Saga - 1985, Síða 54
52
JÓN GUÐNASON
frumvarp í neðri deild alþingis um breytingu á lögunum frá 1930
um greiðslu verkkaups. Þar var farið fram á, að þessi setning í 1.
grein laganna yrði felld niður: „nema svo hafi áður verið sérstak-
lega um samið.“45 Með þessari breytingu var ætlast til, að verk-
kaup væri skilyrðislaust greitt í peningum, eins og frumvörpin
um greiðslu verkkaups frá 1893, 1897 og 1899 höfðu kveðið á um.
í greinargerð með frumvarpinu segir, að greiðsla á verkkaupi með
skuldajöfnuði (greiðslu í vörum) hafi á síðari árum færst mjög í
vöxt, að minnsta kosti í kauptúnum og kaupstöðum utan Reykja-
víkur. Þetta hafi í för með sér launalækkun hjá verkamönnum og
takmörkun á því, hvernig þeir verji launum sínum. Aukið
atvinnuleysi og framboð á vinnuafli hafi bætt aðstöðu verk-
kaupenda, einkum verslana, til þess að knýja verkamenn til þess
að semja um óhagkvæma greiðslu verkkaups. í framsöguræðu
sinni vitnaði ísleifur til ummæla Skúla Thoroddsens frá 1901 um
ólíka samningsstöðu atvinnurekenda og verkamanna (sjá bls.
21) og kvað aðila hafa réttarstöðu að lögum, en ekki í reyndinni.
Frumvarpinu var vísað til allsherjarnefndar, og þar dagaði það
uppi. Alþingi bárust tvær áskoranir um að samþykkja frumvarp-
ið, önnur frá Verkamannafélaginu Drífandi í Vestmannaeyjum,46
en hin frá Verkamannafélaginu Hlíf í Hafnarfirði.47
Á þinginu 1938 fluttu ísleifur Högnason og Einar Olgeirsson
sama frumvarp um verkkaupgreiðslu, en nú var einnig lagt til, að
orðin „nema öðruvísi sé um samið“ í 2. grein laganna væru felld
brott,48 þar sem gerð var undantekning frá vikulegri kaupgreiðslu
til ákveðins flokks verkafólks. Þegar ísleifur hafði fylgt frumvarp-
inu úr hlaði, flutti Einar stutta ádrepu, þar sem hann átaldi þing-
heim fyrir slælega meðferð á ýmsum þingmálum, ekkert væri rætt
til hlítar og sum mál svæfð í nefnd, og hefur hann ugglaust haft í
huga meðferð þingsins á frunrvarpi ísleifs árið áður, er enginn lét
uppi álit sitt á því og það var svæft í nefnd. Eins fór að þessu sinni-
Verkamannafélagið Drífandi ítrekaði áskorun sína á þingheim að
samþykkja frumvarpið.49
45. Alþingistíðindi 1937 A (síðara þing), 99 (þskj. 11). (Umræður: C, 106-108)
46. Dagbók alþingis 1937, nr. 217 (dags. 28. október). Bókasafn alþingis.
47. Dagbók alþingis 1937, nr. 339 (dags. 14. nóvember). Bókasafn alþingis.
48. Alþingistíðindi 1938 A, 69 (þskj. 8). (Umræður: C, 46-48)
49. Dagbók alþingis 1938, nr. 219 (dags. 1. mars). Bókasafn alþingis.