Hlín - 01.01.1950, Page 26
24
Hlín
róma það, er að garði þeirra hjóna báru, hver myndar-
bragur var hjá húsfreyju með litlum efnum.
Á níræðisafmæli hennar í fyrra mintist jeg hennar
þannig í „Morgunblaðinu": „Hafi þær systur Maríu,
Herdís og Ólína, verið andlegu atgervi búnar, hefur
hún síst orðið afskipt því líkamlega: Fríðleikskona, glæsi-
leg að vallarsýn, glaðlegt viðmót, hagleikur í ríkum mæli,
vinnuafköst með einsdæmum. — Ekkert verk fer henni
illa úr hendi. — Hún sameinar þann sjaldgæfa eiginleika:
Mikinn vinnuhraða og frábæra vandvirkni."
Atgervi sínu heldur María fram í háa elli, bæði andlegu
og líkamlegu. Gengur ennþá teinrjett um götur þessa bæj-
ar vinum sínum til augnayndis. — Nú dvelur María í
hárri elli, 91 árs gömul, hjá sinni ágætu dóttur, Ingi-
björgu Daðadóttur í Stykkishólmi. Sækir nú kerling Elli
fast að henni. — Þrátt fyrir bilaða heilsu sinnir hún tó-
vinnu ennþá. Hendur hennar hafa sjaldan verið óvirkar
og svo er ennþá.
Þegar tengdamóðir mín var níræð, hnoðaði jeg saman,
henni til gamans, nokkrum vísum. Kunni ekki við, að
hún fengi enga stöku, kona af slíku skáldakyni. Þessar
vísur eru lítt háfleygar, halda sjer við jörðina. En sannar
eru þær, og víst er um það, að öll þau verk vann hún, er
þar eru talin. Sum þeirra mega missa sig úr okkar þjóðlífi.
Sleppum því. Á hennar tímum urðu þau að vinnast. —
Stökurnar eiga að lýsa störfum hennar við búskap og ljós-
móðurstörf, því þeim gengdi hún stundum í forföllum
þeirrar lögmætu.
Ólafur Jónsson frá Elliðaey.