Tímarit lögfræðinga - 01.09.1997, Page 7
Samkvæmt ákvæði um gildistöku í 28. gr. laganna skal fylgt eldri reglum um
uppgjör bótaskyldra slysa, er urðu fyrir 1. júlí 1993, en reglum laganna um slys
er verða eftir það.
Með tilkomu þessara laga varð mikil breyting á íslenskum skaðabótarétti.
Lögin mæla fyrir um aðferðir til að ákveða bætur fyrir fjártjón og miska til
manna, sem verða fyrir líkamstjóni. Þær reglur eru reistar á verulega breyttum
grunni miðað við reglur sem áður var byggt á og höfðu að miklu leyti mótast
fyrir dómvenju. Hið sama á við um bætur fyrir missi framfæranda. Setning
laganna hefur af ýmsum verið nefnd bylting í bótarétti og það með nokkrum
rétti. Erlend og þá fyrst og fremst dönsk áhrif réðu vafalaust nokkru um að
ráðist var í setningu löggjafar á þessu sviði, en í grannlöndum okkar hafa á
síðustu árum verið sett lög um ákvörðun bóta vegna líkamstjóns. í athuga-
semdum, sem fylgdu frumvarpi til skaðabótalaga, er skýrt hvernig litið var til
erlendra fyrirmynda við samningu þess.
2. GAGNRÝNI Á LÖGIN
Ekki verður sagt, að styr hafi staðið um efni frumvarpsins meðan það sætti
meðferð Alþingis. Athugasemdir komu þó fram þegar frumvarpið var til
umfjöllunar hið fyrra sinn, og leiddu þær til þess að nokkrar breytingar voru
gerðar áður en það var lagt fram á næsta þingi. Að öðru leyti sigldi frumvarpið
tiltölulega lygnan sjó við afgreiðslu löggjafans á því.
Gagnrýni kom hins vegar fram nánast strax í kjölfar lagasetningarinnar.
Fimm hæstaréttarlögmenn rituðu dómsmálaráðherra bréf 5. ágúst 1993 þar sem
tiltekin ákvæði laganna voru harðlega gagnrýnd. Fyrst og fremst var spjótum
beint að ákvæðum 1. mgr. 6. gr. laganna, sem geymdi fyrirmæli um svokallaðan
margfeldisstuðul. Samkvæmt ákvæðinu (eins og það var fram til setningar laga
nr. 42/1996) skyldi reikna bætur þannig til fjárhæðar, að þær yrðu 7,5föld
árslaun tjónþola, margfölduð með metnu örorkustigi, að teknu tilliti til lengdar
ólifaðrar starfsævi. Héldu lögmennirnir því fram, að margfeldisstuðullinn 7,5
dygði hvergi nærri til að mæla raunverulegt fjártjón tjónþola af metinni örorku,
en það hefðu fyrri útreikningsaðferðir gert. Frekari rökstuðning settu þeir fram
í bréfi 30. ágúst 1993. Andsvör komu fram, en öll þessi umræða var háð á
opinberum vettvangi og því óþarft að tíunda nánar þau sjónarmið, sem þar var
teflt fram. Beindu lögmennirnir erindi sínu skömmu síðar einnig til allsherjar-
nefndar Alþingis, sem hafði fjallað um málið á sínum tíma.
3. SKIPUN TVEGGJA NEFNDA
Allsherjamefnd Alþingis lét málið til sín taka og ritaði dómsmálaráðhena
bréf af því tilefni 27. janúar 1994. Þar segir, að nefndin hafi tekið hin nýju
skaðabótalög til umræðu, meðal annars í kjölfar rökstuddra ábendinga nokkurra
lögmanna um þörf lagabreytinga. Nefndin hafi jafnframt fengið rökstudd svör
við þessum ábendingum frá þeim, sem samdi frumvarpið á sínum tíma. Fór
nefndin þess á leit við ráðherra, að hann skipaði Guðmund Skaftason, fyrr-
147