Hugur - 01.01.1989, Page 82
TVENNIR TÍMAR í SIÐFRÆPI DAVÍÐS HUME
HUGUR
þessum hætti þá skiljum við tilfinningar viðkomandi manns og
okkur verður ljóst af reynslunni og af ímynduninni hvað það
er að vera í sporum þessa manns. Það er með þessum hætti sem
okkur verður ljóst eðli viðkomandi aðstæðna og samhygð okk-
ar og umhyggja vaknar.
Eg hef hér að framan gert því skóna að kenning Humes um
samhygð sé í raun talsvert frábrugðin því sem flestir fræði-
menn hafa hingað til talið. Þessari túlkun minni til stuðnings
hef ég vísað til nokkurra atriða í skrifum Humes í Ritgerðinni
og þykist hafa sýnt fram á að ef kenning Humes er skilin á
þennan hátt, þá sé henni kleift að glíma við ýmis gmndvallar
vandamál sem áður voru henni ofvaxin. Ilume virðist vera
ótrúlega kærulaus í greinargerð sinni fyrir ýmsum vanda-
málum sem blasa við lesandanum og jafnvel honum sjálfum.
En að mínum dómi gerir hann sér fulla grein fyrir þessum
missmíðum og honum verður ljóst að þær verða aðeins bættar
með endurskoðun á greinargerðinni fyrir samhygð. A endan-
um telur hann sig hafa komið auga á þær endurbætur sem gera
þarf til þess að dæmi hans gangi upp. En framsetning hans á
þessum endurbótum er ómarkviss og því virðist hann kæru-
laus.
Allt þetta styður túlkun mína, að ég held, og í skrifum
Humes er að finna ótal mörg önnur dæmi sem styðja þessa
túlkun þótt ekki verði þau tilgreind hér.
I næsta hluta reyni ég að færa rök fyrir túlkun minni með
nokkuð öðru móti, nefnilega með því að sýna fram á að ef
meðferð Humes á samhygðarhugtakinu í Ritgerðinni er með
þeim hætti sem ég hef reynt að sýna fram á, þá er samhygðar-
hugtakið eins og við þekkjum það úr Ritgerðinni ekki leyst af
hólmi í Rannsókninni með hugtakinu góðvild. Ég vil þess
vegna halda því fram að greinargerð Humes hér að lútandi sé í
grundvallaratriðum hin sama í báðum bókunum, enda væri
annars ekkert samræmi á milli þeirra.
II
í inngangi sínum að riti Humes, Rannsókn á undirstöðum
siðferðisins, heldur ritstjórinn L.A. Selby-Bigge fram þeirri
skoðun, sem allar götur síðan hefur verið álitinn réttmætur
skilningur á Hume, nefnilega að í þessu seinna riti taki
80