Árdís - 01.01.1955, Blaðsíða 20
18
ÁRDÍ S
Helen Keller sjötíu og fimm ára
Eftir INGIBJÖRGU J. ÓLAFSSON
Á þessu sumri verður Helen Keller sjötíu og fimm ára gömul.
Hennar merkilega ævisaga er flestum að nokkru leyti kunnug.
Hún var fædd 27. júní 1880 í Tuscombo, Alabama. Hún var hraust
barn þar til hún var nítján mánaða að hún veiktist hættulega.
í þeim veikindum misti hún bæði sjón og heyrn. Hin fyrstu ár
ævi sinnar var hún tápmikil en að heita mátti óviðráðanlegt barn,
mállaus, sjónlaus og heyrnarlaus.
Þegar hún var 7 ára kom Anna Sullivan, kennarinn mikli, til
sögunnar, hinn góði engill sem aldrei skildi við Helenu í meir en
40 ár; sem var henni sjón og heyrn um leið og hún var kennarinn
hennar. Frá fyrsta fundi þeirra skýrir Helen þannig: „Ég man
vel eftir fyrsta samfundi okkar, ég fann að einhver var að nálgast
mig og rétti út hendina, ég hélt það væri móðir mín. Þá var mér
lyft upp og ég var umvafin af örmum hennar, sem kom til að
færa mér nýtt líf og opinbera mér alla hluti.“
Það er of löng saga að skrifa hér hvernig Anne Sullivan tókst
að opna nýjan heim og kenna þessu stórgáfaða barni, sem setið
hafði í þögulu myrkri hin fyrstu ár ævinnar. Það var eins og
einhver undrakraftur kæmi til hennar, þegar myrkrið var rofið
og hún kyntist þessum undraheim, sem hún gat þó ekki séð með
líkamlegri sjón. Eftir eigin sögusögn reyndist Helen erfiðast að
læra að tala. Þó tókst það með hjálp Anne Sullivan og Söru
Fuller, sem hafði reynslu í að kenna hinum heyrnarlausu að tala.
Mentabrautin var ekki eins torsótt og búast hefði mátt við —
af einni tröppu á aðra komst Helen unz hún útskrifaðist af
Radcliffe College með heiðursviðurkenningu. Hún talar 7 tungu-
mál, hefir skrifað fjölda ritgerða og margar bækur. Hafa bækur
hennar verið þýddar á meir en 50 tungumál. Ýmsar þjóðir hafa
veitt henni nafnbætur og heiðursviðurkenningu.
Helen er sérlega dugleg og kjarkmikil að ferðast, hvert heldur
sem er með lestum, skipi eða á flugfari. Alls hefur hún heimsótt