Árdís - 01.01.1955, Side 15
Ársrit Bandalags lúterskra kvenna
13
þeim konum, sem tóku upp þjóðbúninga. Reyndu bæði ríkar konur
sem fátækar að koma sér upp búningum, ýmist tilbúnum eða af
eigin raun. Eru mörg dæmi til þess að vinnukonur söfnuðu sér
einum hlut á ári og tókst þannig á mörgum árum að koma sér
upp dýrindis búningum. Svo almennur hefur þjóðbúningurinn
orðið á þessum tíma og fram yfir aldamótin að enn í dag þykir
það eftirtektarvert á íslandi ef gömul kona gengur ekki annað-
hvort á upphlut eða peysufötum. Nú síðastliðin 30 ár hefur út-
breiðsla íslenzka þjóðbúningsins minnkað allverulega, svo að til
undantekningar telst ef ung stúlka tekur upp á því að ganga í
þjóðbúning að jafnaði, þó það sé ekki talið til nýlundu ef svo er
gert við sérstakar hátíðir, svo sem 17. júní, þegar öllum þjóð-
búningum er tjaldað sem til eru. Margir skólar í Reykjavík hafa
tekið upp þann sið að hafa einn dag á ári helgaðan þjóðbúningnum
og er hann kallaður „peysufatadagur“. Klæðast þá allar skóla-
stúlkur upphlutum eða peysufötum og spóka sig um allan bæ.
Það eru aðallega þrjár tegundir af þjóðbúningi, sem notaðar
eru nú á dögum, þótt ef til vill megi tala um fjóra. Þessir búningar
eru skautbúningurinn eða faldbúningurinn, sem er þeirra fegurstur
og íslenzkastur, enda mun hann líkastur hátíðarbúningi forn-
kvenna. Einkennist hann af faldinum, höfuðdúknum og skinna-
lögðum möttli eða skikkju.
Upphluts- eða húfubúningurinn er önnur tegund af þjóðbúningn-
um og einkennist hann af reimuðum upphlut og blússu.
Peysufötin einkennast eins og nafnið ber með sér af peysunni
og auk þess af silkiklút að framanverðu. Báðir síðastnefndu bún-
ingarnir einkennast einnig af skotthúfunni með silfurhólk og skúf.
Fjórði búningurinn, sem ég minntist á, er eiginlega smækkuð
mynd af upphlutnum, venjulega rauður og svartur, með sérstaka
barnshúfu í stað skotthúfunnar og er borinn af telpum og ungum
stúlkum fram að fermingu.
Er sá búningur nokkuð algengur og afar vinsæll meðal barna
og fullorðinna.
Um framtíð hins íslenzka þjóðbúnings er erfitt að segja nokkuð
með vissu. Nú sem stendur er hann í nokkurri hrakför bæði austan
hafs og vestan og víkur hröðum skrefum fyrir annarri tízku.
Bitnar þetta aðallega á hversdagsbúningnum, enda viðbúið að
þjóðbúningurinn lúti algjörlega í lægra haldi sem hversdagsbún-