Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1962, Side 112
92
Hið innra stríð frá hybris til sófrosyne,
saga ofsans til hófs er boðskapur þinn,
samræmið, fegurðin fundin í glaðaljósi
fagnandi mannvits, sem leitar dýpra og inn
og uppgötvar heiminn nýjan og fagurfundinn
og festir í marmara, skreytir hofið og lundinn,
skapar þá list, sem leysir reginfjötra,
lyftir mannlegum þanka í stjarnanna hæðir
og kveður til vor enn yfir aldanna höf
sem máttugur óður um manninn og himininn.
V.
Ó, Róm, ó, Róm, þótt fölni fegurð þín
og falli hof og torg þín verði gripabeit
og önnur kynslóð eigri þar um garða
að auðnu sinni í smalaleit
og detti blind um dauðra minnisvarða,
þá kveður rödd þin enn í okkar sal:
Rétturinn háður hófs og mannvits skorðum,
hnitaður, tempraður af lífsins nauðsyn,
fjölbreytilegur, fögrum tjáður orðum,
hann fyllti eitt sinn þennan hvelfda dal
frá Eskilín og upp til Kapitól.
Umburðarlyndi, vit og heiðrík gát
stóðu í hlé við stálgrátt veldi Rómar,
stöfuðu réttinn, þeim er dæmdu og skráðu,
svo sekur maður átti hér sitt athvarf
til áfrýjunar, hver sem dóminn felldi.
Því leggur skinið enn af þínum eldi
til yztu stranda, hvar sem kveðast dómar.