Morgunn - 01.12.1938, Page 62
186
MORGUNN
það blað hóf göngu sína (1886), en lét af því starfi mjög
bráðlega. Síðar varð hann ritstjóri „Lögbergs“ frá stofn-
un blaðsins (1888) og til þess tíma, er hann fluttist heim
hingað (1895) og gerðist meðritstjóri „ísafoldar“. Árið
1901 fluttist hann til Akureyrar, stofnaði með öðrum blað-
ið „Norðurland" og var ritstjóri þess fyrstu árin. Fluttist
hingað 1904 og var ritstjóri „Fjallkonunnar“ 1904—1906.
Ritstjóri „Skírnis“ var hann um tveggja ára bil og rit-
stjórn „Sunnanfara" hafði hann á hendi um tíma, eftir að
blaðið fluttist hingað frá Kaupmannahöfn. Ritstjóri
„Morguns", tímarits Sálarrannsóknafélagsins, hefir hann
verið frá upphafi.
Það mun ljóst af því, sem nú var sagt, að Einar hefir
oftast nær verið ritstjóri eða meira og minna riðinn við
ritstjórn og útgáfu blaða og tímarita um rúmlega hálfrar
__ aldar skeið, eða frá 1886. til dánardægurs. Ræður því að
líkum, að ekki muni það neitt smáræði að vöxtum sem eft-
ir hann liggur á þessu sviði. Mun og sanni nær, að hann
hafi skrifað meira en nokkur annar Islendingur um hans
daga. Greinar hans í blöðum og tímaritum eru óteljandi,
en auk þess hefir hann samið ógrynni af fyrirlestrum og
erindum um ýmisleg efni, ritað skáldsögur, leikrit og ljóð
og snúið á vora tungu geysimiklu úr erlendum málum.
Þess er vitanlega enginn kostur í stuttri blaðagrein, að
lýsa afstöðu E. H. K. til hinna ýmsu málefna, sem uppi
hafa verið með þjóð vorri, síðan er hann fluttist heim
hingað og gerðist samverkamaður Björns ritstjóra Jóns-
sonar. Hitt fær ekki dulist, að hann hafði áratugum sam-
an mikil áhrif á hugsunarhátt þjóðarinnar sem blaða-
maður og stjórnmálamaður. Hann var án alls efa einhver
allra ritslyngasti og snjallasti maðurinn, sem við blaða-
mennsku hefir fengist á þessu landi. Hann skorti að vísu
kraft og kyngi og orðgnótt Bjarnar Jónssonar. Hann not-
aði sjaldan stóryrði, en skrifaði þannig, að jafnvel grimm-
ustu andstæðingar urðu að kannast við yfirburði hans.
Sumir virtust beinlínis kveinka sér við því, að leggja til