SunnudagsMogginn - 18.04.2010, Blaðsíða 11
18. apríl 2010 11
„Mannseðlinu verður víst aldrei breytt. Fyrirfram var
vitað að konum hér yrði ekki liðið að dufla við karlpen-
inginn á Kárahnjúkum og ef slíkt gerðist fóru sögur af
stað. Almenningsálitið lætur ekki að sér hæða,“ segir
Steinunn Ásmundsdóttir og bætir við að þegar fram-
kvæmdir við Kárahnjúka stóðu sem hæst hafi íslenskir
karlmenn og erlendir á stundum slegist um konur. „Þær
konur sem urðu elskar að mönnum í efra fóru afar dult
með það og földu slóð sína. Annars geturðu rétt ímynd-
að þér að einhvern tíma var gengið út í sumarnóttina á
Fljótsdalsheiðinni og hér og hvar um landið eru nú lítil
börn með yfirbragði manna í sunnanverðri Evrópu.“
Austræn andlit á íslenskum öræfum við Kárahnjúka.
Ljósmynd/Steinunn Ásmundsdóttir
Konur urðu elskar
að mönnum í efra
„Við gengum upp í þorpið og mér fannst strax með
miklum ólíkindum hve langt niður eftir eyrinni flóðið
náði. Fjöldi húsa var í rúst og við vissum að einhverjir
höfðu fundist látnir,“ segir Finnbogi Hermannsson um
stöðu mála á Flateyri þegar hann kom þangað sem
fréttamaður þegar snjóflóð fékk á þorpið haustið 1995.
„Sumstaðar mátti sjá fólk sem puðaðist í gegnum þetta
grátandi. Og þrátt fyrir fumleysið var andrúmsloftið
mjög sérstakt. Snjóflóðin snertu alla á staðnum og að því
leyti var maður kominn inn í það sem kalla má altækt
ástand,“ segir Finnbogi og bætir við að í kjölfar flóðsins
hafi ónotaleg kennd sest í sál hans sem sé þar enn.
Oddviti Flateyringa ræðir við björgunarmenn á vettvangi.
Fumleysi á Flateyri
í kjölfar snjóflóðs
„Þar sem ég fylgdist með þessum bardaga dró ég upp
upptökutækið og hugsaði með mér að gott væri upp á
síðari tíma að eiga hljóðupptöku af stemningunni í hús-
inu sem var býsna sérkennileg,“ segir Hjálmar Sveins-
son. „Á þessum tímapunkti var hins vegar slíkur móður
runninn á lögregluþjónana að þegar einn úr þeirra hópi
sá mig með upptökutæki réðst hann á mig og sneri nið-
ur. Mér var brugðið og úr urðu ryskingar. Á endanum
var það Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra, jafnaldri
minn úr Hafnarfirði, sem skakkaði leikinn og spurði
hvað væri eiginlega á seyði. Enda kom lögreglumað-
urinn til mín á eftir og bað mig afsökunar.“
Mótmæli Ungt fólk og reitt mótmælir við Alþingishúsið
Ljósmynd/Sigurður Bogi
Var snúinn niður
í alþingishúsinu
S
itthvað bar til tíðinda á Íslandi árið 1965.“
Þannig hefst kafli um Kára Jónasson í bókinni.
„Danska þjóðþingið samþykkti að okkur skyldu
afhent íslensku handritin, Laugardalshöllin var
tekin í notkun og á vordögum kom fyrsta Fokker Fri-
endship-flugvél Flugfélags Íslands til
landsins en slíkar vélar voru notaðar í
innanlandsfluginu næsta aldarfjórð-
unginn. Á útmánuðum hélt svo kon-
ungur djassins, Louis Armstrong, tón-
leika í Háskólabíói sem heppnuðust
frábærlega. Fjölmiðlamenn tóku á móti
snillingnum suður á Keflavíkurflugvelli
og tíðindamenn Tímans, þeir Magnús
Bjarnfreðsson og Kári Jónasson, fylgdu
honum eftir. „Við fórum með honum í
rútunni til Reykjavíkur, þar sem
Magnús tók viðtal við Amstrong en ég myndaði. Honum
þótti nóg um að sjá hrjóstrugt landslag Reykjanesskag-
ans þegar hann horfði út yfir breiðuna og sagði „Where
are you taking me?“ með sinni hrjúfu en hlýju röddu.
„Hvert er verið að fara með mig?“ gætu þessi orð út-
lagst.“
En sú frétt sem þó vakti kannski hvað mesta athygli
þetta ár var að hingað væri væntanlegur hópur manna
sem senda ætti út í geiminn. „Námsferðir þessar eru
farnar til þess að gera geimförunum kleift að kynna sér
ýmiskonar jarðmyndanir, svo að auðveldara verði fyrir
þá að velja úr sýnishorn til töku á tunglinu þegar
mönnuð geimför verða send þangað,“ sagði í frétt
Morgunblaðsins 25. júní 1965. Þar voru einnig birt nöfn
tunglfaraefnanna ellefu sem væntanleg voru, en í þeim
hópi var meðal annars Edwin E. Aldrin sem var einn
þriggja þátttakenda í tunglferðinni fjórum árum síðar.
Fimm væntanlegir tunglfarar komu til Íslands með
Loftleiðavél að morgni laugardagsins 10. júlí og hinir sex
næsta dag. Flogið var að morgni mánudagsins 12. júlí
með flugvél frá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli til
Akureyrar en þaðan fóru geimfararnir í Öskju með
rútubílstjórunum Ingimar Ingimarssyni og Guðmundi
Jónassyni. Í samfloti voru Morgunblaðsmennirnir Kjart-
an Thors, Andrés Indriðason og Sverrir Pálsson á Ak-
ureyri í einum bíl, Kári Jónasson af Tímanum og nokkr-
ir norskir blaðamenn. Þá er ónefndur Rudolf
Kristinsson, stórkaupmaður og fornbílamaður, sem var
í för með Kára en saman slörkuðu þeir víða á þessum
árum. Voru meðal annars í mars 1965 fyrstir manna til
að aka bíl upp á Langjökul, sem er alsiða meðal jeppa-
karla í dag.
Fréttir á bílabylgju
„Ég var strax ákaflega spenntur fyrir geimfaramálinu.
Skynjaði að þetta var einstakt fréttamál. Áður en þeir
komu til landsins var haldinn blaðamannafundur í
bandaríska sendiráðinu þar sem málið var kynnt. Þá
þegar var ég þess staðráðinn að fylgja leiðangrinum
eftir í Öskju og Indriði G. Þorsteinsson, ritstjóri Tím-
ans, var raunar mjög áfram um slíkt, enda stóð allur
metnaður hans til þess að gefa út öflugt fréttablað. Á
þessum árum var ég farinn að ferðast mikið um landið,
hafði nýlega keypt mér Willys-jeppa og var að því leyti
vel búinn. Fyrir þennan leiðangur var hins vegar nauð-
synlegt að hafa öflugan fjarskiptabúnað. Því fór ég á
radíóverkstæði Landssímans á Sölvhólsgötu, sem var í
næsta húsi við ritstjórn Tímans, og fékk góða talstöð í
bílinn jafnframt því sem heljarstórt loftnet með spólu í
miðjunni var sett á bílinn,“ segir Kári sem hélt rakleið-
is norður í land þegar geimfaraefnin voru komin til
landsins. Með skiptitali í gegnum svonefnda bílabylgju
þar sem samtölin voru afgreidd í gegnum loft-
skeytastöð las Kári, þá staddur í Öskju, frétt sína sem
birtist á forsíðu Tímans þriðjudaginn 13. júlí.
„Geimfararnir komu til Herðubreiðarlinda með far-
þegabíl frá Akureyri um klukkan fjögur í dag, mánu-
dag. Í hópnum eru 24 manns, þ.á m. er dr. Sigurður
Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldason jarðfræðingur.
Hópurinn hélt áfram eftir skamma viðdvöl og voru þeir
komnir kl. 6 e.h. inn að Öskju. Þar slógu geimfararnir
svo upp tjaldbúðum í svokölluðu Drekagili og má segja
að þetta sé mjög myndarleg tjaldbúð þrátt fyrir það að
þeir noti aðeins hermannatjöld af einföldustu gerð.
Geimfararnir kveiktu fljótlega grillelda við tjöld sín, og
notuðu til þess viðarkol, og elduðu þar mat sinn,“ segir
Kári í frétt sinni og getur þess að íslensku jarðvís-
indamennirnir hafi frætt bandarísku geimfarana og
aðra leiðangursmenn um svæðið, það er jarðfræði og
jarðmyndanir þar.
Bílabylgjan var á þessum tíma mjög algeng í fjar-
skiptum. Í gegnum hana gátu menn átt samtöl sín í
millum ellegar miðluðu loftskeytastöðvarnar í Gufunesi
eða Brú í Hrútafirði samtölunum áfram.
„Í skiptitali var bílnúmer viðkomandi kallmerkið.
Raunar náði ég úr Öskju engu sambandi við loft-
skeytastöðvar en Magnús Blöndal Jóhannsson tónskáld,
sem var fjarskiptaáhugamaður og mikið uppi á fjöllum
á þessum árum, heyrði til mín og bar skilaboðin áfram.
Það var í raun honum að þakka að ég kom fréttinni frá
mér.“
Geimfarar Áður en menn héldu til tunglsins í fyrsta sinn árið 1969 kynntu þeir sér aðstæður á Íslandi enda var talið að sitt-
hvað væri með sama svip á þeim hnetti og hérlendis. Sagt er frá komu tunglfaranna í bókinni og eftirfylgd fréttamanna með
þessum óvenjulegu gestum.
Geimfarar í Drekagili
Ellefu blaðamenn segja í bókinni Fólk og fréttir frá stórmálum sem
þeir sinntu og höfðu afgerandi áhrif á þróun samfélagsins.
Sigurður Bogi Sævarsson er höfundur og hér má lesa kaflabrot.
Sigurður Bogi
Sævarsson