Skírnir - 01.01.1934, Síða 226
220
Finnur Jónsson. Ritaskrá.
[ Skírnir
vindar" er bjartasta nafnið, og í þessari bók finnst mér hugur
skáldsins hafa náð mestri heiðrikju og hlýju, öruggari trú á gróðr-
armögn lífsins en áður. Þó er yfir öllum kvæðunum hinn svali
blær íhyglinnar, er vegur orðin, tekur málið föstum tökum og
sverfur til stáls. Öll eru kvæðin fáguð. Um efnisval er líkt og áður:
náttúrulýsingar, margvíslegar myndir úr mannlifinu, kvæði um
sögupersónur og merka menn, ýmislegar hugleiðingar o. s. frv.
Hvergi tekst skáldinu betur en í kvæðum um einstaka menn, svo
sem hér um Stephan G. Stephansson og síra Jón Steingrímsson,
eða kvæðið um Hildigunni, sem er allt í senn, glæsilegt, sterkt og
tilfyndið. Bókin sýnir, að skáldið er nú á sínu bezta þroskaskeiði.
G. F.
Margrét Jónsdóttir: ViS fjöll og sæ. Kvæði. Reykjavík 1933.
Skáldkonan segir í inngangskvæði sínu:
Eg undi bezt við ljúfan lækjarnið
og lóukvak um heiðan sumardag,
og blíðra nátta birtu, kyrrð og frið,
og blóm í hlíð og léttan sólskinsbrag.
Kvæðin bera þessu vitni, bæði að efni og meðferð. Þau eru
þýð og svipgóð, ekki stórfelld. Þau eru hjartaslög góðrar konu,
mildrar og móðurlegrar, sem leitar ljóssins, gleðst yfir því, sem
gott er og fagurt, er minningunum trú og finnur innilega til með
öðrum. Bezt þykja mér kvæðin: „Við leiði“, „Stúlkan mállausa“,
„Blindur drengur“, „Eftir barn“, „Kveðja“, og „Vökukonan“.
G. F.
Jón Þorsteinsson, Arnarvatni: LjóSabók. Reykjavík 1933.
Eg sá fyrst kvæði eftir Jón Þorsteinsson fyrir meira en 30
árum, þegar Guðm. Friðjónsson skrifaði í Eimreiðina um alþýðu-
skáld Þingeyinga. Eg dáðist sérstaklega að litlu kvæði, „Hvítur
sauður, svartur sauður“. Þar er brugðið upp svo yndislega hlý-
legri og lifandi mynd af dýralífi landsins, að eg hefi aldrei gleymt
henni siðan, og þegar eg gaf út „Dýraljóðin", fannst mér eg ekki
geta klykkt betur út með öðru kvæði en þessu. Svo yrkir enginn
nema verulegt skáld. En svo yfirlætislaus er þessi maður, að hann
gefur ekki út Ijóð sín fyrr en hann er 74 ára. Þau þola þá lika að
koma í dagsljósið. Þau hafa slíkan ilm sem blóðbergið, er vex og
angar út um holt og heiðar í samlifi við sólina og blæinn. Fáguð list
á þjóðlegri rót; mjúkleikur í máli og hugsun og oft brosandi fyndni.
Hér er ekki rúm fyrir dæmi, en eg get ekki stillt mig um að taka
eitt kvæði um Island, sem er að mínu viti sérstakt í sinni röð: