Saga - 1985, Page 150
148
HAUKUR PÉTUR BENEDIKTSSON
vera alls staðar og ætíð til taks að styðja og hjálpa, þegar ríður á,
þjóðinni til hagsbóta. “28 Bjarni sagði einnig að meira virði væri að
ríkissjóður veitti hjálp þar sem þörf væri á heldur en að reka hann
hallalausan. Pað væru ekki alltaf hagsmunir þjóðarinnar að tekjur
og gjöld ríkissjóðs stæðust á því að ríkið væri ekkert venjulegt
fyrirtæki. Sparisjóðsbókin gæti staðið hallalaus þótt eigandinn
dræpist úr sulti. Hann sagði að gagn væri að sparnaði en þar væri
ekki um löggjafarmál að tcfla og niðurskurðarleiðin væri ekki
trygg. Hlutverk þingsins væri
fyrst og fremst að sjá um að skapa ekki drepandi kyrrstöðu
í landinu, með því að neita um fé til nauðsynlegra athafna,
heldur gæta þess, að blóðrás þjóðfélagsins, framkvæmd-
irnar, stöðvist ekki, svo að allt, sem til framfara horfir,
gangi ekki eins vel, heldur betur en áður.2y
Bjarni forfallaðist eftir þessa ræðu og tók ekki aftur til máls fyrr en
í lokaumræðu. Hann réðst þá aftur á frumvarpið og kallaði það
„mýslu litla og vesaldarlega"30 og sagði bjargráð þingsins, sparn-
aðinn, myndu verða landi og þjóð til óheilla. Rétta leiðin væri að
festa tekjurnar. Þórarinn Jónsson svaraði Bjarna og sagði að
öflugur ríkissjóður væri sú stofnun sem fyrst og fremst gæti rétt
þjóðarhaginn.31 Kvað hann gjaldþoli skattgreiðenda hafa verið
stefnt á ystu nöf. Þá væri ekki önnur leið eftir en taka lán en þau
lægju ekki á lausu og þó svo væri þá kæmi að skuldadögununi-
Það hefði því ekki verið um aðra leið að ræða en þá sem farin hefði
verið.
Þótt Bjarni mælti harðast gegn frumvarpinu höfðu nokkrir
aðrir þingmenn einnig ýmislegt við sparnaðinn að athuga. Má þar
til nefna Ásgeir Ásgeirsson, Jakob Möller og Jón Baldvinsson-
Þeir mæltu ekki beinlínis gegn sparnaði en bentu á að hann gæti
gengið fulllangt. Ásgeir sagði til dæmis:
Fjárhagsvandræði okkar munu lengi standa yfir, og ekki
gott að slá öllu á frest, sem til menningar horfir, þangað til
þeim linnir, cnda mun seint úr rætast, ef menn geta ekkert
28. Alþingistíðindi 1924, B, bls. 97.
29. Alþingistíðindi 1924, B, bls. 101.
30. Alþingistíðindi 1924, B, bls. 954.
31. Alþingistíðindi 1924, B, bls. 1037.