Tímarit lögfræðinga - 01.06.1999, Side 15
menn bara um áhættufjárfestingar útgerðarmanna! Atli telur heldur ekki að rök
Lockes réttlæti úthlutun veiðiheimildanna. Eins og fram hefur komið segir hann
það vera „réttlætismál að tryggja rétt sjómanna og útgerðarmanna á fiskimiðun-
um“ og bætir síðan við:
Mér finnst trúlegt að sjómenn sem róa upp á hlut eigi hefðbundinn rétt til veiða og
því hefðu lögin átt að tryggja þeim kvóta ekki síður en eigendum útgerðarfyrir-
tækja.25
Þetta er vitaskuld hárrétt athugað. En hvers vegna skyldum við láta staðar
numið við þær starfsstéttir sem sækja sjóinn og eiga útgerðarfyrirtækin? Hér er
rétt að minnast þess að kenning Lockes styðst ekki síst við hugmyndir hans um
verðmætasköpun.26 I langri hefð íslensks sjávarútvegs hefur verðmæti sjávar-
fangs skapast í landi ekki síður en á sjó. Það er óneitanlega þröngur skilningur
á nýtingu sjávarafla að einskorða hana við útgerð og fiskveiðar og útiloka alla
fiskvinnslu.
Freistandi er að ganga mun lengra og horfa ekki bara á nýtinguna sjálfa
heldur huga að margvíslegum forsendum hennar í íslensku samfélagi.27 Hvar
stæðu bátaeigendur án skipasmiða, útgerðir netabáta án netagerðarmanna, skip-
stjórar, stýrimenn og vélstjórar án þeirra menntastofnana og kennara sem
bjuggu þá undir starfið, kokkurinn án kaupmannsins sem sá um vistir og bónd-
ans sem framleiddi þær, hinn hefðbundni sjómaður án eiginkonunnar eða
vinnukonunnar sem hirti um fötin hans og nestaði hann til sjós? Svo mætti lengi
áfram telja. Sú kenning að einstaklingurinn eignist eitthvað með því að blanda
eiginleikum sínum við það stendur höllum fæti um leið og það er viðurkennt að
þeir eiginleikar séu að einhverju leyti annarra verk.28 Samfélagið er líkt og
samofinn vefur þar sem engin leið er að greina framtak einstaklinga algjörlega
frá því umhverfi sem hefur fóstrað þá. Þetta á ekki síst við um sjávarbyggðir þar
sem nær öll starfsemi fólks hnitast um fiskveiðar og fiskvinnslu.
Líkast til er hér fram komin ein meginástæða þeirrar ranglætiskenndar sem
mikill meirihluti þjóðarinnar hefur fundið til.29 Kynslóð fram af kynslóð hafa
Islendingar búið í haginn fyrir þá arðvænlegu nýtingu á auðlindinni sem nú er
möguleg. Þess vegna var það ranglát ráðstöfun að afhenda veiðiheimildamar
25 Atli Harðarson: „Hverjir eiga fiskinn?“, bls. 417.
26 John Locke: Ritgerð um ríkisvald, bls. 82.
27 Gísli Pálsson færir rök fyrir því að þekkingin sem ræður úrslitum í fiskveiðum sé félagsleg og
eigi rætur sínar í verksamfélaginu (e. community of practice), „Enskilment at Sea“. Man 29
(1994:4), bls. 901-27.
28 Sjá athyglisverða umræðu hjá Ian Shapiro: „Resources, Capacities, and Ownership. The Work-
manship Ideal anð Distributive Justice". Political Theory 19 (1991:1), bls. 47-72, einkum 56-58.
Þetta er ein ástæða þess að áhrifamestu réttlætiskenningar samtímans (svo sem þeirra Johns Rawls
og Ronalds Dworkin) hafa tekið þann kost að líta á hæfileika einstaklinga sem slembilukku erfða
og aðstæðna og því verðskuldi þeir ekkert þeirra vegna. (Sjá Jón Kalmansson: „Að eiga ekkert
skilið: um verðleika, jöfnuð og réttlæti". Skímir 169 (haust 1995), bls. 348-368.)
29 Sbr., ti! dæmis, þjóðarpúls Gallup, júlí 1998.
81