Hugur - 01.01.1989, Page 14
LUDWIG WITTGENSTEIN
HUGUR
Setning er mynd, sagði hann. Myndir geta verið réttar eða
rangar alveg eins og setningar eru sannar eða ósannar, og við
skiljum nýja setningu með sama óbrotna hætti og við sjáum
nýja mynd sem sýnir okkur eitthvað sem við höfum aldrei séð
áður.
Myndakenningin um merkingu er höfuðkenning Wittgen-
steins í Ritgerðinni, og þar notar hann hana í margvíslegum
tilgangi: til að rökstyðja eindahyggju um heiminn og líka þá
kenningu Freges og Russells að stærðfræði sé öll smættanleg í
rökfræði. En við höfum ekki tóm til að staldra við nema eitt
atriði. Það er að vísu höfuðatriði.16
Það er að minnsta kosti ein áberandi undantekning frá því
að setningar séu myndir. Setningar rökfræðinnar eru ekki
myndir. Rökfræðileg sannindi eru klifanir sem Wittgenstein
kallaði, eins og „Annaðhvort rignir eða rignir ekki“ eða „Ef
það rignir í dag verður leiknum aflýst, og það rignir í dag svo
það verður enginn leikur“. Wittgenstein fann raunar upp á
einfaldri aðferð sem nú stendur í hverri kennslubók í rök-
fræði, svonefndri sanntöfluaðferð, sem sýnir þetta með eink-
ar ljósum hætti fyrir setningarökfræði. Hún er aðferð til að
leiða í ljós að samsett rökfræðileg setning er ávallt sönn, hvort
heldur setningamar sem hún er sett saman af eru sannar eða
ósannar. Og setning sem er ávallt sönn segir okkur ekkert um
heiminn. Ilún er ekki mynd af neinu. „Annaðhvort rignir eða
rignir ekki“ gefur okkur enga mynd af veðrinu.
Setningar rökfræðinnar segja ekkert. Hyggjum aðeins betur
að þeim. Eg hef enn ekki rökstutt þessa kenningu nema með
því að nefna dæmi. Minnumst þess nú að rökfræðin fjallar um
setningar og á að segja til um hvenær og hvemig eina setningu
leiðir af öðrum setningum. Tökum ályktunina:
Ef það rignir verður leiknum aflýst.
Það rignir.
Þar með verður leiknum aflýst.
16 Um eindahyggju Wittgensteins sjá James Griffin: Wittgenstein's
LogicalAtomism, Clarendon Press, Oxford 1964. Þetta hefurmérþótt
einhver bezta bók sem um Wittgenstein hefur verið skrifuð.
12