Árdís - 01.01.1955, Side 46
44
ÁRDÍ S
að koma á stað samkomu og voru valin tvö leikrit, sem skyldu
æfð og leikin; voru þau bæði á ensku, en annað var þýtt á íslenzku
af þremur ungum stúlkum, þeim Vilfríði Holm og Sigríði og
Enu Sigurðsson. Þessi samkoma tókst vel og ágóði varð þó nokkur
þrátt fyrir það þó inngangur væri aðeins 25c. fyrir fullorðna og
lOc. fyrir börn, og kaffi selt á lOc. En þá voru útgjöld lág, því
hægt var að fá góða fiðluleikara til að spila fyrir dansið fyrir einn
dollara, þó það færi svo upp í tvo dollara nokkru seinna.
Eftir það hafði kvenfélagið eina og tvær samkomur á hverju
ári og var ýmislegt haft til skemtunar: sjónleikir, kappræður,
ræður, söngur; byggðin átti ráð á góðum sönghæfileikum og stóðu
þar framt þau systkinin Franklin Pétursson og Hildur Finnsson;
voru þau ætíð reiðubúin að æfa söng með öðrum og syngja sjálf,
mörgum til ánægju.
Árið eftir stofnun kvenfélagsins stendur í fundargjörningum,
að lagt hafi verið út í að byggja eldhús áfast við samkomuhúsið
og kaupa nauðsynleg áhöld til að geta búið til og veitt kaffi á
samkomum. Tókst það svo vel að í júní það sama ár var eldhúsið
orðið svo að hægt var að hita þar kaffi. En þar höfðu margar hendur
hjálpað, en þeir, sem sérstaklega eru nefndir til að hafa unnið við
að smíða, voru Ágúst Einarsson, Franklin Pétursson og Óli Frede-
rickson, en margir fleiri munu þó hafa lagt þar hönd að verki.
Tvær ungar félagskonur máluðu eldhúsið að utan, voru það Þuríður
Ólafsson og Ena Sigurðsson.
Seinna á árinu 1915 lagði félagið til síðu tíu dollara, sem
skyldi verða byrjun kirkjubyggingarsjóðs og nokkru seinna var
ákveðið að leggja í þann sjóð vissa upphæð af ágóða hverrar sam-
komu, sem haldin væri; hve lengi það hefir verið gert, veit ég
ekki, en í seinni tíð hefir aftur vaknað töluverður áhugi fyrir því
máli, þó enn sé ekki komið í framkvæmd.
Á þessum fyrstu starfsárum félagsins voru peningar sendir til
Betel og Red Cross og held ég að mér sé óhætt að segja, að síðan
hefir félagið árlega styrkt bæði þau fyrirtæki. Nokkru seinna var
keypt orgel til notkunar við guðsþjónustur í samkomuhúsinu, og
einnig lagðir peningar í að fullgera húsið.
Á stríðsárunum, bæði fyrra og síðara, voru bögglar sendir til
drengjanna, sem farið höfðu á vígvöllinn úr bygðinni; prjónaðir
sokkar til að senda hermönnunum, og ýmsar gjafir sendar þeim,
sem bágt áttu efnalega, bæði innan byggðar og utan. Peningar