Eimreiðin - 01.01.1923, Page 100
96
ÞINGVALLAHREYFINGIN
eimreiðin
011 þessi skilyrði hefir Þingvöllur í ríkasta mæli, svo að ein-
kennilegt má heita og einstakt. Og þótt aðrir þjóðgarðar geti
haft meira til að bera af frjósemi og því, sem hlýrri veðrátta
má veita, þá er efamál, að nokkur þjóðgarður í víðri veröld
sé betri mynd af því besta sem landið á, og hafi fleira af því>
sem þarf til vinsælda sinnar þjóðar en Þingvöllur.
Og svo má loks nefna eitt atriðið enn. Þingvöllur er að
verða æ eftirsóttari staður til sumardvalar. Stuðla að því stór-
um bættar samgöngur við höfuðstaðinn. En það eru ekki að
eins Islendingar sem til Þingvallar leita, heldur er það að
verða ávalt sjálfsagðara, að hver útlendingur, sem fæti stígur
á land hér svo langa stund, að bifreið geti borið hann til
Þingvallar og til baka aftur, fer þangað. — En af öllu þessu
leiðir, að þörfin á verulega miklu og góðu gistihúsi verður
brýnni með ári hverju.
í þjóðsögunum er sagt frá hnoðum, sem ultu á undan
manni þangað sem komast þurfti, og voru hnoðu þessi sann-
kölluð veltiþing. Nú sýnast hnoðun teyma marga og eftir marg-
víslegum götum til Þingvalla.
I fljótu bragði mætti svo virðast, sem hér væri um hug-
myndir að ræða, sem færu í bág hver við aðra. En eg hygg
að svo þurfi þó alls ekki að vera, sé vel að gætt, heldur niá
fremur segja, að minsta kosti um sumar þeirra, að þær styðji
hver aðra.
Gistihúsið á Þingvöllum á við þann örðugleika að etja, að
það er ekki nothæft nema um blá-sumartímann, en það er
erfitt að láta það borga sig með því móti. Að minsta kosti
yrði það þá að vera svo dýrselt á öllu, að gagnsemi þess
takmarkaðist talsvert af því.
Þá kemur skólahugmyndin þar og fyllir út í eyðuna. Sú
hugmynd krefur húsnæðis þar einmitt hinn tíma ársins, og það
húsnæðis, sem að mörgu leyti er ekki ólíkt því húsnæði, sem
gistihúsið þarf, einkum ef báðar hugmyndir eru hafðar í huga,
þegar húsið er reist. I slíkum skóla væri auðvitað ekki um
annað að tala, en að hafa heimavistir fyrir alla nemendur og
gætu þá herbergi þau, sem nemendur hefðu til íveru og svefns
verið ágæt gestaherbergi. Stóran matsal þyrfti bæði skólinn