðlíf vort frá þessu sjónarmiði, mundum vér sjá, að
vér í ýmsum efnum eltum aðrar þjóðir blindandi beint í
sömu ófæruna, sem Morris sá, að þær voru komnar í, í
stað þess að hugsa sjálfirvorn vegvið leiðarljós heilbrigðra
hugsjóna. Snúum við, meðan tími er til. Mikilmenna er
bezt að minnast með því að feta í fótspor þeirra.