Saga - 1985, Side 228
226
GUÐRÚN ÁSA • HELGI • SVERRIR
af heitum tilfinningum í frelsisbaráttu þjóðarinnar á liðinni tíð? Voru
Þingvellir þá annað en lyftistöng pólitískra markmiða sem sjálfstæð
íslensk þjóð hefur nú gert að minnisvarða en man ekki lengur hvers
vegna?
Nýjar kynslóðir, sem leggja áherslu á náttúruvernd og skynsamlega
nýtingu landsgæða, kunna að breyta Þingvöllum í annan stað en var og
nú er. Því spyrjum við hvaða sjónarmið skuli ráða í bók sem lýsir Þing-
völlum árið 1984, bók Björns Th. Björnssonar: Þingvellir, staðir og leiðir.2
Er það sögulegur skilningur, skilningur á listaverkum sem þessi staður
hefur vakið eða er það skilningur á náttúru staðarins, grjóti hans og gróðri
og því lífi sem með honum vakir án sögu og listar, en lifir sjálfu sér?
Hverjum íslendingi er heimilt að ganga um Þingvelli sem sína eign,
eign þjóðarinnar allrar; sá er árangur frelsisbaráttunnar, sögunnar um
Þingvelli; „frelsið forna“ er nú frelsi okkar allra en til hvers ætlum við að
geyma það — til hvers eru Þingvellir og hvernig verður okkur sagt frá
þeim til þess að við skiljum þennan stað, undur hans, sögu og náttúru?
Bókin Þingvellir, staðir og leiðir er óvenjuleg að ytri frágangi, klædd í blátt
„pluss“ og hlífðarkápu úr glæru plasti; hún geymir fjölda litmynda og
uppdrátta og kostar 1984 krónur. Verðið er hátt sé þess gætt að tímakaup
á dagvinnutaxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, svonefndum
14. taxta, var kr. 82,18 í desember 1984, þegar bókin kom á markað. Það
tók verkamann þrjá daga að vinna fyrir bókinni. Má því ætla að útgefand-
inn, Menningarsjóður, hafi kostað miklu til þessarar bókar þótt hún se
reyndar ekki stór, einungis tæpar 200 blaðsíður.
Bæði er að Þingvellir eru flestum íslendingum kærir og Björn Th.
Björnsson vinsæll og þjóðkunnur höfundur þannig að margir munu lík-
lega leggja í mikinn kostnað til að eignast bókina og hún mun jafnframt
þykja „vegleg vinargjöf*.
í eftirmála bókarinnar („Lokaorðum") segir höfundur að til sín hafi
verið leitað árið 1978 um að rita um þjóðgarðinn og bætir við „þar sem eg
hafði um allmörg ár hugað að Þingvöllum.“ Tilefni beiðninnar var 50 ara
afmæli Menntamálaráðs íslands.
Lesendur Þingvallabókar Björns Th. Björnssonar munu gera miklar
kröfur til verksins, þótt ekki væri nema vegna verðsins og ytri umbúnað-
ar. Þeir niunu ætlast til þess að verkið sé góður og glöggur leiðarvísir og
búast víst fastlega við að höfundur sé fundvís á hnýsileg frásagnarefni. Við
2. Björn Th. Björnsson: Þingvellir, staðir og leiðir. Ljósmyndun: Rafn Hafnfjörð.
Kort: Guðmundur Ingvarsson. Teikning: Gísli B. Björnsson. Útg. Bókaútgáfa
Menningarsjóðs. Reykjavík 1984. 195 bls., myndir, uppdrættir, örnefnaskrá.