Saga - 1985, Page 280
278
RITFREGNIR
ina. Þeir höfnuðu því ótrúlegum sögum, hjátrú og þess háttar, töldu það
skáldskap sem ekkcrt gildi hefði fyrir söguna. Þó vaknar grunur um að
meira búi undir en sést. Sr. Árni Illugason (Hofi á Skagaströnd) reit að
„Soddan Rugl“ úr „Kellinga Frásogum“ sé engan veginn hægt að skrá og
að hann vilji „feigenn hafa“ sig „þar undann þeigenn sem leingst." Samt
flýtur með að vallargarður sjáist þar sem sagt sé að „Gullbrecka /:Stór
bær/: hafe sokked fyrr i Einne Iolagledi med Folke og gósse i brada hasti
um nott...“ (bls. 485). Hér er ef til vill um að kenna feimni við hina háu
nefnd í kóngsins Kaupmannahöfn.
Fróðlegt væri að bera saman málfar einstakra höfunda. Þeir rita þrjár
tungur sem fyrr er nefnt og bregður fyrir þjóðernisrómantík hjá sumum.
Sr. Ásgrímur Vigfússon í Laugarbrekku ritar á dönsku í lok ítarlegrar
skýrslu sem annars er á íslensku, að hann hefði ekki getað veitt svona
góðar upplýsingar ef hann hefði ekki fengið „at bruge mit Moders Maal,
til at kunde des bedre at forklare Sandheden" (bls. 319). Kollega hans, sr.
Björn Pálsson á Setbergi, skrifar í mjög svipuðum dúr.
Margir lögðu á sig mikla vinnu við teikningar o.fl., næstum allir að því
er virðist með glöðu geði. Söfnuninni gátu fylgt langar ferðir. Fyrirmæli
um slíkt munu þó oftar hafa borist frá nefndinni og þá vegna óljósra lýs-
inga í bréfum prestanna. Sr. Stefán Þórarinsson að Möðruvöllum í Hörg-
árdal fékk slíkt erindi og sendi því til baka reikning fyrir ferðum og pappír
(bls. 586).
Þannig er hér margþætt heimild um íslenskar fornleifar og þjóðhætti,
viðhorf til þeirra, vinnubrögð, starfshætti o.fl. Þyrftu minjamenn safna-
stofnana hérlendis að fara rækilega í gegnum þessi gögn og gera þannig
enn nákvæmari skrá en Sveinbirni tókst að semja um einstaka þætti. Þetta
er þó ekki sagt honum til lasts því að skrá hans er góð. Rangt væri að segja
að hér væri einhvers konar grunnur að minjaskrá, tæmandi eða annars
konar. Hér er frekar fordæmi eða jafnvel leiðarhnoða í sumum presta-
köllum. Ekki veitti af að efla minjaskráningu Þjóðminjasafns. Mætti ekki
senda út áhugafólk eða stúdenta í því skyni að skrá minjar um mannvistir
í sveitum og þéttbýli og þá í víðasta samhengi? Hafa sveitarfélög ekki
áhuga á slíku? Það er ófært að Þjóðminjasafnið hafi ekki fé til meira en að
halda úti einum manni í einn til tvo mánuði á ári við minjaskráningu. Slíkt
tekur aldir. Þá má ekki horfa á minjarnar í ofþröngu samhengi og gleyma
hlutum sem eru ekki fornminjar í dag, en verða það á næstu áratugum.
Svo dæmi sé tekið má nefna rústir Holdsveikraspítalans í Laugarnesi í
Reykjavík, hernaðarminjar og minjar um atvinnustarfsemi Norðmanna
hérlendis. Ekki veitir heldur af að skoða vandlega minjar í byggðum, sem
nær eru komnar í eyði, áður en þær eyðast að fullu og allt fólk sem þar bjó
er látið. Ég nefni Viðey, Vestfjarðabyggðir margar og fleira mætti telja.