SunnudagsMogginn - 06.06.2010, Blaðsíða 15
6. júní 2010 15
niður á hvert lán. Á sumum voru miklar
afskriftir og öðrum minni. Höfuð-
stólslækkunin, sem stendur nú öllum til
boða sem uppfylla ákveðin skilyrði, tekur
mið af því á hvaða afskriftum lánin voru
tekin yfir svo bankinn telur sig hafa
gengið eins langt og honum er stætt á. Ef
hann gengur lengra uppfyllum við ekki
gildandi reglur um rekstraröryggi.“
– Annað viðmið er hagnaður bankans,
sem nam 12,8 milljörðum á síðasta ári eft-
ir skatta. Er þetta ekki annar vísir um að
bankinn hafi meira svigrúm?
„Að þessum hagnaði uppgerðum er
bankinn með 16,4% eiginfjárhlutfall en
lágmarkið er 16% en það var engin arð-
greiðsla út úr bankanum. Ef þessi hagn-
aður hefði ekki komið til hefði bankinn
ekki náð þessu eiginfjárhlutfalli. Bankinn
er að ganga eins langt og hann getur.“
– Finnst þér eðlilegt að þetta verði
endurskoðað ef bankinn skilar jafn mikl-
um eða meiri hagnaði á þessu ári?
„Nýjustu upplýsingar frá Seðlabank-
anum benda til þess að innheimtur lána
séu heldur lakari en ráð var fyrir gert svo
það eru plúsar og mínusar í öllu. Það er
því ekki hægt að svara svona spurningu.“
Nauðungarsölur harkalegar
– Nauðungarsölurnar brenna líka á fólki.
Arion ákvað að fresta nauðungarsölum
vegna vangoldinna húsnæðisskulda út
þetta ár. Hverju á fólk von á eftir það?
„Eins og sakir standa er ákvörðunin
þessi. Um næstu áramót losnar um þessa
frystingu nema annað verði ákveðið.
Auðvitað komum við aftur að því að
skoða það. Meðan lánin eru í frystingu er
tilhneiging fólks að bíða en bankinn er að
reyna að ýta á það að koma sínum málum
í farveg áður en kemur að þessum punkti
þar sem losnar um allt.“
– Munið þið ganga hart fram þegar þar
að kemur?
„Þetta er mjög ósanngjörn spurning.“
– Fólk er í ósanngjarnri stöðu.
„Nauðungarsala er auðvitað harkaleg
aðgerð og það hefur verið ákveðið að þær
fari ekki fram þetta ár. Annað hefur ekki
verið ákveðið.“
– Í mars lá fyrir að bankinn ætti 122
fasteignir, þar af 90 íbúðir. Hvað hyggst
bankinn fyrir með þessar fasteignir? Ætl-
ar hann að selja þær jafnóðum eða er ætl-
unin að bíða með þær?
„Það er ekki mikill þrýstingur á að selja
þær jafnóðum. Bankinn reynir líka að
horfa á stöðuna á markaðinum. Það er
hægt að selja alla hluti strax, þar á meðal
fasteignir, en það er spurning hvort þú
vilt fá slíkt skyndisöluverð eða hvort þú
telur hag í því að bíða með söluna. Mér
skilst að bankinn hafi ekki gengið mjög
hart fram í að selja þessar eignir.“
– Kemur ekki til greina að leyfa fólkinu
sem missti íbúðirnar að búa í þeim?
„Það kemur til greina í einstaka til-
fellum. Við metum hvert mál fyrir sig.“
– Er ekki hætta á að það hafi beinlínis
áhrif á íbúðaverð til lækkunar ef bank-
arnir selja allar íbúðirnar í einu?
„Jú, ég geri ráð fyrir að það geti haft
áhrif á íbúðaverð ef bankinn ákveður að
selja allt strax. Þetta er samspil. Það þjón-
ar ekki hagsmunum bankans sem veð-
hafa í fjölda íbúða að fasteignaverð lækki
mikið. Það þarf því að horfa á þetta í eðli-
legu samhengi. Þetta er eins og með fyr-
irtækjasöluna að því leyti að þó að bank-
inn hafi engan áhuga á að eiga íbúðir þá
endar hann á því að eignast þær. Bankinn
vill helst selja þær strax en verður að
meta afleiðingar þess að gera það eða bíða
eitthvað með það.“
– Gengislánin brenna líka á fólki og eru
í deiglunni núna vegna yfirvofandi dóms
Hæstaréttar um lögmæti þeirra. Mun það
setja alvarlegt strik í reikninginn fyrir
bankann ef þau verða dæmd ólögmæt?
„Bankinn byggir á ákveðnum for-
sendum sem hafa verið lagðar til grund-
vallar reksturs hans. Ég geri ráð fyrir að
það þurfi að fara fram verulegt endurmat
á hlutunum ef til þess kæmi.“
– Það eru þó ekki bara íbúðir sem hafa
komist í eigu bankans. Hann hefur eign-
ast fjölda fyrirtækja, s.s. steypufyrirtæki,
svínabú og stóran hluta Stoða, svo eitt-
hvað sé nefnt. Skekkir þetta ekki sam-
keppnisstöðu annarra fyrirtækja á mark-
aði í sama rekstri, t.d. með því að
bankinn frysti lán eigin fyrirtækja eða
veiti þeim fyrirgreiðslu á annan hátt?
„Það er ekki svo mikill fjöldi fyrirtækja
í eigu bankans þótt mörg fyrirtæki gangi
nú í gegnum endurskipulagningu þar sem
reynt er að koma í veg fyrir að þau komist
í eigu bankanna eða fari í þrot. Fyrirtæki
sem eru í rekstri og eru í eigu bankans eru
á bilinu 10 til 20, allt frá stórum fyr-
irtækjum og niður í pínulítil. Aðstæður
þeirra geta verið mjög mismunandi.
Bankinn getur átt annað tveggja fyr-
irtækja á markaði – fyrirtæki sem hann
telur rekstrarlega vænlegt. Ef bankinn
kæmi hins vegar ekki að því hyrfi það af
markaði og þá yrði eftir eitt fyrirtæki á
markaðinum. Á öðrum sviðum, eins og á
steypumarkaðinum, erum við með eitt
steypufyrirtæki og annar banki með ann-
að steypufyrirtæki. Þetta er mjög óeðli-
legt umhverfi en svona er það.
Samkeppnisyfirvöld hafa gefið út leið-
beiningar og í sumum tilfellum sett skil-
yrði um hvernig bankinn má haga sér í
þessu og það er eðlilegt. Við leitumst við að
fyrirtæki í sambærilegri stöðu fái sömu
fyrirgreiðslu, hvort sem þau eru í eigu
bankans eður ei. En þetta verður ekki full-
komið. Aðstæður eru þannig að það liggur
mikið á að koma mörgum fyrirtækjum út á
markað en hins vegar liggur mikið á því
fyrir bankann að fá eðlilegt verð fyrir fyr-
irtækin. Annars lendir hann í að afskrifa
meira og þá ést af hagnaði og eigin fé
bankans. Þannig að allt þetta þarf að leggja
mat á og í raun og veru eru engin tvö fyr-
irtæki eins.“
– Að starfsmannamálum. Nýlega rifti
slitastjórn Kaupþings ákvörðun um að
fella niður persónulega ábyrgð á lánum
sem starfsmenn fengu til kaupa á hlutum
í bankanum fyrir hrun. Breytir þetta eitt-
hvað stöðu þeirra af þessum starfs-
mönnum sem enn starfa fyrir bankann?
„Nei, þessi ákvörðun breytir ekki stöðu
þeirra innan bankans en aðstæðurnar eru
erfiðar fyrir þá starfsmenn sem eru með
þessar byrðar. Þetta er einfaldlega öm-
urleg arfleifð frá vægast sagt óheppileg-
um ákvörðunum sem voru teknar í gamla
bankanum og í þessu eru ennþá óvissu-
þættir, t.d. varðandi skattalega meðferð
ef til einhvers konar niðurfellinga kæmi.“
– Þetta getur augljóslega leitt til þess að
þessir starfsmenn fari í þrot?
„Já, og ef til þess kemur er deginum
ljósara að það getur haft áhrif á hæfi við-
komandi til að sinna sínum störfum í
bankanum. Þetta er í ákveðnu ferli og
tekur því miður tíma. Fyrirkomulagið á
þessum málum í gamla Kaupþingi var að
mörgu leyti miklu óheppilegra gagnvart
starfsfólkinu hér en virðist hafa verið í
hinum bönkunum og við verðum bara að
sjá hvernig þessum málum farnast.“
– Nokkrir starfsmenn bankans hafa
stöðu grunaðra í rannsókn sérstaks sak-
sóknara og einhverjir þeirra hafa farið í
leyfi. Hversu lengi geta þeir verið í leyfi
því það er ljóst að svona rannsókn getur
tekið langan tíma?
„Afstaða okkar er sú að það er ekki
regla að menn fari í leyfi. Við metum
hvert tilfelli. Sú aðgerð að gefa þessum
starfsmönnum réttarstöðu grunaðra
tryggir þeim ákveðin réttindi en ég held
að í raun séu rannsóknaraðilar að tryggja
að þeirra vinna hafi sem bestan fram-
gang. Við metum það svo að þó að þetta
fólk hafi réttarstöðu grunaðra sé það í
raun og veru vitni.
Þegar þetta kom upp höfðum við rök-
studdar væntingar um að málin myndu
skýrast innan nokkurra daga og að rétt-
arstöðu þessara manna yrði breytt. Þegar
í ljós kom að málið myndi taka lengri
tíma var niðurstaðan sú að við sendum þá
sem eru hér í æðstu stjórnun í leyfi tíma-
bundið en þeir sem eru ekki stjórnendur
eru hér enn við störf.“
– Er þetta fólk á launum á meðan það er
í þessum leyfum?
Já, það er á launum og það getur verið
að innan skamms tíma þurfum við að
endurmeta stöðuna. Ef við teljum engar
forsendur hafa breyst getur verið að við-
komandi komi aftur til sinna starfa eða –
ef eðli starfanna er þannig að okkur finn-
ist það óheppilegt – að þeir komi til ein-
hverra annarra starfa. Það má ekki
gleymast í allri þessari umræðu að þetta
er saklaust fólk þar til það er dæmt.“
Enginn bónus í bili
– Annað hitamál sem nýlega kom upp
voru fréttir af því að verið væri að vinna
að því að koma aftur á bónuskerfi innan
bankans. Hver er þín afstaða til þessara
hugmynda?
„Það verður ekkert bónuskerfi eða
ábatakerfi sett upp hér að svo stöddu.
Mín afstaða er hins vegar að það er ekkert
athugavert við hvatakerfi og þau geta
jafnvel verið gagnleg. Hins vegar voru
þau komin út í vitleysu í gömlu bönk-
unum. Við þurfum að læra af reynslunni
og búa til hvatakerfi sem eru eðlileg, eins
og við þekkjum úr alls konar starfsemi,
s.s. byggingarvinnu og fiskvinnslu.“
– Þú segir: ekki að svo stöddu – sérðu
það fyrir þér í náinni framtíð?
„Ég vil ekki útiloka það. Núna er í
smíðum frumvarp á Alþingi um starfsemi
fjármálafyrirtækja þar sem FME er falið
að koma með regluramma um þetta.
Hann verður svo viðmiðið. Mér finnst í
raun ekkert að hvatakerfum en það er
búið að eyðileggja hugtakið með þessu
rugli sem var hér í gangi, alla vega í bili.“
– Í nýrri skýrslu Seðlabanka Íslands
segir að viðskiptabankarnir uppfylli ekki
reglur hans um stórar áhættuskuldbind-
ingar sem hann segir að séu 87% af eig-
infjárgrunni bankanna. Hvað veldur?
„Arion banki hefur uppfyllt reglur FME
um stórar áhættuskuldbindingar frá 8.
janúar síðastliðnum. Eina áhættuskuld-
bindingin sem uppfyllir ekki viðmið um
að þær fari ekki yfir 25% af eiginfjár-
grunninum er krafa bankans á skilanefnd
gamla bankans. Hún verður til vegna þess
að þær kröfur sem bankinn tók yfir voru
meiri en eignir í formi innlána. Þetta er
gert í samræmi við reglur FME. Í raun
uppfyllum við því þessar reglur en ég get
ekki svarað fyrir hina bankana.“
– Þú ert að koma úr starfi forstjóra Val-
itor, en Samkeppniseftirlitið er að rann-
saka mál um markaðsmisnotkun þess
fyrirtækis. Mun það hafa áhrif á þína
stöðu hjá Arion ef eftirlitið kemst að nei-
kvæðri niðurstöðu fyrir Valitor?
„Þetta er einfaldlega í rannsókn. Félag-
ið er sakað um misnotkun á markaðs-
ráðandi stöðu með því að undirverðleggja
þjónustu en við viljum meina að það hafi
allt verið eðlilegt. Ég ætla ekki að segja
hvort þetta hefur áhrif á mína stöðu en
þetta mál var skoðað áður en ég hóf störf
hérna. Í sjálfu sér óttast ég ekki nið-
urstöðuna.“
Hvað sérðu fyrir þér með verkefni
framtíðarinnar?
„Það er gífurlega mikið verk að vinna. Í
mörgu tilliti er búið að vinna þrekvirki,
t.a.m. með endurreisn fjármálakerfisins
en það eru ákaflega mörg og erfið úr-
lausnarefni eftir. Að mörgu leyti held ég
að menn séu komnir skemmra á veg en
þeir vildu en utanaðkomandi þættir, s.s.
vextir, gengi og verðbólga, hafa líka haft
mikil áhrif á framvinduna hjá fyr-
irtækjum sem við erum að vinna með.
Minni verðbólga, sterkara gengi og lægri
vextir mun þýða að eitthvað af þeim mun
færast út úr gjörgæslunni svo þetta skipt-
ir verulega miklu máli.“
– Heldurðu að bankarnir verði áfram
undir smásjá fólks?
„Já, ég er viss um að allt fjármálakerfið
verður áfram undir mikilli smásjá. Á hinn
bóginn má benda á útibúakerfið okkar,
þar sem 480 manns vinna. Við gerðum
nýlega könnun á viðhorfi til útibúanna og
80% viðskiptavinanna eru mjög ánægð
með þjónustuna þar.
Það er gríðarlega öflugur hópur hérna
innan bankans og verkefnið núna er að
sýna því fólki ljósið svo það fái meiri trú á
framtíðina. Það hafa mjög stór skref verið
stigin í því. Það hafa verið fjórar stjórnir í
bankanum frá hruni og bankastjóri sem
hefur lengi verið vitað að væri til bráða-
birgða. Lengi vel var óljóst hvernig eign-
arhaldi bankans yrði háttað en nú er það
orðið skýrt. Sömuleiðis er komin ný
stjórn og nýr bankastjóri svo það hafa
orðið ákveðin kaflaskil. Nú getum við
farið að horfa svolítið einbeittari fram á
veginn.“
– Verða viðbrögðin við þessum um-
deildu málum til þess að bankinn stígi
varlegar til jarðar en ella?
„Hluti af okkar vinnu er að fara í gegn-
um það sem við teljum vera álit umhverf-
isins og leggja það á vogarskálarnar. Það
er ekki alltaf hægt að hlaupa algjörlega
eftir skoðunum samfélagsins á hverjum
tíma, enda vilja þær stundum breytast
dálítið fljótt. Í einhverjum tilfellum býr
bankinn yfir öðrum upplýsingum en al-
menningur og þarf að taka ákvörðun út
frá þeim. Ég tel þó klárt að bankinn þarf
að horfa mjög til þess hvernig umhverfið
metur hlutina því það er liður í því að
byggja upp traust. En við munum þurfa
að taka ákvarðanir sem við vitum að orka
tvímælis.“
– Hvenær heldurðu að við förum að sjá
til lands?
„Ég held að ákveðnum áföngum hafi
verið náð með því að búið er að reisa við
kerfið. Ef við erum ekki búin að ná botn-
inum erum við býsna nálægt honum og
eigum að geta farið að þokast upp á við.
Við sjáum ýmis teikn um það; atvinnu-
leysið er minna en bestu væntingar gerðu
ráð fyrir og gengið virðist vera undir
stjórn. Almennt hefur maður á tilfinning-
unni að við séum í bærilegri stöðu að því
leyti að við höfum meiri stjórn á hlut-
unum en víða í öðrum löndum sem við
horfum til. Nú þurfum við bara að fara að
hreyfa okkur hraðar fram á veginn.“
’
… aðstæðurnar eru erfiðar fyrir þá
starfsmenn sem eru með þessar byrðar.
Þetta er einfaldlega ömurleg arfleifð frá
vægast sagt óheppilegum ákvörðunum sem
voru teknar í gamla bankanum.