SunnudagsMogginn - 29.11.2009, Page 14
Þ
að er eitthvað tígulegt við listdans-
ara umfram aðrar starfsstéttir.
Á meðan blaðamenn sitja með
hallandi haus og bognir í baki yfir
lyklaborðinu á þröngum bás og
hamra inn greinar um listdans, að-
eins fingurnir sem hreyfast, þá
teygja og sveigja listdansarar allan
líkamann, hvort sem er á gólfi eða í lofti, og það er
sem hreyfingarnar brjóti gegn þyngdarlögmálinu.
Sviðið er þeirra.
Eiginlega er sama hvaða stellingu þeir koma sér í,
valdið algjört yfir hreyfingunum, þær verða aldrei
fálmkenndar, þvert á móti fumlausar og á sínum
hraða.
Á meðan blaðamenn verða eitt með lyklaborðinu
verða dansarar eitt með eigin líkama, stundum ann-
arra.
Og þannig var stemningin á frumsýningu Íslenska
dansflokksins á Cardiac Strain eftir Tony Vezich og
Shit eftir Kristján Ingimarsson að kvöldi miðvikudags.
Rytminn var þungur í fyrra verkinu og djúpstæður
kraftur í hreyfingunum. En í því síðara kallast kímnin
á við hrunið í íslensku samfélagi.
Þar blandar höfundur saman „látbragði, skrípaleik,
fimleikum, trúðsleik, dansi og leikhúsi“. Og vonast til
þess „að verkið geti verið hvati og huggun í því
hreinsunarferli sem Íslendingar eru um það bil að
hefja“.
Húsið í bænum stendur við torgið og er alltaf lokað.
Lögun þess minnir óneitanlega á kamar. Og það lýsir
einnig best áhrifunum sem það hefur á fólkið, sem er
upptekið við að flækja sig í hvítum borðum, óljóst
hvort það er pappír eða snjór, um tíma eru það
kannski hlutabréf eða stjórnarskráin, en fyrir rest
klósettpappír! Svo er spurningin hvað vex upp úr
skítnum … Kristján Ingimarsson gerir lokabreytingu á dansverkinu Shit 20 mínútum fyrir frumsýningu.
Bak við tjöldin
Augnablikið var fangað frá óvenjulegu sjónar-
horni á djammviku Íslenska dansflokksins, en
þá voru verkin Cardiac Strain og Shit frum-
sýnd. Djammviku lýkur í dag, laugardag, og
gefst því enn kostur á að sjá sýningarnar.
Texti: Pétur Blöndal pebl@mbl.is
Myndir: Golli golli@mbl.is
Af veruleika dansarans
Miklum tíma er eytt í teygj-
ur og upphitun fyrir sýningu
og lesa má í skuggamynd-
irnar sem skapast.
14 29. nóvember 2009