Saga - 1985, Page 44
42
JÓN GUÐNASON
Eina vopn verkalýðsins til þess að framkvæma verkkaupslögin
og knýja fram peningaborgun voru samtök. Stéttarfélög verka-
manna og sjómanna voru stofnuð í nokkrum kauptúnum tvo
fyrstu áratugi aldarinnar, en fyrst á þriðja áratugnum var farið að
skipuleggja af krafti verkalýðinn á þessum stöðum. Þessi félög
áttu yfirleitt nrjög erfitt uppdráttar, enda vesluðust mörg þeirra
upp, svo að vekja varð þau aftur til lífs. Þótt félög þessi hefðu litla
burði framan af, höfðu þau þó döngun í sér til þess að halda uppi
kröfum um kjarabætur, þar á meðal um kaupgreiðslu í peningum.
Hér á eftir fara nokkrar umsagnir um kaupgjaldshátt í kaup-
túnum og sjávarplássum. Fyrst verður borið niður í blaðinu Dags-
brún 1915, en þar segir í stuttri grein:
Þó það séu lög, að allt vinnukaup eigi að borgast í pening-
um, þá er þó mikið af daglaunavinnu borgað í vörum, já,
meira að segja í mörgum kauptúnum eingöngu í vöruút-
tekt. Þetta fyrirkomulag er til stórtjóns fyrir verkalýðinn,
því þó vörurnar séu ekki alltaf seldar með uppsprengdu
verði, þá eru þær samt oftast dýrari en þær mundu fást fyrir
móti peningaborgun.9
Á Fáskrúðsfirði var þannig ástatt 1913:
Og peninga sér enginn fyrir vinnu, nema helst einhleypir
menn og sunnlendingar. Búsettum mönnum hér borgað í
vörum, sem þeir auðvitað neyðast til að kaupa, svo rán-
dýrum að slíks eru víst óvíða dæmi á landinu.10
Árið 1914 var Verkamannafélagið Árvakur stofnað á Eskifirði,
og var eitt helsta baráttumál þess, að verkamenn fengju laun sín
borguð í peningum. Sigurður Jóhannsson lýsir ástandinu þar
eystra:
Það var ekki fátítt, að þeim, sem höfðu sig í frammi fyrir
félagsins hönd, væri neitað um vinnu og þá sérstaklega um
úttekt í reikning við verslanir. Mörgum var því erfitt um
vik, því að allar greiðslur fóru í gegnum verslunarreikninga.
Peningagreiðslur þekktust nálega ekki."
9. Siður, sem er ósiður. Dagsbriiti I, 3. 24. júlí 1915.
10. Verkmannablad I, 7. 5. júlí 1913.
11. Sigurðurjóhannsson: Verkamannafélagið Árvakur á Eskifirði. Vinnan 3. 1945,
216.