Kirkjuritið - 01.04.1957, Qupperneq 4

Kirkjuritið - 01.04.1957, Qupperneq 4
PÁSKAHÁTÍÐIN Upprisa Jesú Krists er svar frá himni við dýpstu þrá vor mannanna — þránni eftir eilífu lífi. Að vísu er sú þrá ekki alltaf jafnljós og lifandi í hjörtum vorum, og hugann getur jafnvel sundlað við þá tilhugsun, að vér lifum áfram alltaf, alltaf — aldrei verði endir á tilveru vorri. En sá veikleiki stafar af því, að sál vor lifir hér í dauð- legum líkama, og veikleikinn mun hverfa til fulls, er vér sjá- um fagnandi: Nú blasir eilífð við umhverfis oss. Þessi djúpa þrá er eigi heldur eingöngu bundin við oss sjálf. Ymsir geta horft rólegir fram á dauða sjálfra sín í þeirri trú, að þá verði öllu lokið. En það geta engir, er ástvinir þeirra eiga í hlut. Þá þolum vér eigi til þess að hugsa, að þeir séu að eilífu máðir út úr tilverunni. Hugur vor rís öndverður gegn því, heldur krefst sál vor lifs þeim til handa. Með ýmsum hætti höfum vér leitað svölunar eilífðarþránni — svars við spurningunni, er mestu varðar. Vér höfum spurt vorið í náttúrunni, hvað skrifað sé á hvert minnsta blað og lesið þar boðskap sumarkomunnar: Óttizt ekki, lífið er sterkara en hel. Látið huggast, þó að þér eldizt og dauðinn bíði yðar, því að alltaf munu halda áfram að fæðast nýjar og nýjar verur af skauti hinnar eilífu æsku og hins eilífa lífs. Vér höfum spurt vísindin og m. a. sálarrannsóknirnar. Vér höfum fengið það svar, að enginn kraftur í tilverunni geti liðið undir lok og þá ekki heldur andakraftur mannsins. Hann sé hafinn yfir líkamann og hljóti að halda áfram tilveru sinni, þótt verkfæri hans, líkaminn, verði að dufti. Að vísu sé það hugsanlegt, að sá kraftur breytist í einhverja aðra mynd, en þó sé miklu sennilegra, að sami persónuleikinn haldist, enda hafi persónuleiki mannsins mest gildi af öllu, sem vér þekkjum.

x

Kirkjuritið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Kirkjuritið
https://timarit.is/publication/443

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.