SunnudagsMogginn - 18.04.2010, Page 49
18. apríl 2010 49
XLIX
Ég fer heim og loka vandlega gluggum.
Lampi er borinn inn og ég býð góða nótt,
ég segi góða nótt með fögnuð í rómnum.
Mikið vildi ég að allt líf mitt væri svona:
sólríkir dagar eða mildir eftir regn,
með veðragný líkt og heimurinn sé að farast,
lognvær kvöld og mannfjölda úti á göngu
sem ég horfi á með áhuga gegnum glugga,
síðasta auglit vinar sem horfir á skekið tré
og glugga sem er lokað, ljós brennur á kveik,
enginn lestur, hvergi hugsun – andvakan ein
og tilfinning fyrir að lífið streymir um mig
og að baki rúðunnar sé þagnardjúp líkt guði í svefni.
Þýðingin birtist í bókinni Öll dagsins glóð – safn portúgalskra ljóða frá 1900
til 2008, sem JPV-útgáfa gaf út á liðnu ári. Guðbergur Bergsson er tilnefndur til
Íslensku þýðingaverðlaunanna fyrir verkið, en verðlaunin verða afhent á Gljúfra-
steini hinn 23. apríl.
Fjárhirðirinn (brot)
Fernardo Pessoa (1888-1935)
Guðbergur Bergsson þýddi
Samhliða opnun sýningarinnar á ljós-
myndum eftir Árna Thorsteinson í Reykjavík
Art Gallery, kemur út portfólíumappa með tíu
úrvalsmyndum úr þessu safni.
„Um þessar mundir eru 140 ár frá fæð-
ingu Árna og ég taldi við hæfi að standa
myndarlega að kynningunni á þessum
glæsilegu ljósmyndum hans,“ segir Þor-
steinn Jónsson sem gefur möppuna út í 500
tölusettum eintökum. „Myndirnar eru prent-
aðar í fjórlit og reynt að ná fyrirmyndinni eins
vel og unnt er. Með myndunum fylgir texta-
hefti og kynning á ljósmyndaranum.“
Þorsteinn segist hafa valið í möppuna og
á sýninguna myndir sem sýni breiddina í úti-
myndatökum Árna, myndir sem bregði
áhugaverðu ljósi á mannlífið í Reykjavík um
aldamótin 1900.
„Ég valdi því ekki margar myndir sem eru
bara af húsum, en þónokkrar sem sýna ólík-
ar byggingar á þessum tíma. Andstæðurnar
eru miklar, eins og milli fyrstu steinsteyptu
húsanna og ömurlegra kota á borð við Aust-
urbæinn í Melshúsum,“ segir Þorsteinn.
Fóru varlega í lagfæringar á myndunum
Þorsteinn segir að nauðsynlegt hafi verið að
huga vandlega að því hvernig þessar gömlu
myndir eru unnar og stækkaðar upp í dag,
þar sem glerplöturnar hafi með tímanum lát-
ið á sjá og séu rispaðar, en þótt eitthvað sé
lagfært með nýjustu tækni þurfi líka að
halda í andblæ frummyndanna.
„Þær rispur sem eru augljóslega frá
seinni tímum lét ég því laga. Ekki á Árni að
gjalda þess að seinni tíma menn hafa rispað
filmurnar hans,“ segir Þorsteinn. „En það
þarf að fara varlega í allar lagfæringar á
myndum sem þessum.“
Þorsteinn segir að þessi tími sem birtist í
flestum myndanna, síðustu árin fyrir 1900,
sé athyglisverður því þarna hafi Árni mögu-
lega verið einn íslenskra atvinnuljósmynd-
ara um að mynda reglulega utan dyra í
Reykjavík. Sigfús Eymundsson hafi verið bú-
in að draga sig í hlé sem ljósmyndari, Daníel
Daníelsson mágur hans rak stúdíó Sigfúsar
en sinnti einkum mannamyndatökum innan
dyra, en Magnús Ólafssonar var ekki fluttur í
bæinn heldur ennþá verslunarstjóri á Akra-
nesi. Þetta hafi því verið leikvöllur tón-
skáldsins með myndavélina, sem myndaði
jafnt bændur í kaupstaðarferð sem heldri
borgara að róa á Reykjavíkurtjörn.
„Allflestar myndanna sem ég get greint
aldur á eru frá árunum 1897 til 1898, þeim
tíma þegar Árni var með stofuna í þessum
skúr á horni Suðurgötu,“ segir Þorsteinn.
„Þá hefur hann notað tímann til að taka
myndir úti, hugsanlega með það í huga að
geta gefið einhverjar þeirra út á póstkortum.
Það var talin nokkuð arðbær útgáfa á þeim
tíma.“
Útisamkoma á Lækjartorgi. Byggigarfeni, grjót og möl, á torginu. Myndin virðist vera tekin
frá ljósmyndastofu Sigfúsar Eymundssonar, sem var á annarri hæð að Lækjargötu 2.
Tónskáldið skráir mannlífið í
Reykjavík á glerplötur sínar
Prúðbúin hjón í myndatöku fyrir framan ljósmyndastofu Sigfúsar Eymundssonar.
Ljósmyndir/Árni Thorsteinsson
Höltersbær í Skuggahverfi, þar sem síðar var Hverfisgata 41, var reistur 1850. Bærinn var
rifinn um 1900 en síðast bjó þar mormóninn Eiríkur Ólafsson frá Brúnum.
Austurbærin í Melshúsum þótti ein aumasta vistarveran í Reykjavík undir lok 19. aldar.
Þessi hús voru rifin skömmu eftir aldamótin og lóðin lögð undir kirkjugarðinn við Suðurgötu.