Kirkjuritið - 01.03.1955, Síða 16
110
KIRKJURITIÐ
verk hans eftir því sem þau urðu til og drauma listar hans.
Hún helgaði honum og æfistarfi hans líf sitt. Hann vildi, að
þau ættu saman fegurð listarinnar og fullkomnun. Laufin í
lárviðarsveignum um höfuð honum eru einnig hennar. Það
skyldum vér íslendingar ávallt muna og blessa frú Önnu, konu
Einars Jónssonar, um leið og sjálfan hann.
IV.
Það er ekki ætlun mín að reyna til að gjöra list Einars
Jónssonar nein skil. Ég er ekki listfræðingur, finn aðeins, hvað
mér sjálfum þykir fagurt og hvað ekki. Fyrir mér verða ekki
greind sundur list hans og persónuleiki. Honum auðnaðist það
að vera jafn góður maður og hann var mikill og lauk þannig
því listaverki, sem æðst er allra: Listaverki mannsæfinnar.
Myndir Einars Jónssonar eru ljóð, sem hafa alltaf mikinn
boðskap að flytja.
Útilegumaðurinn er til dæmis heilt kvæði: Hann hefir notið
ástar og tryggðar góðrar konu uppi í öræfunum, unz hún
hnígur niður andvana við hlið honum. Nú er það hans, skógar-
mannsins seka, þótt það kunni að kosta frelsi og líf, að búa
henni leg í vígðri mold og bjarga svo sál hennar.
Eða minnismerki Hallgríms Péturssonar. Mér finnst það
hliðstætt kvæði Matthíasar. Hallgrímur er bundinn sjúkdóms-
fjötrum við rekkju sína. Sár og kaun og benjar holdið þjá.
Hrörnun og dauði fer að. En hátt yfir rekkjunni rís andi hans
og hefur á loft hörpu sína og krossinn Krists. Og þjóðin fylgir,
karlar, konur, æska og elli. Hún stefnir upp á við, hærra og
hærra.
Eða Þróun — stórfengleg hátíðakantata í þremur þáttum,
sem lýsir stígandinni frá dýri til manns. Uxinn hvílir í náð-
um við enga framsókn. Jötunninn veit fram, en krýpur álútur.
Hann heldur fast annarri hendi um dýrshornið, en hinn hand-
leggurinn hvílir þungt á herðum mannsins, sem stendur upp-
réttur. Armur jötunsins og líkami mannsins mynda kross.
Jötuneðlið í manninum er honum þung byrði. Og þó heldur
hann krossmarki hátt á lofti, því að hann hefir gjört það að
framsóknar og sigurmerki sínu. Það er stefnumark mann-
kyns. Fullkomnunin fæst fyrir þjáningar. „Öll fórn fæðist fyrst
hjá Guði,“ mælti hann síðar.