Hugur - 01.01.1989, Síða 17
HUGUR
ÞORSTEINN GYLFASON
IV
Wittgenstein hélt að fleira væri ósegjanlegt en rökvíslegar
ályktanir og innsta eðli hlutanna. Hann trúði hinu sama um list
og fegurð, trú og siðferði. I fyrirlestri um siðfræði sem hann
flutti í Cambridge 1929, og til er á íslenzku í Skími 1968,
varpaði hann ljósi á þessar skoðanir sínar með einföldum
dæmum.23 Þessi dæmi sótti hann í eigin reynslu sína, og þóttist
vita að þau ættu sér einhvers konar hliðstæður í reynslu hvers
einasta manns. Annað dæmið var af þeirri tilfinningu að vera
algerlega óhultur, sama hvað gerist. Hitt var af þeirri
tilfinningu að undrast það að heimurinn skuli yfirhöfuð vera
til, að eitthvað skuli vera til fremur en alls ekki neitt. Það vill
svo til um sjálfan mig að ég get sett mig í spor Wittgensteins
um báðar þessar tilfinningar. Ég gæti líka nefnt frá eigin
brjósti þá tilfinningu að það sé fullkomið samræmi í öllum
hlutum sem ekkert geti raskað. Aðrir þurfa kannski önnur
dæmi til að lifa sig inn í vandann og lausn Wittgensteins á
honum.
Nú skulum við veita því athygli um öryggistilfinninguna -
„Ég er öldungis óhultur, það getur ekkert grandað mér!“ - að
lýsing okkar á henni er ósköp einfaldlega merkingarlaus í
hversdagslegasta skilningi. „Að vera óhultur“ er skilorðs-
bundið hugtak. Við erum óhult hér inni af því að það er engin
hætta á að við blotnum þó að rigni og að minnsta kosti lítil
hætta á að við verðum fyrir bíl eða smitumst af alnæmi. En það
er ekkert til sem heitið gæti að vera óhultur skilyrðislaust,
sama hvað gerist. Ekki frekar en það er til skilyrðislaust
heilbrigði þannig að ég geti sagt „Ég er heilbrigður sama hvað
gerist, líka þótt ég veikist.“ Svo að hér höfum við dæmi þess að
hversdagsleg mannleg tilfinning, öryggistilfinning af ákveðnu
tæi, verði ekki látin í ljósi nema með merkingarlausum orðum.
Þessi tilfinning er með öðrum orðum ósegjanleg.
23 Ludwig Wittgenstein: „Fyrirlestur um siðfræði'* þýddur á íslenzku og
aukinn fáeinum inngangsorðum af Þorsteini Gylfasyni í Skími CXLII,
Reykjavík 1968, bls. 91-103.
15