Fréttablaðið


Fréttablaðið - 13.09.2011, Qupperneq 42

Fréttablaðið - 13.09.2011, Qupperneq 42
13. september 2011 ÞRIÐJUDAGUR26 26 menning@frettabladid.is Salvadorinn Horacio Cast- ellanos Moya er einn umdeildasti rithöfundur Rómönsku Ameríku í seinni tíð. Hann býður töfraraun- sæinu birginn og dregur upp óvægna mynd af þyrn- um stráðri sögu álfunnar. Salvadoríski rithöfundurinn Horacio Castellanos Moya var gestur á Bókmenntahátíð í Reykja- vík í vikunni sem leið og á dög- unum kom bók hans, Fásinna, út í íslenskri þýðingu Her- manns Stefánssonar hjá Bjarti. Grimmd og harðneskja skipa ein- att stóran sess í bókum Moya. Hann kveðst hafa fengið nóg af töfra- raunsæinu sem Rómanska Amer- íka er oftar en ekki kennd við og vill fjalla um álfuna eins og hún er í raun og veru. Bók hans, El Asco (Ógleði), vakti miklar deilur í El Salvador þegar hún kom út 1997, og fékk Moya líflátshótanir sem urðu til þess að hann flúði land. Að vinna úr áföllum Fásinna er stutt en erfið lesning; segir frá manni sem hefur fengið það verkefni að prófarkalesa ellefu hundruð síðna skýrslu um þjóðar- morð á frumbyggjum í ónefndu ríki í Mið-Ameríku, og er við þann starfa ýmist drukkinn eða hel- tekinn kynórum, kolómögulegur, taugaveiklaður og veiklundaður. „Ég fékk hugmyndina að þess- ari bók fyrir um fimmtán árum,“ segir Moya um Fásinnu, sem kom út á frummálinu 2004. „Kaþólska kirkjan hafði þá látið vinna ítar- lega skýrslu um grimmdarverk í Gvatemala í borgarstríðinu frá 1960 til 1996. Þegar ég las þá skýrslu hjó ég eftir ýmsum setningum úr vitnisburði fórnarlamba sem heill- uðu mig. Ég hripaði margar þeirra niður í minnisbók, sem lá síðan óbætt hjá garði næstu árin.“ Það var ekki fyrr en sex árum síðar sem Moya fór að vinna úr minnispunktunum, þegar hann var á leið til Gvatemala, þar sem hann hafði fengið starf við blaða- mennsku. „Ég var kvíðinn við að fara þang- að, því Gvatemala er enn hættulegt land, ekki síst ef maður skrifar fyrir blað í stjórnarandstöðu. Ég fór því að leita að öðru verkefni til að dreifa huganum og rakst þá á þessa gömlu minnispunkta. Ég hugsaði mér að hér væri komið ágætt verk- efni og byrjaði því að skrifa og varð fljótt svo heltekinn af því að ég skrifaði fyrri hlutann í svo til einum rykk, en tók mér svo um árs hlé áður en ég skrifaði seinni hlutann Það var ekki fyrr en eftir á sem ég áttaði mig á að þetta var í raun leið til að komast hjá því að hugsa um það sem beið mín í Gvate- mala. Ég var í sjálfu sér að gera það sama og aðalsöguhetjan, sem er alltaf að reyna að komast hjá því að hugsa um það sem hann á að vera að gera – en er um leið fyllilega meðvitaður um það.“ Moya segir bókina fja l la um hvernig fólk tekst á við á föl l e ða g r i m md a r verk . „Það fer af stað ákveðið sálrænt ferli þar sem manneskjan reynir að verja sig fyrir áfallinu með einum eða öðrum hætti. Aðalpersónan í þessari bók er í sífelldri leit að ein- hverri truflun frá því sem hún er að gera og í því felst innri togstreitan.“ Blóði drifin saga Moya segir uppvöxt sinn í El Salvador helstu ástæðuna fyrir því að dauði og grimmd verði honum sífelld yrkisefni. „Það voru hryllilegir hlutir í gangi þegar ég var ungur maður. Ég flúði fyrst land 1979 og fór til Kanada. Síðar sneri ég aftur en fór aftur 1997 og þá alfarinn. Þetta hafði varan leg áhrif á mig sem rithöfund og ég skrifa mikið um hversu auð- velt það getur verið að drepa fólk.“ Moya segist þó ekki leitast við að taka eindregna siðferðislega afstöðu í bókum sínum eða predika, til þess geti menn skrifað blaða- greinar eða skýrslur. „Ég er frekar að reyna að losa mig við eitthvað sem er innra með mér. Ég held að það fólk skiptist ekki sjálfkrafa í góðmenni og ill- virkja; manneskjan er flóknari en svo. Ég hef ekki áhuga á svart- hvítum persónum, heldur gráu svæðunum. Ég skrifaði til dæmis bók þar sem aðalpersónan var lög- reglumaður og í sjálfu sér reglu- legt illmenni en í stað þess að sýna hann sem einfalt skrímsli reyndi ég að bregða ljósi á mannlega þáttinn. Þetta vekur ekki alltaf hrifningu, mörgum fannst ég vera að sýna vel- þóknun á persónunni, sem var alls ekki reyndin. Ég var einfaldlega að sýna hann sem manneskju. Ég vil frekar reyna að lýsa samfélaginu með öllum sínum flækjum og tog- streitu en eftir ströngum skilgrein- ingum um gott og vont.“ Maður án föðurlands Moya býr sem stendur í Iowa í Bandaríkjunum og hefur verið á flakki undanfarin ár. Tvisvar hefur hann fengið inni hjá samtökunum City of Asylum, sem skjóta skjóls- húsi yfir ofsótta rithöfunda, í fyrra skiptið í Frankfurt og það síðar- nefnda Pittsburgh. Hann lítur á sig sem mann án föðurlands en finnst það ekki mikil fórn að færa. „Ég á vissulega vini í El Salva- dor sem ég sakna en ég hitti þá stundum. Stjórnmálaástandið þar í landi hefur róast og mér er orðið óhætt að fara þangað endr- um og eins en mér líður alltaf dálítið utangarðs þar. Það teng- ist eflaust því að ég var fjögurra ára gamall þegar ég flutti þang- að frá Hondúras; ég er flökkukind sem finnst ég hvergi eiga heima nema þar sem ég er þá stundina.“ Samt skrifar hann nær eingöngu um „heimaslóðirnar“. „Já, það er merkilegur fjandi,“ segir hann og hlær. „Ég bjó um skeið í Tókýó og hugsaði með mér: „Af hverju ertu að skrifa um atburði í Mið-Ameríku, í staðinn fyrir Japan? En þarna er minnið að verki, það ræður oftar en ekki för.“ Fyrir rithöfund eins og Horacio Castellanos Moya eru skriftir bein- línis hættuleg iðja. Spurður hvort háskinn sé honum ofarlega í huga þegar hann skrifar segir hann svo ekki vera. „Svona var bara hvunndagurinn þegar ég ólst upp,“ segir hann. „Það hefur í sjálfu sér ekkert breyst, glæpir hafa tekið við af stríðinu og dánartíðnin er enn svipuð í El Salvador og Gvatemala og hún var á dögum borgarastríðsins. Fyrir rithöfund þýðir ekkert að leiða of mikið hugann að þessu, annars fær maður ritteppu.“ bergsteinn@frettabladid@.is Viltu syngja í skemmtilegum félagsskap? Gospelkór Árbæjarkirkju auglýsir eftir konum og körlum í kórinn. Gospelkórinn er að hefja sitt 14. starfsár og er einn elsti starfandi gospelkór landsins. Áhugasamir mæti í Árbæjarkirkju miðvikudagana 14. og 21. september kl. 17.30. Frekari upplýsingar veitir kórstjórnandinn Ingvar Alfreðsson í síma 867-0377 eða í tölvupósti: ingvaralfredsson@gmail.com Árbæjarkirkja SÉRSTAÐA NORRÆNNA BÓKMENNTA „Hver er sérstaða norrænna bókmennta? Skipta Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs máli?,“ er yfirskrift umræðukvölds sem Norðurlandaráð og Norræna húsið bjóða til í kvöld í klukkan 20. Þátttakendur eru danski rithöfundurinn Pia Tafdrup, Einar Már Guðmundsson, Jón Yngvi Jóhannsson og Auður Aðalsteinsdóttir. Jórunn Sigurðardóttir er stjórnandi umræðna og Gyrðir Elíasson er heiðursgestur. Leikhús ★ Zombíljóðin Handrit, leikstjórn og flutningur: Mindgroup (Jón Páll Eyjólfsson, Jón Atli Jónsson, Hallur Ingólfsson og Halldóra Geirharðsdóttir). Borgarleikhúsið Það er alltaf nokkuð tilhlökkunarefni þegar komið er að fyrstu frumsýningu haustsins. Á föstudag var komið að 555. viðfangsefni Leikfélags Reykjavíkur. Zombíljóðin, eftir leikhópinn Mindgroup í leikstjórn leikhópsins Mindgroup og í leikmynd leikhópsins Mindgroup, fengu inni í Borgarleikhúsinu með sýningu þar sem tónlistarstjórnin var einnig í höndum leikhópsins Mind- group. Íslenskir leikhúsgestir eru með afbrigðum kurteisir eða vel upp aldir í sínu hlutverki sem áhorfendur. Sama hversu mjög þeim ofbýður eða leiðist í leikhúsi, alltaf skulu þeir berja saman lófum og þakka fyrir sig. það verður þó að viðurkennast að stundum er þetta lófatak ein stór feginstuna þar sem fólki er gefið leyfi til þess að komast heim. Fátt er verra en að fá heimþrá á leiksýningu, eða óska þess að vera einhvers staðar annars staðar. Þegar mikil ógæfa dynur yfir hvort heldur þjóð eða einstaklinga þarf ákveðna fjarlægð í árum til þess að geta gert henni skil í listaverki. Það er engin tilviljun að það leið ákveðinn tími þar til kvikmyndaheimurinn og rithöfundar voru færir um að fjalla um ofsóknir nasista í síðari heimsstyrjöldinni, það er engin tilviljun að það tók ákveðinn tíma þar til hægt var að gera bíómyndir um Kennedy- morðið. Eitt af því sem ein- kenndi hinn svokallaða póstmódernisma var að hræra í raunverulegum atburðum helst um leið og þeir voru að gerast. Í þessu verki eru raun- verulegar harmsögur án nokkurrar tímafjarlægðar gerðar að yrkisefni eða umfjöllunar efni uppvakninga á mjög ósmekklegan máta. Nýlátið fólk birtist í gervi upp- vakninga og persónur úr hroðalegu sakamáli, þar sem blekið í dómunum er vart þornað, er látið tjá sig og fella dóma. Margt var vitaskuld gert með skondnum lausnum en heildin var eins og grautur og gutl þar sem raunveruleg frásögn eða markmið lýsti með fjarveru sinni. Allir þeir sem að þessari sýningu komu geta betur, miklu miklu betur. Örlagasögur þeirra persóna úr heimi hinna dánu sem sagðar voru, eru nýbúnar að birtast í miðlum landsins og með þeirri vinnuaðferð sem hér er beitt gengur leik- húsið í raun og veru skrefi lengra en subbulegustu blöðin. Það er ekki hægt að fetta fingur út í leikinn sem slíkan. Bæði Hallur Ingólfsson og Halldóra Geirharðsdóttir héldu mjög vel utan um þær pers- ónur sem þau áttu að fyrirstilla og sama er að segja um Jón Pál Eyjólfsson. Jón Atli verður meira eins og uppfylling í þeim gervum sem hann birtist í. Fíflalegur tilgangslaus línudans átti líklega að sýna hversu miklir asnar finna lausn á sínum málum í slíkri iðju en þau milliatriði urðu eins og tímaeyðsla. Búningarnir voru fáránlegir og þar með svolítið fyndnir. Fulltrúi þeirra sem neitaði að leika með í Facebook-vinaruglinu sem Hallur Ingólfsson lék, var persóna sem hvíldi vel í hlutverki sínu og tókst að smjúga inn undir hjá áhorfendum enda týpan nokkuð hlægileg og varpaði fram þó nokkrum sannleikskornum. Fjölskyldu, sem er enn í sárum í ákveðnu nafngreindu hverfi hér í Reykjavík, var sýnd vanvirðing. Mindgroup-hópurinn hefur áður skapað mjög athyglisverðar sýningar og verður vonandi framhald á því. Það voru ágætar hugmyndir og lítil mynd- brot hér, en heildin gekk ekki upp. Elísabet Brekkan Niðurstaða: Ósmekkleg úrvinnsla á vandmeðförnu efni. HORACIO CASTELLANOS MOYA „Ég held að fólk skiptist ekki sjálfkrafa í góðmenni og illvirkja; manneskjan er flóknari en svo. Ég hef ekki áhuga á svarthvítum persónum, heldur gráu svæðunum.“ FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR Dauðinn var daglegt brauð

x

Fréttablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.