Saga - 1965, Side 97
ÚR FRELSISSÖGU SVISS
þjóðfélögum um þetta leyti. Andi bréfsins minnir hins
vegar meir á íslenzkar heimildir og sérstaklega á Leiðar-
hólmsskrá, þar sem risið var gegn ofmiklu dómsvaldi
biskupa. Einnig í henni var sneitt hjá að reita klaustrin
eða páfa til reiði, ekki reynt að spilla því, að biskupar dæmi
„andleg mál“, því að lög eru lög. En í hverju atriði sem
frekja biskupa fer fram úr því, sem fylgjendur Leiðar-
hólmsskrár játa, að séu lög, skal sett hart móti hörðu og
þeir beittir þungum sektum eða gerðir landrækir, sem
bregðast kynnu bandamönnum sínum eða gefast af hræðslu
upp fyrir kirkjuvaldinu. — Heitið er þeim hjálp, sem
verði fyrir ofsókn vegna þessa „samheldis", en þeim, sem
ráða sig í vinnu hjá hinum ofbeldissömu kirkjuherrum,
er heitið handtöku og að vinna sem fangar hjá þeim, sem
„herra kongsins rétt styðja“, en falli réttlausir annars,
hvað sem þeim yrðu misboðið vegna þjónkunar þeirra og
hlutdeildar að klerklegu ánauðaroki. Þetta finnst manni
vera í beinum hugartengslum við Pfaffenbrief, og lesum
nú íslenzku skrána betur.
VII. „Prestabréf“ íslendinga, Leiðarhólmsskrá 1513.
Kirkjuréttur Islands og Noregs varð fyrir minna álasi
síðan Sverri og Innocentius III. leið en kirkjuréttur auð-
ugri staða og stórvelda, þó nokkuð skorti að sjálfsögðu til
þess, að „guðslög", kanónískur réttur, yrði ráðandi hér í
raun, svo gagnstæð sem þau virtust landslögum í mörgu.
Líkt var þessu farið í Sviss, og erjulaust var þar gagnvart
páfagarði. Háklerkar vissu það skipta mjög máli með
kirkjuréttinn, að út úr beitingu hans fengjust sem mestar
tekjur þeim til handa og kirkjunni. Land, sem þeir litu
smáum augum, t. d. Alpadalir og ísland, galt þess þannig
eigi að vera fátækt. Vita þóttust páfar, að mönnum er
syndafyrirgefning þeim mun dýrmætari og fagnaðarríkari
sem þeir hafa orðið að láta meira fé fyrir hana. en í harð-