Eimreiðin - 01.10.1933, Síða 66
416
SAMBANDSLÖGIN FIMTÁN ÁRA
EIMREIÐIN
með þetta vald, er sambandslögin veita henni, þá haggar það
eigi þeirri röksemd, að það getur verið djarft spil fyrir þjóð
að eiga öll utanríkismál sín undir stjórn annarar þjóðar og
getur orðið hættulegt, ef hagsmunir þjóðanna rekast á.
Jafnréttis-ákvæðið í sambandslögunum var fullkomin nýjung
í þjóðaréttinum, og það er enn nokkuð vafamál hvort það
getur samrýmst fullveldi landanna að lögum. Jafnvel sumir
Danir hafa og viðurkent, að það væri jafn-ósamboðið báðum
þjóðunum. Hversu vel það var í samræmi við stefnu tímanna
þarf eigi að fjölyrða um. Ollum er það vitanlegt hversu þjóð-
irnar hafa kepst um að búa hver að sínu síðan heimsstyrj-
öldinni lauk. En auk þessara almennu athugasemda var bent
á það af Islendingum, að þetta ákvæði laganna væri aðeins
hættulegt fyrir annan aðiljann, Islendinga, vegna aflsmunar
þjóðanna. Menn óttuðust jafnréttið af tveimur ástæðum. Onn-
ur var sú, að það gæfi Dönum aðstöðu til þess að hagnýta
sér gæði Islands heiman að, með selstöðu-fyrirkomulaginu
gamla. Hin var sú, að svo gæti farið, að Danir í skjóli þessa
jafnréttis flyttu hingað svo margir, að þjóðerni landsmanna
gæti stafað hætta af þeim.
Þar er í stuttu máli því frá að segja, að hvorug þessara
grunsemda hefur reynst rétt, enn sem komið er.
Á árunum, sem liðin eru síðan sambandslögin tóku gildi,
hafa síðustu, gömlu, dönsku selstöðu-verzlanirnar hér á landi
lagst niður. Það mun engin þeirra vera við líði nú, og nýjar
hafa eigi komið í þeirra stað. Og fiskiútgerðar-fyrirtæki þau,
er Danir hafa stofnað til hér við land, síðan 1918, og reka
hefur átt frá Danmörku, hafa farið sömu leiðina og sams-
konar fyrirtæki þeirra venjulega fóru fyrir 1918.
Allmargir Danir eru búsettir hér á landi. Flestir halda þeir
danskri þegnfesti, en eru samt góðir íslenzkir borgarar, nýtir
og þjóðhollir menn, sem oss er fengur að, og þjóðerni voru
stafar engin hætta af. Og börn þessara manna verða íslenzk.
Það er ekki nema maklegt, að vér látum Dani njóta þess
sannmælis, að Danir búsettir hér á landi hafa aldrei reynt til
að traðka íslenzku þjóðerni, og þess er vert að minnast, að
þegar sambandsdeilan var sem hörðust, stóðu margir Danir
hér á landi Islendinga megin í þeirri deilu.