Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1962, Síða 22
16
Ávarp forseta Islands, lnerra Ásgeirs Ásgeirssonar:
Herra rektor, ríkisstjórn, stúdentar og gestir!
Ég kem hér, eins og svo margir aðrir, sem gamall háskóla-
borgari. Mitt borgarabréf er einu ári yngra en háskólinn sjálf-
ur. Ég stundaði hér nám í þrjú ár, var lengi í Stúdentagarðs-
nefnd, og sæki hingað fyrirlestra við sérstök tækifæri. Háskóla-
nám hefst að loknu stúdentsprófi, en er raunar aldrei lokið.
Það þekkja prófessorar sjálfir bezt, sem eru raunar ekki síð-
ur nemendur en kennarar, ef vel á að vera. Ég minnist minna
háskólaára með sérstakri ánægju, þökk til kennara og virð-
ingu fyrir stofnuninni. 1 minni grein var það svo, að mér
fannst ég flytjast aftur í tímann, þegar ég leitaði til annars
eldri háskóla að loknu námi hér heima. Ég flyt hér beztu árn-
aðaróskir þessari höfuð-menningarstofnun þjóðar vorrar og þá
ósk bezta, að hún storkni aldrei í formum né fræðum, og láti
ekkert íslenzkt né mannlegt sér óviðkomandi.
„Vísindin efla alla dáð“, stendur yfir dyrum Háskólans. En
það eru ekki' þau vísindi ein, sem mæla og vega, heldur þurfa
þau að ná til alls þess, sem varðar mannlegt líf og tilveruna
í heild sinni. Það viðfangsefni er ærið, og þarf mikla íþrótt
til að yfirstíga þær þrautir og torfærur, sem verða á leiðinni,
ekki siður en hjá Otgarðaloka. „Vísindi" er enginn nýr galdra-
stafur, sem leysir allar gátur, heldur spretta oft tvær, þar sem
ein var af höggvin. Nytsemi og þekking er mark og mið, en
spennir ekki yfir allt, sem maðurinn þráir og tilveran geymir
í skauti sínu. Undrun og hugboð, vonin og trúin er seglbún-
aðurinn, sem ber mannkynið áfram eftir leiðarstjörnu á lífs-
ins sjó, en ekki má vanta stýri heilbrigðrar skynsemi. Sjórinn
er máske sléttur, þegar litið er aftur um stafn, en framundan
gína öldurnar og ægilegar holskeflur.
Ég óska Háskólanum þess, að honum auðnist á hverjum
tíma að þjóna þörf þjóðarinnar svo sem bezt má verða, og
einnig þess, að hann geti veitt nokkra forustu í því, sem mestu
varðar, lífsstefnu hvers einstaklings og farsæld og friði þjóð-
arinnar í heild. Háskólinn er fámenn stofnun á alþjóðavísu,