Hugur - 01.01.1989, Blaðsíða 62
SIÐFRÆÐI KANTS OG AFSTÆÐISHYGGJA
HUGUR
menn lentu í röklegri mótsögn ef þeir vildu að forsendur
rangrar breytni yrðu að almennum löguin eða reyndu að
réttlæta verk sem eru siðferðilega röng. Menn hafa og verið
iðnir við að benda á að engin formleg mótsögn sé í því fólgin
að vilja að allt fari til andskotans og óréttlætið vaði uppi. Ekki
er alls fyrir það að synja að Kant gefur þessari túlkun undir
fótinn. Eg held þó að hún geti tæpast verið rétt og held að hægt
sé að fá meira vit í það sem hann segir um mótsagnir með því
að taka tillit til kenningarinnar um fyrirmyndir [Ideale] í
Gagnrýni hreinnar skynsemi.
Þess ber að geta að orðið sem Kant notar og er iðulega þýtt
með „mótsögn“ er „Widerspruch“, sem getur að vísu þýtt
mótsögn en getur líka þýtt andmæli, þræta eða ósætti. Rétt er
og að geta þess að í tilvitnuninni hér á undan segir Kant ekki að
forsendumar [die Maxime] sem um ræðir feli í sér mótsögn
heldur að með því að vilja að þær verði að almennum lögum
andmæli viljinn sjálfum sér [sich selbst widersprechen wíirde].
Enn er rétt að geta þess að sá vilji sem Kant fjallar um er ekki
sálargáfa sem er aðgreind frá skynseminni, heldur sú hlið
skynseminnar sem heitir siðvit [praktische Vernunft]. Þessi
vilji er partur af þeirri skynsemi sem sífellt kallar á fullkomn-
un. I ljósi þessa getum við skilið hvað Kant á við þegar hann
talar um að viljinn andmæli sjálfum sér, sé ósáttur eða í mót-
sögn við sjálfan sig. Ósættið eða mótsögnin felst í því að hann
krefst fullkomnunar en reynir þó að réttlæta forsendur sem
stangast.á við þessa fullkomnun. Af þessu verður innra ósætti,
mótsögn, þræta eða „Widerspruch“.
Til að skýra þelta nánar skulum við átta okkur á því að Kant
taldi að skynsemin væri f eðli sínu óvilhöll. Mann kann að
dreyma um eitthvað sjálfum sér til handa og hreppa það með
því að ganga á hlut annarra, en skynsemin segir honum að gera
ekki upp á milli sín og annarra heldur fylgja þeim lögum sem
hann vill að aðrir fylgi. Líti hann málið undir siðferðilegu
sjónarhomi þá lítur hann það augum skynseminnar, í ljósi hug-
sjónarinnar um fullkoinnun óháð sérhagsmunum hans sjálfs.
Þessi kenning um að skynsemin sé óvilhöll og krefjist sífellt
fullkomnunar er grundvöllur hugmyndar Kants um afdráttar-
lausa skyldu:
60