Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1962, Síða 62
46
en landlegurnar leiði af sér ýmiss konar spillingu, svall og
ómennsku. Undir landbúnaðinum telur hann langmest komið,
enda höfðu helztu framfarir undanfarinna ára verið fjölgun
sauðfénaðar. En dýrkeypt reynsla sýndi, að sauðféð, sem allt
of víða var sett á guð og gaddinn, var ótryggur bústofn, undir
eins og harðnaði í ári. Eina landið, sem átti að heita ræktað,
fyrir utan fáeina kálgarða, voru þýfðir túnkragar kringum
bæina. Taðan var ekki meiri en þurfti handa kúnum, og þeim
hafði fækkað til muna frá því sem verið hafði um 1700.
En Bjarni Thorsteinsson lætur sumt kyrrt liggja í þessu riti,
sem vita má, að fyrir honum hefir vakað.
Hann tekur reyndar fram, að engar horfur séu á því, að Is-
lendingar verði þess um komnir að reka sjálfir verzlun. En
hann leiðir hjá sér að lýsa verzlunarástandinu, eins og það var.
Um það efni varð háttsettur konunglegur embættismaður að
tala varlega, og auk þess sat Bjarni einmitt 1834 í nefnd, sem
átti að athuga þetta mál. En það lá í augum uppi, að þótt hin
rígbundna einokun hefði verið afnumin — eins og jafnvel síð-
ar, eftir að verzlunin var gefin alveg frjáls að lögum, — var
veldi hinna dönsku selstöðukaupmanna eitt af því, sem stóð
efnalegri viðreisn þjóðarinnar mest fyrir þrifum. Verzlunin var
bæði vond, og allur arður af henni var fluttur úr landinu.
Árið 1703 voru Islendingar 50 þúsundir. Á átjándu öldinni
fækkaði þeim ýmist langt niður fyrir þá tölu, allt niður í hér
um bil 34 þúsundir, eða fjölgaði aftur, þegar svíaði til. Eftir
móðuharðindin og fleira, sem þá dundi yfir, var tala lands-
manna árið 1787 undir 39 þúsundum. Nú var Bjarni Thor-
steinsson fæddur 1781 og í Skaftafellssýslu, sem harðast var
leikin. Sumar þær hörmungar máttu vera honum í barnsminni
og frásagnir af þeim öllum mjög hugstæðar. Var ekki eðlilegt
að álykta af sögu átjándu aldar, að hvenær sem mannfjöldinn
næði 50 þúsundum gæti verið vá fyrir dyrum, hvað þá ef hann
yrði meiri en þær 54 þúsundir, sem nú voru í landinu? Til
hvers var að fjölga fólkinu úr hófi fram, ef afleiðingin yrði
því meiri mannfellir þess á milli?
Loks leynir það sér ekki, að Bjarni amtmaður og fleiri mæt-