Hlín - 01.01.1950, Page 160
158
Hlin
Vor.
í brúnni moldinni blundar fræ,
og bíður eftir þeim ljúfa blæ,
sem kemur með vorið á vængjum þöndum,
um víðáttur geimsins sunnan úr löndum,
og strýkur með blæfingrum bera jörð,
svo böndin slakna um frosinn svörð.
Og lækir streyma um laut og haga,
og loftið ómar um bjarta daga,
og litunum fjölgar um landsins vanga,
því loksins er vetrarins ríki stranga
nú horfið með klaka og hvíta mjöll
og kalda storma og nakin fjöll.
Og fræið vaknar af fjöturdvala,
það finnur að vindurinn er að hjala
við moldina frjóu, sem mjúkt það vefur
í mildum örmum og næring gefur,
nú langar það upp í hið ljósa vor,
og lífsstraumar vekja þess afl og þor.
Því loks mun það sigra, lífið unga,
og loks mun það hrinda vetrarþunga,
sem lamar og þreytir og leggur í fjötra,
og Ijúfustu rósina klæðir í tötra,
en þó hennar fjörlífs frjósi lind,
hún fæðist aftur í sömu mynd.
Elísabet Geirmundsdóttir.